KENNETH Starr segir í skýrslu sinni að frásögn Lewinsky af kynferðislegum samskiptum hennar við forsetann sé nauðsynleg af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi auki það trúverðugleika hennar sem vitnis hversu nákvæm og samkvæm frásögn hennar sé. Í öðru lagi sé nauðsynlegt að rekja þessi mál þar sem vitnisburður hennar stangist á við orð forsetans.
"Stúlkan með pizzuna er komin"

Ítarlegur vitnisburður Monicu Lewinsky um samband hennar við Bill Clinton Bandaríkjaforseta, dregur upp mynd af sambandi valdamanns og undirsáta hans sem átti enga framtíð fyrir sér.

KENNETH Starr segir í skýrslu sinni að frásögn Lewinsky af kynferðislegum samskiptum hennar við forsetann sé nauðsynleg af tveimur ástæðum. Í fyrsta lagi auki það trúverðugleika hennar sem vitnis hversu nákvæm og samkvæm frásögn hennar sé. Í öðru lagi sé nauðsynlegt að rekja þessi mál þar sem vitnisburður hennar stangist á við orð forsetans.

Alls segist Lewinsky hafa átt tíu fundi með forsetanum þar sem þau áttu kynferðislegt samneyti. Yfirleitt áttu fundirnir sér stað á skrifstofu forsetans eða í grennd við hana, oftast í gluggalausum gangi fyrir utan vinnuherbergi forsetans. Lewinsky segist hafa átt munnmök við forsetann en að hann hafi aldrei átt munnmök við hana. Í fyrstu átta skiptin stöðvaði forsetinn Lewinsky áður en hann fékk sáðlát. Segir hún hann hafa gefið þá skýringu að traust yrði að vera til staðar og hann yrði að þekkja hana. Á síðustu tveimur ástarfundum þeirra, sem báðir áttu sér stað á árinu 1997, hafði forsetinn sáðlát.

Alls segist Lewinsky hafa átt munnmök við forsetann níu sinnum. Í öll skiptin hafi forsetinn komið við og strokið ber brjóst hennar. Hann snerti einnig kynfæri hennar og fékk hún fullnægingu í tvö skipti. Í eitt skipti snertust kynfæri þeirra í stutta stund, án þess þó að um mök væri að ræða.

Í skýrslunni segir að forsetinn hafi sagt að vinátta hafi þróast í nánara samband en að samkvæmt vitnisburði Lewinsky hafi þróunin verið öfug.

Ástfangin af Clinton

Eftir því sem samband Lewinsky og forsetans þróaðist efldust tilfiningar hennar í hans garð. "Ég átti aldrei von á því að ég yrði ástfanginn af forsetanum. Það kom sjálfri mér á óvart," sagði Lewinsky í vitnisburði sínum. Hún segist muna eftir því að Clinton hafi tjáð henni að hún yngdi hann upp og að hann óskaði þess að þau gætu eytt meiri tíma saman. Hún sagði þau hafa "faðmast og haldist í hendur og hann var vanur að ýta hárinu frá andliti mínu".

Lewinsky sagði móður sinni og nokkrum vinum frá sambandinu. Haft er eftir einum þeirra, Neysa Erbland, að Clinton hafi einu sinni tjáð Lewinsky að hann væri ekki viss um hvort að hjónaband hans myndi halda eftir að hann hætti sem forseti. "Hver veit hvað gæti gerst eftir fjögur ár eftir að ég hef látið af embætti," er haft eftir forsetanum. Er Lewinsky sögð hafa staðið í þeirri trú að hugsanlega gæti hún orðið eiginkona hans.

Lewinsky segir þau hafa notið samvistanna. Þau hafi rætt barnæsku sína, sagt skrýtlur og rætt atburði líðandi stundar. Hún hafi sagt honum frá "heimskulegum hugmyndum mínum" um hvernig stjórnvöld ættu að taka á málum. Flest samtölin áttu sér stað eftir að þau hafi átt mök, þau hafi verið nokkurs konar "koddahjal" í forsetaskrifstofunni.

Sofnaði í síma

Lewinsky telur að hún og forsetinn hafi ræðst um fimmtíu sinnum við í síma, oft eftir miðnætti. Ýmist hringdi forsetinn sjálfur, eða lét ritara sinn, Betty Currie, gera það. Lewinsky gat hins vegar ekki hringt beint í Clinton. Í ein 10-15 skipti ræddust þau við á kynferðislegum nótum í síma og eftir eitt slíkt tilfelli, sofnaði forsetinn í miðju samtali sem fylgdi í kjölfarið.

