SKÝRSLA Kenneth Starrs til Bandaríkjaþings og sú ákvörðun þingsins að gera hana opinbera hefur vakið mikla athygli um alla heim en enn ríkir óvissa um það hver verði viðbrögð bandarísku þjóðarinnar. Samkvæmt skoðanakönnun, sem sjónvarpsstöðin ABClét gera á föstudagskvöld eftir að efni skýrslunnar var orðið opinbert,
Skýrsla Kenneth Starrs vekur umræðu um allan heim

Mikil óvissa um viðbrögð almennings



Washington. Reuters. SKÝRSLA Kenneth Starrs til Bandaríkjaþings og sú ákvörðun þingsins að gera hana opinbera hefur vakið mikla athygli um alla heim en enn ríkir óvissa um það hver verði viðbrögð bandarísku þjóðarinnar. Samkvæmt skoðanakönnun, sem sjónvarpsstöðin ABC lét gera á föstudagskvöld eftir að efni skýrslunnar var orðið opinbert, telja 57% aðspurðra að höfða eigi mál til embættismissis á hendur forsetanum ef sannað þykir að hann hafi hvatt Monicu Lewinsky til að segja ósatt um samband þeirra. Hins vegar segjast 56% aðspurðra sátt við störf Clintons sem forseta og er það áþekkt hlutfall og áður en skýrslan kom út.

Í forystugrein The New York Times í gær segir að hvernig sem fari muni í máli forsetans, sem gerði sér vonir um að verða minnst fyrir félagslegar umbætur, þess í stað verða minnst fyrir "fáfengilegan smekk og hegðun, og fyrir þá óvirðingu sem hann sýndi híbýlum er njóta tignar sem tákn um virðuleik forsetaembættisins". Leitt er að því getum að Clinton hefði komist farsællega frá málinu ef hann hefði sagt sannleikann frá upphafi og strax beðið þjóðina afsökunar. Nú sé ekki víst hvort honum sé áfram sætt á forsetastóli. Blaðið tekur ekki beina afstöðu til þess hvort Clinton eigi að segja af sér, en skýrt er tekið fram að forseti sem njóti ekki virðingar þjóðarinnar eða stuðnings þingsins geti ekki enst í embætti.

Gæti ekki hafa komið upp á verri tíma

Í forystugreinum margra dagblaða í Evrópu og Asíu var Clinton hvattur til að segja af sér. Flestir virtust sammála um að málið gæti ekki hafa komið upp á verri tíma, þegar blikur væru á lofti í Rússlandi og víðar og efnahagskreppa vofði yfir heiminum. Margir virtust óttast að kreppa í bandarískum stjórnmálum yrði til þess að veikt heimshagkerfið riðaði til falls.

Í breska síðdegisblaðinu The Sun sagði í forystugrein að Clinton væri "óhæfur til að gegna forsetaembætti" og ætti að segja af sér. The Express birti frétt um Hillary eiginkonu hans undir fyrirsögninni "Ég stend ávallt með þér ... viðurstyggilega kvikindið þitt."

Fjölmiðlar í Thailandi og Singapore birtu ekki þá þætti skýrslunnar sem innihéldu nákvæmar lýsingar á kynferðislegum samskiptum forsetans og Monicu Lewinsky. Það gerðu hins vegar fjölmiðlar í Suður- Kóreu, og haft var eftir miðaldra húsmóður í Seoul að málið væri hræðilega vandræðalegt. "Bandaríkjamenn hefðu átt að fjalla um þetta á varfærnari hátt. Hvernig á forsetinn nú að geta staðið frammi fyrir börnum?"

Nýtt McCarthy-tímabil

Fjölmiðlar í Frakklandi, þar sem hugtakið "kynlífshneyksli" er nánast þversögn, deildu á Bandaríkin fyrir að gera ástarlíf forsetans að vandamáli alls heimsins. Stærsta dagblað Frakklands, Le Monde lýsti saksókaranum Kenneth Starr sem "skrímsli" og sakaði hann um að reyna að koma á "hrollvekjandi siðferðislögmáli, þar sem kynlíf er nátengt synd og þar sem kynferðislegt samband tveggja fullorðinna hlýtur að vera eitthvað hræðilegt". Ástandinu í Washington líkti blaðið við nýtt McCarthy-tímabil, þar sem ótti við kynferðismál hefði komið í stað óttans við kommúnismann.



Sjá nánar bls. 19-21. Reuters. BILL Clinton og eiginkona hans tóku á föstudag þátt í minningarsamkomu um fórnarlömb sprengjutilræðanna í Afríku ásamt Al Gore varaforseta.