Það verður ljósara með ári hverju að menntunarstig sker úr um velferð þjóða. Þekking eykst hraðar en nokkru sinni og það eru þau þjóðfélög sem eru best í stakk búin til þess að skapa hana, vinna úr henni ný tækifæri og miðla henni sem standa fremst.
Það verður ljósara með ári hverju að menntunarstig sker úr um velferð þjóða. Þekking eykst hraðar en nokkru sinni og það eru þau þjóðfélög sem eru best í stakk búin til þess að skapa hana, vinna úr henni ný tækifæri og miðla henni sem standa fremst. Aðalundirstöður samkeppnishæfni þjóða á komandi öld munu því ekki verða náttúruauðlindir eða mannfjöldi heldur fyrst og fremst gott og skilvirkt menntunarkerfi. Skilningur á þessu verður sífellt meiri í heiminum.

Efla þarf menntun kennara

HÉR Á LANDI hefur umræða um menntamál verið töluverð á síðustu mánuðum og misserum. Hin nýja skólastefna sem menntamálaráðherra kynnti síðastliðið vor hefur vakið nokkrar umræður. Niðurstöður hinnar alþjóðlegu TIMSS-könnunar sem sýna slaka þekkingu íslenskra grunn- og framhaldsskólanemenda í stærðfræði og náttúrufræðigreinum hafa þó vakið enn meiri viðbrögð. Er óhætt að segja að niðurstöðurnar hafi valdið vonbrigðum en þær staðfesta þó aðeins það sem marga hefur grunað; bent hefur verið á slæmt ástand þessara greina í skólakerfi okkar áður, meðal annars af Fleti ­ samtökum stærðfræðikennara, Félagi raungreinakennara og Verkfræðingafélagi Íslands.

Margar skýringar á orsök þessarar niðurstöðu hafa komið fram. Viðbrögð menntamálaráðuneytisins koma skýrt fram í hinni nýju skólastefnu þar sem sagt er fyrir um verulega fjölgun kennslustunda í stærðfræði og náttúrufræði. Sömuleiðis hefur íslenskt skólafólk unnið að endurskoðun á stærðfræðikennslu í grunnskólum landsins. Þar er unnið að því að taka upp kennsluaðferðir sem virða aðferðir barnsins til að komast að réttum niðurstöðum og færa stærðfræðina nær daglegu lífi barnsins, til dæmis með því að nota dæmi úr nánasta umhverfi þess. Barnið á þannig að sjá betur hvernig stærðfræðin nýtist því. Um leið er lögð meiri áhersla á skilning; er barnið látið tjá niðurstöður með orðum því efast má um að fólk skilji það sem það getur ekki útskýrt. Markmiðið með þessum breytingum er að skapa jákvætt viðhorf til greinarinnar.

Þessar breyttu áherslur eru skynsamlegar en það er annað mál sem hefur borið enn meir á góma í tengslum við hina slælegu útkomu íslenskra nemenda úr TIMSS-könnuninni en það er menntun kennara. Um hana hefur talsvert verið ritað hér í Morgunblaðið á undanförnum misserum og er full ástæða til þess að rifja upp nokkur atriði þeirrar umræðu enda hlýtur góð menntun kennara að vera grundvöllurinn að skilvirku menntakerfi.