Í fjórum tilfellum skildi forsetinn eftir skilaboð á símsvara Lewinsky en sagðist ekki vilja gera það þar sem það væri "dálítið ótryggt". Hún geymdi skilaboðin og spilaði upptökurnar fyrir nokkra vini sína, sem töldu sig þekkja rödd forsetans.

Lewinsky sagði ennfremur að hún og forsetinn hefðu deilt, bæði á fundum sínum og í síma. Í nokkur skipti árið 1997 hafi hún kvartað yfir því að hann hafi ekki séð til þess að hún kæmist úr varnarmálaráðuneytinu og aftur í Hvíta húsið eins og hann hafi lofað eftir kosningarnar í nóvember 1996. Í júlí 1997 hafi forsetinn átalið hana fyrir bréf sem hún skrifaði honum, þar sem hún hótaði að ljóstra upp um samband þeirra. Í desember sama ár hafi forsetinn sagt að "enginn hafi farið eins illa með hann og ég" og að "hann hafi varið meiri tíma með mér en nokkrum öðrum, að frátalinni fjölskyldu hans, vinum og samstarfsmönnum, en ég veit ekki alveg hvað hann taldi mig," segir Lewinsky í vitnisburði sínum.

Skiptust á gjöfum

Lewinsky og forsetinn skiptust á allmörgum gjöfum. Hún telur sig hafa fært honum um þrjátíu hluti og þegið 18 frá honum. Fyrsta gjöfin var ljóð á platta, sem hún og aðrir starfsmenn færðu honum í tilefni "dags yfirmannsins". Þetta var í október 1995 og var jafnframt eina gjöfin sem forsetinn hélt ekki eftir.

Fimm dögum eftir að samband Lewinsky og forsetans hófst, færði hún honum hálsbindi. Hann hringdi samdægurs í hana og sendi henni stuttu síðar mynd af sér með bindið. Það var skráð samkvæmt reglum Hvíta hússins um gjafir til forsetans.

Af öðrum gjöfum hennar til forsetans má nefna sex hálsbindi, blaðapressu með mynd af Hvíta húsinu, vindlastatíf úr silfri, sólgleraugu, hversdagsskyrtu, bolla með áletruninni "heilög Monica", froskastyttu, bréfahníf í froskslíki, nokkrar skáldsögur, bók með tilvitnunum og nokkrar gamlar bækur. Hann gaf henna meðal annars hattaprjón, tvær nælur, teppi, bjarnarstyttu úr marmara og ljóðabók eftir Walt Whitman.

Í vitnisburði sínum segist forsetinn hafa fengið allnokkrar gjafir frá Lewinsky og að sér hafi þótt viðeigandi að senda henni gjafir í staðinn.

Lewinsky segist hafa talið það merki um ástúð er forsetinn setti upp bindi sem hún hafði gefið honum. "Ég var vön að segja við hann. "það gleður mig þegar þú ert með bindi frá mér því þá veit ég að ég stend nærri hjarta þínu". Forsetinn hafi því vitað um tilfinningar hennar í hans garð og hafi oft lagt sig fram um að vera með bindi frá henni þegar þau hittust, eða daginn eftir að þau höfðu ræðst við í síma. Þá spurði hann hana stundum hvort hún hefði tekið eftir því að hann hefði verið með bindi frá henni.

"Allnokkuð ástríðufull bréf"

Lewinsky sendi forsetanum einnig fjölda korta og bréfa. Í sumum þeirra skammaði hún hann fyrir að veita sér ekki næga athygli, í öðrum sagðist hún sakna hans. Þá átti hún til að senda honum "sniðug kort" sem hún rakst á. Lewinsky segir forsetann hins vegar aldrei hafa sent sér annað en formleg þakkarkort.

Í vitnisburði sínum segist forsetinn hafa fengið bréf og kort frá Lewinsky sem hafi verið "nokkuð náin" og "allnokkuð ástríðufull".

Bæði forsetinn og Lewinsky viðurkenna að þau hafi reynt að leyna sambandi sínu. Einkum hafi forsetinn lagt áherslu á það. Lewinsky segir forsetann stundum hafa spurt sig hvort hún hafi sagt nokkrum frá sambandinu við hann eða sýnt einhverjum gjafirnar frá honum. Hún hafi sagt honum ósatt er hún hafi fullvissað hann um að svo væri ekki.

Er báðum var stefnt fyrir rétt í máli Jones, voru þau sammála um að neita sambandinu að hennar sögn. Forsetinn staðfesti þetta í yfirheyrslu Starrs, sagðist ekki hafa viljað að samband þeirra yrði opinbert "á nokkurn hátt". "Ég vildi alls ekki að það yrði kunnugt, ef við það yrði ráðið. Það skipti mig máli. Ég fyrirvarð mig fyrir það. Ég vissi að það var rangt".

