MAZDA Demio kom á markað í Japan 1996 þar sem mikill markaður er fyrir smábíla með miklu flutningsrými, sem sumir setja í flokk með smærri fjölnotabílum. Í fyrra reyndist Demio síðan söluhæsta gerð Mazda í Japan.

Lítill bíll með

miklu rými

MAZDA Demio kom á markað í Japan 1996 þar sem mikill markaður er fyrir smábíla með miklu flutningsrými, sem sumir setja í flokk með smærri fjölnotabílum. Í fyrra reyndist Demio síðan söluhæsta gerð Mazda í Japan. Keppinautarnir í Japan eru helst Suzuki Wagon R, sem reyndar er um 40 sm styttri en Demio og um 20 sm hærri, og Daihatsu Move, sem er um hálfum metra styttri og einnig um 20 sm hærri. Málin á Demio skiptu sköpum við markaðssetninguna í Japan því þar er bílastæðavandi mikill í stórborgum og algeng lausn eru staðlaðar bílageymslur víða í borgum sem Mazda miðaði við þegar stærðarhlutföllin voru ákveðin á Demio.

Þótt Demio hafi sömu kosti hvað varðar flutningsgetu og fyrrnefndir keppinautar er útlit hans þó mun hefðbundnara og fólksbílalegra. Hugtakið fegurð er afstætt en frá bæjardyrum þess er þetta ritar býr Demio yfir fremur íhaldssömum þokka en vart verður hann bendlaður við stefnumarkandi hönnun. Þetta er hlaðbakur í smábílaflokki sem er rúmgóður og býður upp á ýmsar útfærslur í innanrými.

Þægilegur í umgengni

Prófaður var Demio GLX, sem er betur búinn en LX útgáfan. Munar þar mestu í búnaði um aflmeiri vél, rafdrifnar rúður og spegla, samlæsingar og útlitslega um vindskeið að aftan og þakboga.

Sætin eru há og afar þægilegt að umgangast bílinn á allan hátt þar sem hátt er til lofts. Lítið þarf að bogra til að komast inn í bílinn og út úr honum. Þetta er atriði sem er margir meta mikils, ekki síst eldri bílkaupendur eða hávaxnir eða bakveikir. Auk þess er ökumannssæti hæðarstillanlegt.

Aftursætisbekkur er færanlegur fram og aftur á sleða en það gagnast farþegum lítið því ekki fer vel um meðalmenn nema bekkurinn sé í öftustu stöðu. Það getur hins vegar munað um færsluna á bekknum þegar vantar örfáa sentimetra upp á að stór hlutur komist í farangursrýmið.

Aftursætisbök er hægt að fella fram 50/50 og seturnar er einnig hægt að fella fram og myndast þá verulega gott flutningsrými. Einnig er hægt að halla aftursætisbökum til þæginda eða fella öll sætisbök aftur og mynda flatt rými, tveggja metra langt, þar sem hægt væri að leggjast til svefns.

Gott útsýni

Stjórntæki eru vel innan seilingar og mælar eru stórir og auðlesanlegir. Innréttingin er tvílit, mælaborðið dökkgrátt en ljósari litur er á hurðarspjöldum og sætum. Dálítill plastkeimur, eins og í langflestum fjöldaframleiddum bílum í þessum verðflokki, (hvers vegna þarf plast í bílainnréttingum alltaf að vera í gráum eða svörtum lit?), en snoturlega er frá öllu gengið, nema helst í farangursrýminu, þar sem krossviðsplata klædd filterteppi að ofan og einangruð með berri einangrunarull að neðanverðu, skýlir varahjólinu og tjakk. Enginn hanki var heldur sjáanlegur á plötunni til þess að lyfta henni upp. Kostur er á hinn bóginn að þegar skottlokið er opnað kviknar ljós í hliðinni.