Rækilega hefur verið bent á að menntun kennara sem útskrifast frá Kennaraháskóla Íslands í námsgreinum grunnskólans, stærðfræði, móðurmáli, ensku o.s.frv., sé áfátt. Flestir kennaranemar sérhæfa sig í tveimur bóklegum greinum en hverri grein eru ekki ætlaðar nema 12,5 einingar af 90 eininga námi og hluti af þessum fáu einingum námsgreinanna fer líka í kennslufræði. Í grein sem Þórir Ólafsson, rektor KHÍ, skrifaði í Morgunblaðið 6. desember 1996 kemur fram að niðurstaða TIMSS-könnunarinnar endurspegli slaka stöðu kennaramenntunar hér á landi miðað við nágrannalöndin, til dæmis Norðurlöndin. Þórir segir að allt frá stofnun skólans hafi mörgum verið ljóst að mikil þörf væri á að auka og efla þekkingu kennara í sérgreinum, einkum með hliðsjón af kennslu greinanna í efri bekkjum grunnskólans. Ennfremur segir Þórir: "Gamli kennaraskólinn menntaði fyrst og fremst kennara fyrir þáverandi barnaskólastig (1.­6. bekk), en gert var ráð fyrir að kennarar gagnfræðastigsins hefðu háskólapróf í sinni kennslugrein. Með sameiningu barna- og gagnfræðaskóla og nýjum lögum um grunnskóla og almennt kennaranám á háskólastigi fyrir heildstæðan grunnskóla breyttist þessi skipan. Sama þróun varð í Danmörku, Noregi og Svíþjóð en í kjölfarið var almennt kennaranám í þeim löndum fljótlega lengt í fjögur ár. Finnar, sem leggja mikla áherslu á traust menntakerfi, hafa lengt grunnnám kennara enn meir."

Gunnar Þorsteinn Halldórsson skrifaði grein um mismunandi áherslur í kennaramenntun hér á landi og í Svíþjóð í nýjasta tölublað Skímu, tímarits móðurmálskennara, sem vakin var athygli á í leiðara Morgunblaðsins fyrr í sumar. Í grein Gunnars Þorsteins kemur fram að sænskir kennaranemar sem sérhæfa sig í kennslu móðurmáls fyrir eldri bekki grunnskóla, taka 65 einingar í móðurmáli og hafa þannig að baki meiri menntun í sænsku en krafist er af íslenskukennurum í menntaskóla hér á landi. Í greininni kemur auk þess fram að kennaranám í Svíþjóð er hálfu til einu og hálfu ári lengra en hér á landi eftir því hvort stefnt er að kennslu á yngra eða eldra stigi grunnskólans og að þar er vægi uppeldisfræða minna en hér. Auðvitað vekur sérstaka athygli að í Svíþjóð er meiri áhersla lögð á menntun kennara í móðurmáli en hér; þar eru 15 móðurmálseiningar í kjarna miðað við 5 hér en þessar 5 einingar veita hverjum útskrifuðum kennara hérlendis rétt til að kenna móðurmál í öllum bekkjum grunnskólans. Allir sjá að þetta er fjarstæða.

Fjögurra ára kennaranám

STJÓRNVÖLD virðast hafa skilning á því að breyta þurfi áherslum í KHÍ og auka vægi sérgreinanna en ekki hefur tekist að koma þeim breytingum í kring. Árið 1988 voru ný lög um KHÍ samþykkt með miklum meirihluta á Alþingi. Þar var meðal annars gert ráð fyrir lengingu almenns kennaranáms til B.Ed.- gráðu um eitt ár til að styrkja fagþekkingu kennara í námsgreinum grunnskólans. Stjórnvöld ákváðu að nýja námið skyldi hefjast haustið 1991 en eftir mikinn og metnaðarfullan undirbúning, meðal annars með nám- og kennsluskrám í anda nýju laganna, voru áætlanirnar um fjögurra ára almennt kennaranám blásnar af. Með nýrri lagasetningu árið 1994 var lengingu kennaranámsins enn frestað til ársins 1998 hið síðasta og nú síðast þegar fréttist hafði nýskipað háskólaráð KHÍ samþykkt að haustið 1999 skyldi tekið upp fjögurra ára kennaranám á Íslandi.