"Ó, hér eru bréfin þín"

Lewinsky bar að ævinlega hefði verið um yfirhylmingar að ræða er hún fór á fund forsetans. Á meðan hún vann í Hvíta húsinu, kvaðst hún yfirleitt þurfa að færa forsetanum gögn, þótt hún viðurkenndi við yfirheyrslur að slíkt hefði aldrei falist í starfi hennar. Þetta hefði byrjað er hún hefði komist inn til hans með því að segja "Ó, hér eru bréfin þín", blikka hann og hann hefði sagt að það væri fínt. Hefði hún jafnan leikið þennan leik fyrir framan öryggisverði og haft með sér skjalamöppu.

Í nokkur skipti komu Lewinsky og forsetinn sér saman um að "rekast á" hvort annað á göngum Hvíta hússins og að hann myndi í kjölfarið fylgja henni inn á forsetaskrifstofuna. Eftir að Lewinsky lét af störfum í Hvíta húsinu treysti hún á aðstoð Currie, ritara Clintons, sem tók frá tíma hjá forsetanum svo hann gæti hitt Lewinsky. Var því þá borið við að Lewinsky væri komin til að hitta Currie, ekki forsetann.

Lewinsky segir forsetann ekki beinlínis hafa hvatt sig til að ljúga um samband þeirra en þegar hún hafi sagst ætla að segja ósatt til um það, hafi hann lýst sig sáttan við það. Í þau fjölmörgu skipti sem hún hafi sagst myndu "ævinlega neita" sambandinu, hafi hann svarað "Það er gott" eða eitthvað í þá áttina, aldrei reynt að fá hana ofan af því að neita.

Þegar ljóst var að Lewinsky kynni að vera kölluð fyrir sem vitni í máli Paulu Jones, minnti forsetinn hana á yfirhylmingarnar. Sagði hann henni [og hafði eftir lögmönnum sínum] að hún kynni að verða kölluð fyrir. Sagði forsetinn að hún gæti samið eiðsvarna yfirlýsingu til að komast hjá því að bera vitni. Ennfremur gæti hún sagst hafa fært honum bréf og hafa heimsótt Currie.

Vitnisburður forsetans í máli Jones er í samræmi við frásögn Lewinsky. Hann sagðist hafa hitt Lewinsky "tvisvar eða þrisvar í nóvember 1995, í "eitt eða tvö skipti þegar hún færði mér skjöl" og "einhvern tíma fyrir jól" þegar Lewinsky hafi "komið við til að hitta Betty".

Sjálfur viðurkenndi forsetinn við yfirheyrslur að þau "kynnu að hafa rætt, þó ekki í lagalegu samhengi" um að leyna sambandi sínu. "Vel mætti vera" að hann hafi sagt Lewinsky að segja öðrum að hún hefði fært honum skjöl og heimsótt Currie. Forsetinn sagði hins vegar: "Ég bað frk. Lewinsky aldrei um að ljúga."

Fundunum leynt

Eftir fyrstu tvo ástarfundina, sem áttu sér stað í nokkurra daga fríi opinberra starfsmanna, segist Lewinsky nær eingöngu hafa hitt forsetann um helgar, þegar færri voru við störf í vesturhluta Hvíta hússins. "Hann sagði mér að hann væri yfirleitt við um helgar og að það væri í lagi að hitta hann þá. Hann hringdi og við komum okkur saman um að rekast á í ganginum eða að ég myndi færa honum skjöl," sagði Lewinsky við yfirheyrslur. Þar kom ennfremur fram að Lewinsky reyndi að komast hjá því að sumir starfsmenn forsetans sæu til sín nærri skrifstofu forsetans, þeirra á meðal Nancy Hernreich, aðstoðarmaður hans og yfirmaður skrifstofu hans, en Hernreich lýsti því yfir að sér hefði þótt Lewinsky sækja of mikið í forsetann.

Af ótta við að til þeirra sæist, fóru ástarfundir forsetans og Lewinsky einkum fram á gluggalausum gangi fyrir framan vinnuherbergi forsetans. Lewinsky sagði forsetann hafa haft af því áhyggjur að einhver kynni að sjá til þeirra inn um glugga Hvíta hússins og þegar þau voru inni í vinnuherbergi hans, slökkti hann ljósin. Lewinsky segir frá því að í árslok 1997 "þegar ég fékk jólakossinn minn" í dyragætt vinnuherbergisins, hafi forsetinn" "horft út um gluggann með augun galopin á meðan hann kyssti mig og ég varð brjáluð því það var ekkert sérstaklega rómantískt." Forsetinn svaraði: "Nú ég var bara að gá hvort nokkur væri þarna [úti]".