Það sem vekur strax athygli þegar sest er inn í Demio er hið mikla útsýni sem er í bílnum. Þótt ótrúlegt megi heita verður helst að leita til jeppa til að finna samjöfnuð. Gluggafletir eru allir stórir í Demio og há sætastaða eykur einnig útsýnið til muna, einnig í aftursætum. Þriðja afturrúðan, í farangursrýminu, er í raun alveg óþörf en hún setur fallegri svip á bílinn og eykur birtumagn inni í honum.

Vélin er 1.323 rúmsentimetrar að slagrými, 16 ventla, og skilar 72 hestöflum. Þetta er þokkalega spræk vél sem dugar í snattinu innanbæjar og er auk þess sparneytin. Það heyrist vel í henni í inngjöf en að öðru leyti er bíllinn ágætlega hljóðeinangraður.

Fjölbreyttir notkunarmöguleikar

Bíllinn er ekki fáanlegur með sjálfskiptingu en staðalbúnaður er fimm gíra handskipting. Fjöðrunin er fremur slagstutt og bíllinn er lipur og snar í snúningum í bæjarakstri. Á mölinni tekur hann dálítið í stýri og heggur jafnvel við verstu ójöfnur.

Demio GLX er nokkuð vel búinn bíll. Meðal öryggisbúnaðar má nefna hemlalæsivörn og tvo líknarbelgi. Kældir diskahemlar eru að framan en tromlur að aftan. Hemlunin reyndist jöfn og örugg þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að finna á þeim veikleika.

Þá er komið að því sem allt snýst um hjá flestum, verðinu. 1.299.000 kr. þarf að láta af hendi fyrir Demio GLX. Fyrir þessa upphæð, og jafnvel lítið eitt lægri, mætti líka kaupa t.a.m. Opel Corsa 1,4, Nissan Micra GX 1,3, Suzuki Swift GLX 1,3 eða VW Polo 1,4. En við allan samanburð þarf að hafa í huga staðalbúnað og hvaða not menn helst hafa af bílnum. Án þess að rýrð sé kastað á ofangreinda bíla er nokkuð ljóst að Demio er vel búinn bíll, með ágæta aksturseiginleika og frábært útsýni og auk þess fjölbreytta notkunarmöguleika.

Guðjón Guðmundsson.

Morgunblaðið/Golli MAZDA Demio er lítill hlaðbakur með gott flutningsrými.

DEMIO er 3,8 m langur. Vindskeið og þakbogi er staðalbúnaður í GLX en álfelgur aukabúnaður.

AFTURHLERINN opnast hátt en hjólaskálarnar draga úr flutningsrýminu.

ALLT með hefðbundnum hætti. Stórir gluggafletir gefa gott útsýni og auka birtumagn í bílnum.

VÉLIN er 1.323 rúmsentimetrar að slagrými, 16 ventla, og skilar 72 hestöflum.

Mazda Demio GLX

Vél: Fjórir strokkar, 1.323 rúmsentimetrar, 16 ventlar, 72 hestöfl við 5.500 snúninga á mínútu.

Lengd: 3.808 mm.

Breidd: 1.650 mm (án hliðarspegla).

Eldsneytiseyðsla: 8,7 lítrar á hverja 100 km innanbæjar, 6,0 lítrar í þjóðvegaakstri, 7,0 í blönduðum akstri (uppgefið af framleiðanda).

Hæð: 1.500 mm (1.535 með þakboga).

Þyngd: 950 kg.

Hjólhaf: 2.390 mm.

Veghæð: 150 mm.

Farangursrými: 330-365 lítrar.

Staðalbúnaður: Hemlalæsivörn, tveir líknarbelgir, útvarp/segulband, fjórir hátalarar, samlæsingar, rafdrifnar rúður að framan, rafstýrðir speglar, hækkanlegt ökumannssæti, vindskeið, þakbogi.

Beygjuhringur: 4,7 m.

Staðgreiðsluverð: 1.299.000 kr.

Umboð: Ræsir hf., Reykjavík.