Gera verður ráð fyrir því að þessi tímasetning standist enda verður ekki lengur skorast undan þeirri skyldu að efla kennaramenntunina í landinu. Flestir eru sammála um að auka þurfi vægi sérgreinanna í náminu, nema ef til vill uppeldis- og kennslufræðingarnir sjálfir sem vitanlega finna sig knúna til að verja fræðavígi sitt. Nýlega lagði forvinnuhópur vegna endurskoðunar aðalnámskráa í erlendum tungumálum til að fagmenntun tungumálakennara yrði stórefld. Í viðtali við Morgunblaðið 18. júlí síðastliðinn sagði Auður Hauksdóttir, lektor og forsvarsmaður forvinnuhópsins, að hann legði til að tungumálakennarar á grunnskólastigi hefðu að baki að minnsta kosti 45 eininga nám á háskólastigi í viðkomandi tungumáli í stað 12,5 nú.

Hinn þrítugasta júlí síðastliðinn skrifaði svo Eysteinn Þorvaldsson, prófessor við KHÍ, grein í Morgunblaðið þar sem hann segir að ekki megi gera minni kröfur til menntunar kennara en þessar 45 einingar á sérsviði, hvort sem það sé móðurmál, stærðfræði, raungreinar eða erlend tungumál. Telur Eysteinn að einungis með slíkri endurskipan kennaranáms sé hægt að búast við því að við höldum til jafns við nágranna okkar og aðrar menningarþjóðir sem fyrir löngu hafa hrint slíkum endurbótum skólakerfisins í framkvæmd. Ennfremur segir Eysteinn: "Því miður hefur Kennaraháskólinn að sínu leyti ekki borið gæfu til að rétta hlut sérgreina með innri skipulagsbreytingu í stofnuninni sjálfri. Uppeldisfræði og kennslufræði eru að sjálfsögðu nauðsynlegar í kennaranámi en hlutur þeirra er of stór miðað við sérgreinarnar í þeim þrönga stakki sem kennaramenntuninni er skorinn. Uppeldis- og kennslufræði eru mikilvægar stuðningsgreinar þeirrar menntunar sem Kennaraháskólinn á að veita. Hlutverk hans er að búa fólk undir þekkingarmiðlun ákveðinna námsgreina í grunnskólum landsins og kennarar verða að vera vel menntaðir í þeim greinum sem þeim er ætlað að miðla til nemenda sinna. Þessum hluta kennaramenntunar er of smátt skammtað af þeim sem völdin hafa. Þetta er brotalöm í skólakerfinu og þessvegna drögumst við afturúr öðrum þjóðum."

Óhætt er að taka undir þessi orð. Það hlýtur að vera okkur kappsmál að búa eins vel að menntun þeirra sem eiga að búa börn okkar undir hina hörðu samkeppni sem einkennir upplýsingaþjóðfélag nútímans og mögulegt er.

Vítahringur menntakerfisins

SVO AFTUR SÉ vikið að raungreinunum þá virðist vanræksla okkar á þeim í grunnskólunum hafa skapað vítahring sem gæti orðið þrautin þyngri að losa okkur úr. Í viðtali við Guðmund G. Haraldsson, prófessor við Háskóla Íslands, í Morgunblaðinu 18. ágúst síðastliðinn kom fram að skortur væri nú á fólki með háskólamenntun í raunvísindum. Guðmundur sagði að 10 til 15 útskrifist til dæmis úr efnafræði á ári en þyrftu að vera talsvert fleiri vegna aukinnar eftirspurnar. Síðastliðið vor fengu þannig allir útskrifaðir efna- og lífefnafræðingar umsvifalaust vinnu hjá Íslenskri erfðagreiningu. Vítahringurinn felst í því að við höfum vanrækt raungreinarnar í grunn- og framhaldsskólum sem veldur því að fáir nemendur hafa nægilega góð tök á fögunum til að leggja þau fyrir sig í háskóla. Þegar eftirspurnin eykst getum við því ekki svarað henni og afleiðingin verður vitanlega sú að hinar opinberu stofnanir, þar á meðal skólarnir, sem ekki geta boðið laun á við hinn opna vinnumarkað, sitja eftir. Þannig sjá menn nú fram á enn meiri skort á fagkennurum í framhaldsskólum en verið hefur sem gæti leitt til þess að áhugi og árangur íslenskra nemenda minnkaði enn í raungreinum. Að mati Guðmundar mun það taka 20 ár að laga þetta ástand eftir að farið verður að sinna raunvísindum af alvöru í framhaldsskólum, eins og hann tekur til orða.