Óttinn við að upp um þau kæmist, olli spennu í samskiptum forsetans og Lewinsky, samkvæmt frásögn hennar. Forsetinn hafði dyrnar á milli vinnuherbergis síns og forsetaskrifstofunnar jafnan hálfa upp á gátt á meðan ástarfundunum stóð, til að heyra ef einhver nálgaðist. Lewinsky sagði í vitnisburði sínum: "Við höfðum bæði áhyggjur af hljóðunum og stundum... beit ég í hönd mína - til að ég gæfi ekki frá mér nein hljóð". Þá segir hún að forsetinn hafði gripið fyrir munn hennar í eitt skipti til að þagga niður í henni. Þá varð ótti þeirra við að að þeim yrði komið til þess að þau afklæddust aldrei að fullu.

Um þessi atriði sagðist forsetinn hafa reynt að leyna nánum samskiptum þeirra. "Ég gerði það sem fólk gerir þegar það gerir eitthvað rangt. Ég reyndi að gera það þegar enginn annar sá til."

Skilaboð og bréf

Lewinsky segir forsetann hafa haft áhyggjur af því að til væru skilaboð, bréf og aðrar skriflegar heimildir um samband þeirra. Segir hún hann hafa ítrekað sagt henni að sumt það sem hún skrifaði honum væri of persónulegt til að setja niður á blað ef eitthvað færi úrskeiðis, ef það týndist eða einhver annar opnaði það.

Þá sagðist Lewinsky í tvígang hafa beðið forsetann um að fá að fara með honum upp í forsetaíbúðina en hann hafi neitað því vegna þess að komur allra þangað væru skráðar.

Lewinsky sagðist hafa haft trú á því að ekki kæmist upp um samband hennar við forsetann, þar sem engar heimildir væru til um að þau hefðu verið ein í vinnuherbergi hans, auk þess sem hún myndi neita öllu. Þá sagðist Lewinsky hafa huggað sig við það að forsetinn hefði eiðsvarinn neitað sambandinu. "Ef ég á að segja eins og er, þá hef ég ekki lengur áhyggjur því ég veit að ég lendi ekki í vandræðum. Vitið þið af hverju? Vegna þess að frásögnin sem ég undirritaði - eiðsvarin- er frásögn annars eiðsvarins manns."

Upphaf sambandsins

Lewinsky hóf störf í Hvíta húsinu í júlí 1995 og vann á skrifstofu Leon Panetta, skrifstofustjóra Hvíta hússins. Samkvæmt vitnisburði hennar byrjuðu hún og forsetinn að "daðra" um mánuði síðar. Við kveðjuathafnir og aðrar athafnir gætti hún þess að ná augnsambandi við hann, tók í hönd hans og kynnti sig. Þegar hún rakst á hann á göngum Hvíta hússins, kynnti hún sig að nýju og hann svaraði því til að hann vissi vel hver hún væri. Lewinsky sagði frænku sinni að forsetinn "virtist laðast að henni eða hafa áhuga á henni eða eitthvað" og sagði vini, sem kom í heimsókn á þessum tíma að hún "laðaðist að [forsetanum], hún væri bálskotin í honum og ég held hún hafi sagt mér að henni hafi tekist að ná athygli hans, að það hafi verið einhvers konar augnsamband og að þau hafi vitað hvort af öðru," sagði í vitnisburði vinarins.

Í nóvember 1995 urðu deilur um fjárlögin í Bandaríkjunum til þess að loka varð skrifstofum hins opinbera í viku. Aðeins þeir starfsmenn, sem sinntu bráðnauðsynlegum störfum, máttu vinna en nemar í starfsþjálfun, þeirra á meðal Lewinsky, mættu til starfa því þeir þáðu ekki laun.

Þessa viku kom forsetinn oft á skrifstofu Panetta og ræddi þá stundum við Lewinsky. Lýsti hún þessum samskiptum sem "áframhaldandi daðri". Sagði einn samstarfsmanna að hún fengi mikla athygli hjá forsetanum.

Samband Lewinsky og forsetans hófst á meðan á vinnustöðvuninni vegna fjárlagadeilu stóð, 15. nóvember 1995. Forsetinn kom á skrifstofuna sem hún vann á, til að ræða við Panetta, og skiptist á augngotum við Lewinsky. Þau hittust aftur, síðar um daginn, í óformlegum afmælisfagnaði eins starfsmanna Panetta. Þá ræddust Lewinsky og forsetinn m.a. einslega við í skrifstofu skrifstofustjórans. Hún segist hafa daðrað við hann, og meðal annars lyft upp jakka sínum að aftan til að sýna honum nærbuxnastrenginn, sem sást í fyrir ofan buxnastrenginn.

