AÐ MATI Hildar Jónsdóttur, jafnréttisráðgjafa Reykjavíkurborgar, hefur almennt vel tekist til um skipan í nefndir, ráð og stjórnir borgarinnar út frá jafnréttissjónarmiði. Stjórnmálaflokkarnir standa sig þó misvel að gæta jafnræðis milli kynja. Meira jafnræði ríkir hjá R- listanum en hjá Sjálfstæðisflokknum.

Jafnréttissjónarmiða

gætt við skipan í nefndir

AÐ MATI Hildar Jónsdóttur, jafnréttisráðgjafa Reykjavíkurborgar, hefur almennt vel tekist til um skipan í nefndir, ráð og stjórnir borgarinnar út frá jafnréttissjónarmiði. Stjórnmálaflokkarnir standa sig þó misvel að gæta jafnræðis milli kynja. Meira jafnræði ríkir hjá R- listanum en hjá Sjálfstæðisflokknum. Meirihluti fulltrúa R-listans eru konur og ræður þar úrslitum að allir fulltrúar Kvennalistans eru konur.

Jafnréttisnefnd Reykjavíkurborgar samþykkti í sumar að fela jafnréttisfulltrúa Reykjavíkurborgar að taka sama yfirlit um hlutföll kynja í nefndum, ráðum og stjórnum stofnana borgarinnar. Nefndin sendi stjórnmálaflokkunum bréf fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar þar sem minnt er á ákvæði jafnréttislaga og á jafnréttisáætlun borgarinnar, en þar er það markmið sett að hlutföll kynja í nefndum, ráðum og stjórnum sé sem jöfnust.

Fleiri konur í nefndum hjá R-lista en Sjálfstæðisflokki

48% fulltrúa sem sitja í nefndum, ráðum og stjórnum borgarinnar eru konur og 52% karlar. Sé eingöngu litið á aðalmenn er hlutfallið 44,9% konur og 55,1% karlar. 51,7% fulltrúa R-listans eru konur og 48,3% karlar. 42,3% fulltrúa Sjálfstæðisflokksins eru konur og 57,7% karlar. Af aðalfulltrúum R-listans eru 52,5% konur, en þetta hlutfall er 33,3% hjá Sjálfstæðisflokknum.

Hildur skoðaði sérstaklega stöðu kynjanna hjá þeim stjórnmálaflokkum sem standa að R-listanum. 14,3% fulltrúa Alþýðuflokksins í aðalmannasætum eru konur. Þetta hlutfall er 38,7% hjá Alþýðubandalaginu og 41,7% hjá Framsóknarflokknum. Allir fulltrúar Kvennalistans eru konur og það sama á við óháða fulltrúa á R-listans.

Hildur segir að þátttaka Kvennalistans í Reykjavíkurlista verði til þess að tryggja jafnræði milli kynja. Sé aðeins litið til hinna hefðbundnu stjórnmálaflokka, Alþýðuflokksins, Alþýðubandalagsins og Framsóknarflokksins, er hlutur kvenna samanlagt 30,8% eða litlu minni en hlutur þeirra í sætum aðalfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, en þar er hann 33,3%.