HELGI Símonarson á Þverá í Svarfaðardal er 103 ára í dag, sunnudag. Hann fædddist 13. september 1895 að Gröf í Svarfaðardal. "Ég hef haft gaman af lífinu," sagði Helgi er blaðamaður Morgunblaðsins drakk með honum morgunkaffi í gær, heima á Þverá.
Helgi Símonarson á Þverá í Svarfaðardal er 103 ára í dag "Hef haft gaman af lífinu"

HELGI Símonarson á Þverá í Svarfaðardal er 103 ára í dag, sunnudag. Hann fædddist 13. september 1895 að Gröf í Svarfaðardal. "Ég hef haft gaman af lífinu," sagði Helgi er blaðamaður Morgunblaðsins drakk með honum morgunkaffi í gær, heima á Þverá.

Helgi var léttur í lund og hinn hressasti, þrátt fyrir að sjón og heyrn séu farin að daprast og þá sagði hann að fæturnir væru farnir að gefa sig. Helgi ætlaði ekki að vera með neitt tilstand á þessum merku tímamótum en vonaðist eftir því að geta farið á Tungurétt og fengið sér kaffi með sveitungum sínum.

Helgi fylgist vel með fréttum, hann horfir mikið á sjónvarp og hlustar á útvarp en sagðist ekki geta lesið blöðin lengur. Hann hefur alla tíð verið mikill áhugamaður um ensku knattspyrnuna og saknar þess að geta fylgst með ensku liðunum, eftir að Stöð 2 keypti sýningarréttinn. Helgi sagðist ekki hafa eins gaman af þýsku knattspyrnunni en hann var að vonum ánægður með að Dalvíkingar skyldu tryggja sér sæti í 1. deild sl. föstudagskvöld.

Vill ekki fara á elliheimili

Helgi sagðist hafa verið gallharður framsóknarmaður lengst af en sér hafi þó ekki alltaf líkað það sem flokkurinn hafi aðhafst. "Ég var ekkert þægur framsóknarmaður. Tryggvi Þórhallsson var minn helsti lærifaðir og ég fylgdi honum þegar Bændaflokkurinn varð til eftir 1930."

Helgi keypti Þverá árið 1930 og bjó þar með kýr og kindur, auk þess sem hann stundaði kennslu á Dalvík í 19 ár og á Árskógsströnd í 1 ár. Hann lét sig ekki muna um að ganga til Dalvíkur er hann stundaði kennslu þar. Helgi hætti búskap árið 1972 en er enn á Þverá og vill hvergi annars staðar vera. Helgi hefur alla tíð verið reglumaður og hann segir að það eigi stóran þátt í þessum háa aldri sínum. Hann sagðist ekki hafa áhuga á að fara inn á elliheimili og slíkar stofnanir væru aðeins fyrir fólk sem þyrfti á slíkri vistun að halda. Á Þverá búa nú félagsbúi Símon, sonur Helga, og Guðrún Lárusdóttir, dótturdóttir hans.

Helgi giftist Maríu Stefánsdóttur hinn 4. júní 1927 en hún lést 20. nóvember 1963. Þau eignuðust 6 börn, upp komust þrjú þeirra en aðeins eitt þeirra er á lífi.

Morgunblaðið/Kristján HELGI Símonarson er 103 ára í dag en er þrátt fyrir háan aldur léttur í lund og hinn hressasti.