Löðuðust hvort að öðru

Skömmu síðar, um kl. 20, gekk hún í átt að snyrtingunni og framhjá skrifstofu George Stephanopoulus, talsmanns forsetans. Forsetinn sat einn þar og bað hana að koma inn. Hún gerði það og sagði forsetanum að hún væri hrifin af honum. Hann hló og spurði hvort hún vildi sjá einkaskrifstofu sína. Gengu þau í átt að henni, í gegnum borðstofu forsetans. "Við töluðum stutt saman, vorum sammála um að það væri eitthvað á milli okkar... og að við löðuðumst hvort að öðru og svo spurði hann hvort hann mætti kyssa mig." Lewinsky játaði því og þau kysstust á gluggalausum ganginum fyrir framan vinnuherbergið. Áður en Lewinsky yfirgaf forsetann, skrifaði hún niður nafn sitt og símanúmer fyrir hann.

Lewinsky segir að um tíuleytið um kvöldið hafi hún verið ein á skrifstofu skrifstofustjórans er forsetann hafi borið að. Hann hafi beðið hana að hitta sig að nýju á skrifstofu Stephanopoulos og hún hafi komið þangað nokkrum mínútum síðar. Þaðan hafi þau haldið í vinnuherbergi hans, þar sem ljósin voru slökkt.

Lewinsky segist hafa farið úr jakkanum og brjóstahaldanum og að forsetinn hafi snert brjóst hennar með höndum og munni. Lewinsky minnir að hann hafi svarað í símann í eitt skipti og hafi þau farið af ganginum og inn í vinnuherbergið þar sem hún segir forsetann hafa örvað kynfæri hennar með höndunum. Á meðan forsetinn talaði í símann [Lewinsky taldi viðmælandann vera þingmann fulltrúa- eða öldungadeildar], hafði Lewinsky munnmök við hann. Forsetinn lauk símtalinu og bað hana að því búnu að hætta. "Hann sagðist... þurfa að bíða þar til hann treysti mér betur. Svo held ég að hann hafi grínast með... að hann hafi ekki fengið þetta lengi".

Skrár Hvíta hússins staðfesta tímasetningar Lewinsky. Þar kemur ennfremur fram að forsetinn ræddi við tvo fulltrúardeildarþingmenn þetta kvöld, í fimm mínútur hvorn, Jim Chapman og John Tanner.

Forsetinn stóð í dyragættinni Lewinsky ber að hún hafi hitt forsetann að nýju tveimur dögum síðar, á meðan vinnustöðvuninni stóð. Hún segir að þeir sem fengu að vinna hafi verið frameftir og að pöntuð hafi verið pizza fyrir Bettie Currie, Nancy Hernreich og Jennifer Palmieri. Þegar pizzan hafi borist, hafi Lewinsky farið inn á skrifstofu Currie til að láta vita. Þar var forsetinn fyrir ásamt fleira fólki. Hópurinn hélt inn á skrifstofuna þar sem maturinn var og einhver rak pizzasneið í jakka Lewinsky og hún fór fram á snyrtingu til að ná blettinum úr. "Þegar ég kom út af baðherberginu stóð forsetinn í dyragættinni að skrifstofu frú Currie og sagði að ég gæti komist út þá leiðina."

Lewinsky segir að hún og forsetinn hafi kysst á snyrtingunni eða ganginum fyrir framan en hún hafi fljótlega losað sig úr faðmlögunum og sagst yrðu að halda áfram að vinna. Forsetinn hafi þá stungið upp á því að hún færði honum pizzasneið. Það gerði hún. Currie hleypti henni inn til forsetans, sagði "stúlkuna með pizzuna" vera komna. Nokkur vitni bera að Lewinsky hafi fært forsetanum pizzu og að þau hafi verið ein stutta stund eftir það.

Óskað heimsókna um helgar

Að sögn Lewinsky sat Currie inni á skrifstofu sinni. Lewinsky og forsetinn kysstust og forsetinn þreifaði á brjóstum hennar. Þá bar Currie að dyrum vinnuherbergins, sem voru í hálfa gátt og sagði að beðið væri um forsetann í símann. Hann svaraði, ræddi við fulltrúadeildarþingmann með gælunafn, að sögn Lewinsky. Á meðan hann talaði í símann, renndi forsetinn niður buxnaklaufinni og tók út kynfæri sín. Hún átti við hann munnmök en hann stöðvaði hana áður en hann fékk sáðlát.

Það var í þessari heimsókn sem forsetinn sagðist yfirleitt vera á skrifstofunni um helgar og að Lewinsky gæti komið þá og hitt hann. Kvaðst hann heillast af brosi hennar og lífsþrótti.

Forsetinn ræddi við H. L. "Sonny" Callahan, þetta kvöld og tímasetningar Lewinsky eru í samræmi við skráningu inn í Hvíta húsið. Við yfirheyrslur lögmanna Paulu Jones, sagðist forsetinn ráma í að Lewinsky hefði "komið aftur með pizzu" en að hann myndi ekki eftir því að þau hefðu verið ein.

