ÍSLENDINGAR hafa löngum sótt til London og eru margar sagnir þar um frá liðnum öldum. Keltar eru taldir hafa verið fyrstu íbúar borgarinnar og elsta rómverska byggðin, Londinium, er talin hafa risið um 43 e.k. Á 17. öld var borgin orðin þungamiðja heimsverslunarinnar.
Áfram

íslenskur

prestur

í London

London hefur lengi verið þýðingarmikill staður fyrir Íslendinga. Þangað hafa þeir sótt í auknum mæli menntun og ófáir hafa farið þangað til lækninga. Séra Jón Aðalsteinn Baldvinsson er prestur þar. Hann sagði Guðrúnu Guðlaugsdóttur frá starfi sínu í Bretlandi og víðar, þýðingu embættisins fyrir Íslendinga ytra og draumum þeirra um að koma á fót íslenskum samastað ­ Húsi Einars Benediktssonar.

ÍSLENDINGAR hafa löngum sótt til London og eru margar sagnir þar um frá liðnum öldum. Keltar eru taldir hafa verið fyrstu íbúar borgarinnar og elsta rómverska byggðin, Londinium, er talin hafa risið um 43 e.k. Á 17. öld var borgin orðin þungamiðja heimsverslunarinnar. Jón Indíafari segir m.a. í Reisubók sinni frá veru sinni í London. Á síðari tímum eru þeir æði margir Íslendingarnir sem farið hafa í læknisaðgerð til London, að ekki sé talað um alla þá sem sótt hafa þangað menntun eða skemmtun. Séra Jón Aðalsteinn Baldvinsson hefur verið prestur Íslendinga í Bretlandi í fimmtán ár. Ekki alls fyrir löngu leit út fyrir að embætti þetta yrði jafnvel lagt niður, en nú er ljóst að svo verður sem betur fer ekki. Þótt þeim hafi fækkað sem sækja læknisþjónustu til Lundúna í kjölfar aukinnar þjónustu hér heima eru samt sem áður mjög margir sem það gera. Aðgerðirnar eru hins vegar orðnar mun sérhæfðari og að mörgu leyti erfiðari að sögn séra Jóns Baldvinssonar, sem staddur var hér á landi fyrir skömmu. Sigríður Ella Magnúsdóttir er formaður sóknarnefndar íslenska safnaðarins í London. Hún sagði við blaðamann að starf prestsins þar væri Íslendingum í borginni einstaklega þýðingarmikið. "Það er mikilvægt fyrir Íslendinga að eiga þess kost að hittast mánaðarlega við messu, þangað kemur fólk með börn sín og þessir samfundir sameina einstaklinga og fjölskyldur sem hér dvelja eða eru búsettir," sagði Sigríður Ella.

Það var árið 1983 sem séra Jón Baldvinsson fór utan ásamt konu sinni, Margréti Sigtryggsdóttur, til þess að taka við störfum sem prestur Íslendinga í London, með sérlegri áherslu á þjónustu við sjúklinga sem þangað leituðu í læknisaðgerðir. Hann bjó í fyrstu á hóteli ásamt Margréti konu sinni en nokkru síðar fengu þau hjón og dætur þeirra tvær íbúð í Southfields, þar sem þau voru í eitt ár. Þá fluttu þau í Wimbledon, þar sem þau hafa átt heimili síðan. Dætur sínar sendu þau hjón til Íslands til náms í framhaldsskóla. "Það voru hyggindi sem í hag komu," segir Jón glettnislega. "Sú eldri er nú gift íslenskum manni og búa þau ásamt börnum sínum í Stykkishólmi. Hann stundar tónlistarkennslu en hún er organisti í kirkjunni og annast kórstjórn." Í samtali við blaðamann sagði séra Jón ennfremur að óneitanlega væru barnabörnin farin að toga í þótt þau hjón yndu hag sínum vel í London. Sonur Jóns á einnig konu og börn og býr á Íslandi en yngsta dóttirin lauk nýlega háskólaprófi í sjúkraþjálfun í London.