Hér er grunnvandinn sem fyrr sá að grunnskólabörn fá ekki nægilega góða tilsögn og erum við þá aftur komin að menntun kennaranna og hæfni. En jafnframt er ljóst að lág laun kennara standa grunn- og framhaldsskólunum fyrir þrifum. Það er óumflýjanlegt að leiðrétta kjör þessarar stéttar ef laða á hæft fólk inn í skólana.

Vandi háskólans er í raun sá sami. Mikilvægt skref var þó stigið í júlí síðastliðnum þegar kjaranefnd úrskurðaði um kjör háskólaprófessora þannig að laun þeirra breyttust um 50% frá síðustu áramótum. Um leið var tekin upp sú ánægjulega nýbreytni að hækkun milli launaflokka ræðst af árangri í starfi, afköstum við rannsóknir, kennslu og stjórnun. Hugsanlega er þessi leiðrétting á launum prófessora til merkis um hugarfarsbreytingu gagnvart háskólanum og hlutverki hans.

Í framhaldi þarf að renna styrkari stoðum undir grunnrannsóknir í landinu en skilning hefur skort á því hjá stjórnvöldum og almenningi að þær eru ein meginforsendan fyrir skapandi og frjóu atvinnu- og menningarlífi. Opinberir styrkir til rannsókna hafa farið hækkandi á síðustu árum en betur má ef duga skal. Árið 1995 voru opinberir styrkir til rannsókna hér á landi 7 milljarðar króna en um 30% þeirrar upphæðar komu frá einkafyrirtækjum. Þessi upphæð er um 1,5% af landsframleiðslu. Árið 1997 voru styrkirnir hins vegar komnir á tíunda milljarð sem eru um 1,7% af landsframleiðslu. Hækkunin er því töluverð en samanburðurinn við aðrar þjóðir er okkur samt ekki hagstæður. Evrópusambandsþjóðir veita þannig að meðaltali um 2% af landsframleiðslu til rannsókna en samsvarandi tala hjá framsæknum þjóðum eins og Japönum, Bandaríkjamönnum og nágrönnum okkar Svíum er hins vegar um 3%. Finnar hafa svo lagt æ meiri áherslu á þennan þátt en þeir voru meðal þeirra þjóða Evrópu sem lögðu hvað minnst til rannsókna; stefna þeir að því að framlagið verði orðið 2,9% af landsframleiðslu árið 2000. Augljóst er að ef Íslendingar ætla ekki að dragast enn meira aftur úr þessum þjóðum verður að auka framlög til rannsókna og efla háskólann enn frekar.

Hægt væri að setja á langa ræðu um eðli, hlutverk og gildi fræðaseturs á borð við Háskóla Íslands en segja má að orð Páls Skúlasonar, rektors skólans, sem höfð voru eftir honum í viðtali hér í Morgunblaðinu síðastliðinn sunnudag, segi það sem segja þarf. "Allt fræðastarf er nýsköpun sem enginn veit fyrirfram hvað getur af sér. Enginn veit hvenær einhver gerir mikilvæga uppgötvun eða uppfinningu, hvenær ný hugmynd fæðist. Gildi fræðanna er að vera ótæmandi uppspretta hugmynda um eitthvað nýtt og merkilegt í heiminum og kveikja athafna."

"Í framhaldi þarf að renna styrkari stoðum undir grunnrannsóknir í landinu en skilning hefur skort á því hjá stjórnvöldum að þær eru ein meginforsendan fyrir skapandi og frjóu atvinnu- og menningarlífi. Opinberir styrkir til rannsókna hafa farið hækkandi á síðustu árum en betur má ef duga skal."