Næsti ástarfundur þeirra var sex vikum síðar og taldi Lewinsky þá ástæðu til að segja forsetanum hvað hún héti, því hún taldi hann hafa gleymt því. Hann þvertók fyrir það en sagðist hafa týnt símanúmeri hennar, sem hún lét hann fá.

Lewinsky ber að viku síðar hafi forsetinn hringt í sig og beðið sig að koma. Þau hafi sammælst um að "hún myndi eiga leið fram hjá skrifstofu hans" með skjöl og hann myndi bjóða henni inn, sem hann gerði. Lewinsky ber að í þetta sinn hafi forsetinn talað um að hann hefði munnmök við hana en hún hafi ekki viljað það því hún hafi haft á klæðum. Hún hafi hins vegar átt munnmök við hann.

Eftir það hafi þau farið inn á forsetaskrifstofuna og talað saman. "Hann var með vindil uppi í sér. Og svo hélt hann á vindlinum og horfði á hann... á dálítið ótuktarlegan hátt. Og svo... ég horfði á vindilinn og á hann og sagði að við gætum gert það, líka, einhvern tíma."

Öryggisvörður Clintons ber að þetta kvöld hafi forsetinn sagt sér að hleypa Lewinsky inn á skrifstofu sína og lýst útliti hennar. Þegar hún hafi komið, hafi forsetinn hleypt henni inn og sagt: "Þú mátt loka dyrunum. Hún verður hérna nokkra stund."

Ósátt við áhugaleysi

Lewinsky segir að á þessum tíma hafi símtöl hennar og forsetans, símtöl af kynferðislegum toga, hafist. Þau hafi verið að kynnast og hún hafi ekki verið viss um hvernig forsetanum hafi líkað símtölin. Þá segist hún hafa verið ósátt við hve lítinn áhuga hann hafi virst hafa á því að kynnast henni. "Ég spurði hann hvers vegna hann vildi ekki vita neitt um sjálfa mig ... og spurði: "Snýst þetta bara um kynlíf ... eða hefur þú einhvern áhuga á því að kynnast mér sem persónu?" Lewinsky segir forsetann hafa hlegið og sagst meta mikils þær stundir sem þau hefðu átt saman. Henni fannst það "dálítið skrýtið" þar sem henni fannst hann ekki þekkja sig.

Lewinsky segir samband þeirra hins vegar hafa komist á alvarlegra stig í febrúar 1996 en eftir ástaratlotin hafi þau setið á forsetaskrifstofunni og talað saman í tæpa klukkustund. Segir Lewinsky að í því samtali hafi vinátta þeirra í raun hafist. Þegar hún bjó sig til að yfirgefa forsetann, "greip hann í handlegginn á mér, kyssti hann og sagðist hringja og ég sagði: "Nú? Hvað er símanúmerið mitt? Og þá mundi hann bæði heimanúmerið og vinnunúmerið mitt."

Sambandinu slitið

Lewinsky ber að forsetinn hafi bundið endi á samband þeirra 19. febrúar 1996. Hann hafi hringt í hana þann dag og hún talið greinilegt að eitthvað væri að. Lewinsky ákvað að koma í Hvíta húsið þar sem hún hitti forsetann. Hann sagði þau verða að hætta sambandi sínu og faðmaði hana í kveðjuskyni, vildi ekki kyssa hana.

Lewinsky segir að hún og forsetinn hafi eftir sem áður daðrað og að mánuði síðar hafi forsetinn gefið til kynna að hann vildi halda sambandinu áfram. Í mars kom vinkona Lewinsky til að hitta hana í Hvíta húsinu og á göngum hússins rákust þær á forsetann. Lewinsky kynnti vinkonu sína fyrir forsetanum sem svaraði: "Ó, þú hlýtur að vera vinkona hennar frá Kaliforníu". Kvaðst vinkonan hafa verið "furðu lostin" að forsetinn skyldi vita hver hún væri.

Nokkrum dögum síðar mættust Lewinsky og forsetinn á ganginum og var forsetinn með bindi sem hún hafði gefið honum. Hún spurði hvar hann hefði fengið það og hann svaraði: "Einhver smekkkona gaf mér það".

Lewinsky segir forsetann hafa hringt í sig skömmu síðar og beðið hana að vera "fyrir tilviljun" nærri skrifstofu hans og hann myndi þá bjóða henni á kvikmyndasýningu ásamt fleira fólki. Hún hafði neitað því hún hafi ekki viljað að fólk héldi að hún væri sífellt á vappi í kringum forsetaskrifstofuna, óboðin. Bað hún hann um að hitta sig um helgi, sem hann féllst á. Tóku þau að nýju upp samband sitt í lok mars 1996.

