Umdeildur bæjarstjóri BILL Clinton Bandaríkjaforseti er ekki eini stjórnmálamaðurinn sem á nú á hættu að missa embættið vegna kynferðismála. Norbert Michael Lindner, karlkyns bæjarstjóri í smábænum Quellendorf í Þýskalandi,
Umdeildur bæjarstjóri

BILL Clinton Bandaríkjaforseti er ekki eini stjórnmálamaðurinn sem á nú á hættu að missa embættið vegna kynferðismála. Norbert Michael Lindner, karlkyns bæjarstjóri í smábænum Quellendorf í Þýskalandi, tilkynnti í sumar að hann hygðist þaðan í frá klæðast kvenmannsfötum og að hann myndi í framtíðinni gangast undir kynskiptaaðgerð. Margir bæjarbúa brugðust ókvæða við þessum tíðindum og krefjast þess nú að hann verði leystur frá störfum.

Aðstoðarbæjarstjórinn, Uwe Pforte, heldur því fram að Lindner hafi brugðist trausti kjósenda sinna, og hefur honum nú tekist að fá samþykki fyrir því að atkvæðagreiðsla verði haldin í nóvember um framtíð hans í embætti. "Við kusum karlmann en ekki konu. Hann hefði átt að láta okkur vita af þessu áður en við kusum hann," sagði Pforte.

Lindner á eiginkonu og fjórar dætur, sem allar hafa stutt hann dyggilega.