Það var séra Jónas Gíslason sem hafði forgöngu um að embætti prests í London var komið á laggirnar. Hann þurfti að fara í aðgerð þar ytra og gerði sér vel ljóst hve þýðingarmikið það væri að hafa starfandi prest þar. Þegar heim kom hafði hann samband við menn hjá kirkju- og heilbrigðisyfirvöldum og niðurstaðan varð sú að séra Jóni Baldvinssyni var boðin staða prests með aðsetur í London. Hann hafði góðan undirbúning til þess að gegna þessu starfi. "Meðan ég var í guðfræðinámi skilaði ég verkefni sem ég vann á Borgarspítalanum undir handleiðslu Karls Strands og var í framhaldi af því raunar starfandi við sjúkrahúsið meðfram námi um tíma. Síðar fékk ég styrk Alkirkjuráðs og fór til náms til Edinborgar. Frá háskólanum þar lauk ég ári síðar prófi í "Pastoral care and counceling"."

Sálgæsla og sjúkrahúsþjónusta

Séra Jón Baldvinsson fæddist í Þingeyjarsýslu 17. júní 1946. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri vorið 1968. "Í MA kynntist ég konu minni og við giftum okkur árið sem ég varð stúdent," segir Jón. Hann lauk guðfræðiprófi árið 1974 og vígðist til Staðarfellsprestakalls sem nú er raunar aflagt, hefur sameinast Hálsprestakalli og heitir hið nýja prestakall Ljósavatnsprestakall. "Þar nyrðra var ég prestur þar til ég fékk leyfi til náms í sálgæslu með sérlegri áherslu á sjúkrahússþjónustu, sem ég stundaði í Edinborg eins og fyrr sagði." Jón var einnig um tíma á námsárum til aðstoðar í félagsráðgjöf undir stjórn Huldu Guðmundsdóttur félagsráðgjafa. "Þá var mikill skortur á sérmenntuðu fólki til þeirra starfa," segir hann. Eftir námsárið í Skotlandi tók Jón við preststörfum fyrir norðan á ný en skömmu síðar losnaði starf prests á Akureyri. Hann sótti um en náði ekki kosningu. "Ég lít á það sem guðlega forsjón," segir hann og kveðst þakklátur fyrir að svo fór. "Mér fannst þetta að vísu erfitt en ég var eigi að síður ósár eftir þær kosningar," bætir hann við.

Jón og Margrét kona hans komu til London í júlí árið 1983. Á aðalfundi Íslendingafélagsins 1. desember það ár var samþykkt að stofna íslenskan söfnuð og kosin var sóknarnefnd, sem Vigdís Pálsdóttir, starfsmanneskja í utanríkisþjónustunni, veitti fyrst forstöðu. "Jólin 1983 var fyrsta messan haldin í norsku kirkjunni í London," segir Jón. "Í upphafi var þjónusta við sjúklinga sem komu til lækninga í London fullt starf. Það komu svo margir sem taka þurfti á móti og aðstoða, ekki aðeins sjúklingar heldur líka aðstandendur. Það þurfti að finna stað fyrir fólkið til að dvelja á og aðstoða það á ýmsa lund. Undirbúningur fyrir komu fólks hófst oftast áður en það kom út. Hafa þurfti samband við spítala og finna húsnæði."

Eftir því sem Íslendingum hefur fjölgað í Bretlandi hafa komið til aðrir þjónustuþættir og almenn aðstoð af hálfu prestsins þar. Mjög margt fólk er þar búsett og margir leggja þar leið sína um. "Safnaðarstarfið hefur hlaðið mikið utan á sig. Mánaðarlega guðsþjónustur eru frá í september og þar til í júnílok. Sumarmánuði þýðir ekki að hafa messur, fólk er þá of mikið á ferð og flugi," segir Jón. Hann kvaðst fara reglulega til Íslendinga í Grimsby og Hull og í fyrra fór hann til Edinborgar í fyrsta skipti. "Menn vilja að ég komi og í mörg ár þjónaði ég einnig á meginlandi Evrópu, fór til Lúxemborgar, Parísar og Brussel. Ég annast öll venjuleg prestverk, gifti og skíri. Einnig eru einstaka jarðarfarir. Kistulagningar voru mun fleiri áður en nú er. Það er alltaf haldin athöfn, ef fólk deyr ytra, t.d. eftir aðgerðir eða af slysförum, áður en lík eru send heim til Íslands til greftrunar."