Í það skipti færði hún honum Hugo Boss bindi og segir forsetann hafa "einbeitt sér algerlega að mér". Meðal annar stakk forsetinn vindli upp í leggöng Lewinsky, stakk honum að því búnu upp í sig og sagði: "Bragðast vel".

Færð úr Hvíta húsinu

Tíðar heimsóknir Lewinsky til forsetans höfðu ekki farið fram hjá starfsmönnum Hvíta hússins og um páskaleytið 1996, var Lewinsky færð til í starfi og sagt að mæta til vinnu í varnarmálaráðuneytinu. Hún var afar ósátt við það og lofaði forsetinn því að sjá til þess að hún myndi hefja störf að nýju í Hvíta húsinu, næði hann endurkjöri í nóvember. Þá segir Lewinsky forsetann hafa gefið í skyn að hún gæti fengið hvaða starf sem hún vildi.

Við vitnaleiðslur segir Lewinsky að sumir starfsmenn Hvíta hússins virðist hafa talið að henni væri einni um að kenna að forsetinn hefði áhuga á henni. "Menn vissu af veikleikum hans, líklega, og ...vildu ekki telja að hann gæti borið ábyrgð á nokkrum hlut, svo allt varð að vera mín sök... Að ég elti hann á röndum eða að ég reyndi við hann." Móðir Lewinsky, Marcia Lewis, hitti Evelyn Lieberman, næstráðanda skrifstofustjórans, sem ákvað að Lewinsky yrði að hætta í Hvíta húsinu. Hafði Lewis eftir Lieberman að "bölvun hvíldi yfir Monicu vegna þess að hún væri falleg" og skildi Lewis Lieberman sem svo að hún teldi það hlutverk sitt að fjarlægja allar laglegar konur úr Hvíta húsinu til að vernda forsetann.

Samskipti með milligöngu Currie

Eftir að Lewinsky hætti störfum í Hvíta húsinu, dró úr sambandi hennar við forsetann. Þau hittust ekki um nokkurra mánaða skeið og ekki bólaði á vinnunni í Hvíta húsinu eftir að forsetinn náði endurkjöri. Þau ræddust hins vegar oft við í síma, aðallega á kynferðislegum nótum. Segir Lewinsky forsetann ekki hafa viljað ræða um starf hennar.

Lewinsky varð æ örvæntingarfyllri um að sambandi hennar við forsetann væri í reynd lokið og að hún fengi ekki vinnu í Hvíta húsinu. Forsetinn og hún tóku upp kynferðissamband að nýju um skamma hríð, að þessu sinni með milligöngu Betty Currie, ritara forsetans. Þá sendi Lewinsky allmargar gjafir til forsetans á þessu tímabili, allar stílaðar á Currie, sem kveðst ekki hafa opnað þá, auk þess sem hún hafi beðið Lewinsky um að ræða ekki sambandið við forsetann í sín eyru; hún vildi ekkert af því vita. Currie viðurkennir hins vegar að hafa aðstoðað forsetann við að halda sambandinu leyndu, m.a. með því að skrá ekki öll símtöl hans við Lewinsky og heldur ekki allar gjafir.

Lewinsky segir forsetann hafa átt frumkvæði að því að þau hittust að nýju eftir ellefu mánaða hlé, í febrúar 1997, er hann bauð Lewinsky að vera viðstadda útvarpsávarp hans. Að því loknu áttu forsetinn og Lewinsky munnmök og fékk forsetinn sáðlát, í fyrsta sinn í sambandi þeirra. Er Lewinsky var komin heim til sín, tók hún eftir blettum í dökkbláa kjólnum sem hún hafði verið í og taldi hún þá vera sæði úr forsetanum. Við yfirheyrslu Starr játaði forsetinn að hafa átt kynferðisleg samskipti við Lewinsky í þetta sinn: "Mér var óglatt þegar þeim var lokið og ég var feginn því að nærri því ár var liðið frá óviðurkvæmilegum samskiptum við frk. Lewinsky. Ég lofaði sjálfum mjér því að þetta myndi ekki endurtaka sig. Staðreyndir málsins um um hvað átti sér stað og hvað ekki eru flóknar. En engu að síður, ég ber ábyrgð á því.

Síðasti ástarfundurinn

Síðasti ástarfundur Lewinsky og forsetans var 24. mars 1997. Segir Lewinsky að í það skipti hafi kynfæri þeirra snerst en að ekki hafi verið um samfarir að ræða. Við yfirheyrslu Starr neitaði forsetinn hins vegar þessum fundi með Lewinsky.

