TÆPLEGA tvítugur piltur lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur á fimmtudagsmorgun af völdum áverka sem hann hlaut er hann varð fyrir bíl á Dalvegi í Kópavogi kvöldið áður. TAL hf. hefur ákveðið að lækka mínútuverð á símtölum milli tveggja GSM- síma frá Tali niður í 10 kr. á mínútu, sama hvenær sólarhringsins hringt er.
VIKAN 6/9­12/9

INNLENT

TÆPLEGA tvítugur piltur lést á Sjúkrahúsi Reykjavíkur á fimmtudagsmorgun af völdum áverka sem hann hlaut er hann varð fyrir bíl á Dalvegi í Kópavogi kvöldið áður.

TAL hf. hefur ákveðið að lækka mínútuverð á símtölum milli tveggja GSM- síma frá Tali niður í 10 kr. á mínútu, sama hvenær sólarhringsins hringt er. Verð á þessum símtölum var áður í fimm flokkum á bilinu 10 til 15 kr. mínútan. Verðbreytingin tekur gildi 15. september.

ÞJÓÐHAGSSTOFNUN spáir því að kaupmáttur ráðstöfunartekna aukist á þessu ári um 8,3% hér á landi og um 3% í helstu viðskiptalöndum Íslands. Á síðasta ári jókst kaupmáttur ráðstöfunartekna hér á landi um 6,9% en um 2,4% að meðaltali í viðskiptalöndunum.

ÍSLENDINGAR munu fara fram á aukinn rækjukvóta á Flæmingjagrunni á næsta ári á 20. ársfundi NAFO, Norðvestur-Atlantshafsfiskveiðiráðsins, sem hefst í Lissabon á mánudag. Jafnframt munu þeir leggja til að veiðunum verði stjórnað með heildaraflamarki en ekki fjölda sóknardaga.

SÖLUMIÐSTÖÐ hraðfrystihúsanna hefur gengið frá samningi við fyrirtækið Friosur SA í Chile um sölu á afurðum þeirra og nokkurra tengdra fyrirtækja í Suður-Ameríku. Heildarsala Friosur og tengdra aðila inn á markaðssvæði SH á síðasta ári nam um 1,2 milljörðum króna.



Keikó kominn í Klettsvíkina

HÁHYRNINGNUM Keikó var sleppt í sjávarkví í Klettsvík í Vestmannaeyjum á fimmtudag eftir langa flugferð með C-17-flutningavél bandaríska flughersins frá Oregon í Bandaríkjunum og virðist honum ekki hafa orðið meint af flutningnum. Skemmdir urðu hinsvegar á lendingarbúnaði flugvélarinnar við lendinguna og þar sem ekki var hægt að færa vélina, sem nam staðar nánast á mótum flugbrautanna á vellinum, var flugvellinum lokað fyrir öllu flugi. Nokkrum litlum vélum tókst að komast á loft undir lok vikunnar þrátt fyrir að vélin væri enn á flugbrautinni, og var unnið að því að ryðja braut með jarðýtu svo vélarnar gætu komist frá flugstöðinni og yfir á flugbrautina. Sérfræðingar bandaríska flughersins og Boeing-flugvélaverksmiðjanna könnuðu skemmdir á vélinni og undirbjuggu að hægt yrði að færa hana úr stað.

Vinnudeilu við Búrfellslínu lokið

SAMNINGAR tókust milli forsvarsmanna rússneska fyrirtækisins Technopromexport og fulltrúa Félags járniðnaðarmanna, Rafiðnaðarsambands Íslands og Verkalýðsfélagsins Þórs á Selfossi eftir þriggja daga vinnustöðvun í vikunni. Félögin fóru fram á að félagsmálaráðuneytið afturkallaði atvinnuleyfi rússnesku starfsmannanna, eftir að í ljós kom að þeir hefðu gengið í önnur störf en leyfið var gefið út fyrir. Rússnesku verktakarnir hafa unnið við byggingu Búrfellslínu 3A fyrir Landsvirkjun sl. vikur.

Fjöldi athugasemda við gagnagrunnsfrumvarp

HÁTT í tuttugu aðilar sendu heilbrigðisráðuneytinu álitsgerðir um ný drög að gagnagrunnsfrumvarpi. Tölvunefnd gerði alvarlegar athugasemdir við nær allar helstu greinar frumvarpsins og telur einnig að nefndin sé mjög vanbúin til að takast á við eftirlit með framkvæmd laganna eins og aðbúnaður hennar er nú. Tölvunefnd lagði meðal annars til að leitað yrði eftir samþykki allra sjúklinga vegna notkunar á upplýsingum um þá, fremur en að þeir þyrftu sjálfir að hafa frumkvæði að því að koma í veg fyrir notkun þeirra. Samkeppnisstofnun taldi að litlar breytingar hefðu orðið á þeim ákvæðum frumvarpsins sem hún hafði áður gagnrýnt.