Öflugur kór Íslendinga í London

Íslenskur kór starfar í London. "Kórinn er öflugur, enda byggður upp af tónlistarfólki sem er við nám í Bretlandi. Síðari ár einkum hafa margir Íslendingar stundað söngnám í London og víðar í Bretlandi. Kórstarfið er mikilvægt." Fyrsti stjórnandi kórs Íslendinga var Inga Huld Markan en ýmsir aðrir hafa stjórnað kórnum síðan. Kórinn hittist vikulega og sér að sögn séra Jóns um glæsilegan kirkjusöng og kemur einnig fram við ýmis tækifæri, fer í ferðalög og messuferðir ásamt prestinum til Evrópu. "Við fórum til New York og héldum guðsþjónustu þar í vor. Í fyrra tók kórinn þátt í kóramóti íslenskra kóra erlendis í Kaupmannahöfn. Við messurnar má oft heyra frábæran einsöng og hljóðfæraleik, nánast er um listviðburði að ræða í hverri messu," segir Jón. Hann kvað íslensk fyrirtæki í Bretlandi hafa styrkt starfsemi kórsins og reyndar allt kirkjustarf. "Styrkur úr Kristnisjóði til safnaðarstarfsins er raunar fyrir hendi, en hann dregur ekki langt, þá koma til almenn samskot við messu og fyrirtækin hafa svo lagt til það fé sem upp á hefur vantað," segir Jón.

Þótt embætti prests í London hafi nú fyrir skömmu verið tryggt til frambúðar er ekki búið að ganga til fullnustu frá fjárhagshlið þess dæmis. "Þetta er dýrt embætti og þungur baggi fyrir kirkjuna, það er því sanngirnisatriði að fleiri komi þar að, svo sem heilbrigðisyfirvöld, félagsmála-, utanríkis- og menntamálayfirvöld, því embættið tekur á öllum þessum þáttum að einhverju leyti," segir séra Jón. Embættið hefur stuðlað að menningarstarfsemi af ýmsu tagi, svo sem hvað snertir tónlist og leiklist. Þá kvað hann málfarsþáttinn einnig vera þýðingarmikinn. "Íslensk guðsþjónusta er liður í því, þar gefst börnum og öðrum tækifæri til þess að hlusta og tala saman á íslensku." Sameiningarþáttinn kvað séra Jón þó ekki síst mikilvægan. "Áður en prestur tók til starfa í London komu Íslendingar þar ekki saman formlega nema tvisvar ár ári, þ.e. á þorrablóti og 1. des.-fagnaði Íslendingafélagsins, auk þess hélt sendiherra stundum boð fyrir Íslendinga hinn 17. júní. Allt hefur þetta breyst eftir að Íslendingar fengu vettvang til þess að koma saman einu sinni í mánuði í messu og messukaffi. Íslendingafélagið tók við þetta mikinn fjörkipp og fréttablaðið Molda er orðið að stærra blaði sem kemur nú út mánaðarlega. Það er heldur ekki vanþörf á þessari starfsemi því Íslendingar eru ekki færri en 2.000 í Bretlandi að jafnaði."

Hús Einars Benediktssonar

Þess ber að geta að Íslendingafélagið í London hefur verið að leita að samastað fyrir íslenskt menningarsetur þar í borg. "Við eigum þann draum að stofna Hús Einars Benediktssonar, þar sem væri aðstaða fyrir Íslendinga til að hittast og koma saman. Ég vona að sá draumur geti orðið að veruleika," sagði séra Jón. Flestar messur Íslendinga í London eru nú haldnar í þýsku kirkjunni þar í Montpellierplace en lengi vel voru messurnar haldnar í sænsku kirkjunni. "Nú er verið að leita að hentugum stað fyrir messurnar, bókasafnið, starfsemi Íslendingafélagsins og skólahaldið, auk hvers konar fundarhalda. Við reyndum að fá stjórnvöld hér til þess að koma þarna inn í en það hlaut ekki hljómgrunn. Það er því Íslendingafélagið og íslenski söfnuðurinn sem leitar nú að samastað fyrir hið fyrirhugaða Hús Einars Benediktssonar, Íslendingum í Bretlandi til heilla og til heiðurs hinu látna þjóðskáldi sem eyddi mikilsverðum tíma í lífi sínu í London," sagði séra Jón Baldvinsson að lokum.

Morgunblaðið/Jón Svavarsson SÉRA Jón Aðalsteinn Baldvinsson.