Hún ber að forsetinn hafi sagst verða að binda enda á samband þeirra. Hann hafi sagst hafa átt í hundruð ástarsambanda utan hjónabands, en eftir að hann varð fertugur hafi hann ákveðið að reyna að vera konu sinni trúr. Hann laðaðist að Lewinsky og vonaði að þau gætu verið vinir áfram. Hann gæti gert ýmislegt fyrir hana og að henni væri ekki um að kenna hvernig málum væri komið. Lewinsky segist hafa grátið og reynt að fá forsetann ofan af því að slíta sambandinu. Hann hafi hins vegar ekki látið undan.

Lewinsky þrýsti mjög á forsetann um aðra vinnu og reyndi hann ýmislegt til þess, einnig eftir að sambandi þeirra lauk endanlega. Í júlí 1997 sendi hún honum bréf þar sem hún ýjaði að því að hún myndi gera samband þeirra opinbert, dfengi hún ekki vinnu í Hvíta húsinu. Daginn eftir hitti hún forsetann í Hvíta húsinu og hellti hann sér yfir hana og sagði ólöglegt að hafa í hótunum við Bandaríkjaforseta. Eftir það rann honum reiðin og sýndi hann henni blíðuhót, strauk handlegg og hár hennar, kyssti hana á hálsinn og sagðist óska þess að hann hefði meiri tíma fyrir hana. "Hann sagði að kannski fengi ég meiri tíma eftir þrjú ár.... Ég hugsaði að það yrði þegar hann yrði ekki lengur forseti. Og hann sagði, "Ég veit ekki en það getur verið að ég verði einn eftir þrjú ár." Og þá sagði ég eitthvað um að við gætum verið saman og hann sagði eitthvað á þá leið að við yrðum góð saman. Og svo sagði hann... í gríni, "Nú en hvað eigum við að gera þegar ég verð 75 ára og þarf að pissa 25 sinnum á dag?" Og ég sagði honum að við myndum leysa úr því."

Í þessu samtali upplýsti Lewinsky forsetann ennfremur um að Newsweek væri að vinna að grein um þær fullyrðingar Kathleen Willey, að forsetinn hefði áreitt sig kynferðislega, er hún hefði beðið hann um aðstoð vegna sjálfsmorðs eiginmanns hennar. (Lewinsky hafði frétt af fyrirhugaðri grein í gegnum Lindu Tripp, samstarfskonu sína í varnarmálaráðuneytinu. Tripp hafði þá um nokkurt skeið hljóðritað samtöl þeirra þar sem Lewinsky ræddi m.a. um samband sitt við forsetann.)

Ásakanir Willey "fáránlegar"

Lewinsky segir forsetann hafa sagt ásakanir Willey "fáránlegar", því hann myndi aldrei sýna konu með jafnlítil brjóst og Willey áhuga. Þá hefði Willey haft samband við Nancy Hernreich vikunni áður, því hún hefði ekki vitað hvernig hún ætti að snúa sig út úr umfjöllun blaðsins.

Rúmri viku síðar hafði forsetinn samband við Lewinsky, þar sem hann hafði haft spurnir af því að Tripp væri heimildin fyrir frásögninni af Willey. Vildi hann vita hvort að Lewinsky hefði sagt Tripp frá símtali Willey við Hernreich og viðurkenndi hún það. Hann spurði hana hvort hún treysti Tripp, sem hún sagðist gera. Þá spurði forsetinn Lewinsky hvort hún hefði sagt Tripp frá sambandi þeirra. Lewinsky neitaði því gegn betri vitund.

Beðist afsökunar

Eftirleikurinn er kunnur. Linda Tripp afhendi Starr upptökur af samtölum sínum við Lewinsky, sem þvertók í fyrstu fyrir að hafa sagt satt. Lewinsky kom nokkrum sinnum á fund forsetans og reyndi að taka upp þráðinn í sambandi þeirra. Á fundi þeirra í ágúst 1997 snerti hún kynfæri hans en hann ýtti henni frá sér. Síðasti fundur hennar og forsetans var 28. desember 1997 og kysstust þau "ástríðufullt" að sögn Lewinsky, auk þess sem þau ræddu málareksturinn á hendur forsetanum, sem bar vitni í máli Paulu Jones þrem vikum síðar, í janúar á þessu ári.

Clinton forseti og Monica Lewinsky hafa ekki hist síðan. Rúmum mánuði eftir síðasta fund þeirra, sagðist forsetinn í opinberu ávarpi "ekki hafa átt kynferðisleg samskipti við þessa konu, frk. Lewinsky". Í ágúst játaði hann hins vegar að samband þeirra hefði "ekki verið við hæfi" og í vikunni bað hann þjóðina og Monicu Lewinsky afsökunar á því.