Tríó Michaels Kneihs. Michael Kneihs píanó, Bjarni Sveinbjörnsson bassa og Pétur Grétarsson trommur. Föstudaginn 11.9. 1998. FÖSTUDAGUR á djasshátíð var dagur Íslendinganna. Átta hljómsveitir léku í miðborg Reykjavíkur og á Kringlukránni. Fimm alíslenskar, tvær leiddar af útlendingum tengdum Íslandi og sú áttunda sænsk: Drum 'n' Bass sveitin Yoga.
Dagur Íslendinganna TÓNLIST Sólon Íslandus JAZZHÁTÍÐ

REYKJAVÍKUR Tríó Michaels Kneihs. Michael Kneihs píanó, Bjarni Sveinbjörnsson bassa og Pétur Grétarsson trommur. Föstudaginn 11.9. 1998. FÖSTUDAGUR á djasshátíð var dagur Íslendinganna. Átta hljómsveitir léku í miðborg Reykjavíkur og á Kringlukránni. Fimm alíslenskar, tvær leiddar af útlendingum tengdum Íslandi og sú áttunda sænsk: Drum 'n' Bass sveitin Yoga. Þrjár sveitanna voru undir stjórn söngkvenna, hinnar pólsku Natönzu Kurek, sem gift er Guðlaugi Guðmundssyni bassaleikara, Kristjönu Stefánsdóttur frá Selfossi, sem stundar nám í djasssöng við tónlistarakademíuna í Amsterdam og Andreu Gylfadóttur, sem alltof sjaldan lætur ljós sitt skína sem djasssöngkona. Ómar Axelsson lék með kvartetti sínum á Kringlukránni og Jazzmenn Alfreðs Alfreðsson léku á Fógetanum. Í dómi í Politiken um hljómdisk Gunnars Ormslevs taldi Boris Rabinowitsch Alfreð fyrsta móderne djasstrommara Íslands. Alfreð trommar alltof sjaldan núorðið. Hann hefur tvisvar áður leikið á djasshátíðinni í Reykjavík. Í fyrra skipti með hljómsveit Árna Schevings og P¨antti Lasanen og í það síðara með hljómsveit sinni og Jóns Möllers píanista. Jón er annar djassleikari sem alltof sjaldan heyrist í, en hann er ekki við píanóið hjá Alfreð núna heldur bróðir hans Carl. Þorleifur Gíslason blæs í saxófón með Jazzmönnunum og hann er einnig alltof sjaldan í sviðsljósinu. Með þeim leika svo yngri menn: Stefán O. Jakobsson básúnuleikari og Birgir Bragason bassisti. Michael Kneihs er austurískur, en móðir hans fædd hér á landi; píanistinn Sibyl Urbancic. Hún er dóttir kraftaverkamannsins í íslensku tónlistarlífi - Victors Urbancic og Pétur bróðir hennar var ágætur djassbassaleikari á árum áður. Hálfsystir Michaels er svo leikkonan Rut Ólafsdóttir, sem lék aðalkvenhlutverkið í Tár úr steini. Michael lék klassískt bíbopp og standarda, sem hann hefur útsett fyrir píanótríó og með honum léku Bjarni Sveinbjörnsson á bassa, en hann leikur m.a. með Kuran Swing og á trommurnar Pétur Grétarsson, sem er jafnvígur á bíbopp og frjálsdjass, sem leikhústónlist og allt hvað nafnið hefur. Þeir hófu leikinn á blús sem Miles Davis er skrifaður fyrir: Blues By Five og helltu sér síðan útí ópus eftir Bud Powell: Celia. Bud Powell er mestur allra bíbopp píanista í mínum huga og ekki heiglum hent að leika verk hans. Michael komst þokkalega frá því, en greinilegt er að hann er ekki rútíneraður djasspíanisti, enda fæst hann mikið við kennslu jafnframt að leika djass. Hann var betri í standördunum og útsetning hans á The Way You Look Tonight skemmtileg og Body And Soul, My Romance og If I Schould Loose You leikin af næmni. Bjarna Sveinbjörnsson vantar líka rútínuna, en hann er einstaklega smekklegur bassaleikari, en oft hætti honum til að vera helst til kraftlítill. Það á ekki við um Pétur Grétarsson. Hann keyrði upp sveifluna og átti góða sólóa, sér í lagi í Jobimsömbu, en sú var tíðin að sömburnar voru ekki hans sterkasta hlið. Þetta var ljúft kvöld, en Kneihs hefur ekki enn tekist að skapa sér persónulegan stíl, en það á því miður við um ansi marga djassleikara nú um stundir. Troðfullt var á Sóloni og þó kaldir vindar blésu um stræti Reykjavíkur á föstudagskvöld lét fólk það ekki aftra sér frá að fara á milli staða og hlýða á djassinn. Í kvöld lýkur svo djasshátíð Reykjavíkur er Ray Brown og félagar leika í Íslensku óperunni. Löngu er uppselt á þá tónleika.

Vernharður Linnet