EINU sinni átti ég viðtal við gamla konu af fínum ættum sem átti fallegt og vel hirt heimili. Konan var komin um nírætt og ég hafði orð á því að hún hlyti að hafa mjög góða heimilishjálp, svo fínt sem var hjá henni. "Ég hef enga heimilishjálp núna ­ sem betur fer. Þótt það sé orðið mér mjög erfitt reyni ég að vinna mín heimilisstörf sjálf," svaraði konan.
ÞJÓÐLÍFSÞANKAR ð/Myndi ekki borga sig að borga vel?

Hæft fólk í heimilishjálp

EINU sinni átti ég viðtal við gamla konu af fínum ættum sem átti fallegt og vel hirt heimili. Konan var komin um nírætt og ég hafði orð á því að hún hlyti að hafa mjög góða heimilishjálp, svo fínt sem var hjá henni. "Ég hef enga heimilishjálp núna ­ sem betur fer. Þótt það sé orðið mér mjög erfitt reyni ég að vinna mín heimilisstörf sjálf," svaraði konan. Mér kom þetta svar á óvart og spurði hvers vegna í ósköpunum hún fengi ekki hjálp við erfiðari verk, orðin svona öldruð og oft á tíðum lasin. "Sjáðu ­ ég hafði heimilishjálp fyrir nokkrum árum, það var kona sem var dálítið hátt stemmd og talaði mikið. Hún varð alltaf svo æst ef ég svaraði ekki rétt að hennar mati. Ég reyndi þá að gæta þess að mótmæla henni ekki og víkja ekki talinu að neinu sem ég gat látið mér detta í hug að henni mislíkaði. Þrátt fyrir þetta kom þó öðru hvoru fyrir að mér yrði á í messunni og segði eitthvað sem hún varð fokvond yfir." Einstaka sinnum hafði heimilishjálpin fengið sér í glas og var þá að sögn gömlu konunnar enn fasmeiri en ella. Svo kom að því að tvennt gerðist um leið; heimilishjálpin var slompuð og gömlu konunni varð á í messunni. Heimilishjálpin hafði þá engin umsvif heldur rétti skjólstæðingi sínum löðrung. "Ég passaði mig á að tala ekki meira við hana þann morguninn og reyndi raunar eftir þetta að hliðra mér hjá því að tala við hana. Svaraði helst bara einsatkvæðisorðum. Þegar hún svo fór í sumarfrí skömmu síðar notaði ég tækifærið til þess að láta yfirmann heimilishjálparinnar vita að ég vildi ekki fá meiri hjálp og var Guðs fegin að losna svo auðveldlega út úr þessu. Síðan hef ég ekki fyrir mitt litla líf þorað að þiggja neina aðstoð nema frá kunnugu fólki," sagði þessi kurteisa og ljúfa gamla kona, sem nú hefur fyrir margt löngu safnast til feðra sinna.

Þetta atvik er vonandi einsdæmi. Þvert á móti er ábyggilegt að flest það fólk sem sinnir heimilishjálp reynir að vera hlýlegt í viðmóti og gera eins vel og það getur í öllu tilliti. Hins vegar heyrir það þó ekki til undantekninga að ýmislegt sérkennilegt heyrist frá þessum vettvangi, einkum í sambandi við verk og verklag. Það vill t.d. brenna við að heimilishjálpin segist ekki eiga eða mega gera hitt og þetta sem skjólstæðingur vill eða þarf að fá gert ­ megi t.d. ekki fægja silfur eða gera hrein herbergi svo dæmi séu nefnd. Það er vafalaust nauðsynlegt að koma sér upp meginreglum í heimilishjálp. Hins vegar er á sama hátt nauðsynlegt að gera sér grein fyrir að þeir sem þurfa hjálp eru í alla vega ástandi. Sumir geta illa gengið eða borið og geta því ekki dregið að matvöru. Aðrir geta ekki þvegið, sjá ekki til að stilla þvottavél eða hengja upp þvott. Enn aðrir geta t.d. vegna gigtar ekki þurrkað af, þvegið upp um alla veggi, gert hreint í geymslum eða sett upp gardínur. Við öllum þessum þörfum verður heimilishjálpin helst að bregðast. Mér heyrist að stundum vilji verða misbrestur á að þeir sem sinna heimilishjálp átti sig á þessum ólíku þörfum og segi sem svo. "Við megum því miður alls ekki gera þetta eða hitt, reglurnar segja það." Staðan getur orðið sú að heimilishjálpin vill þá kannski gera það sem skjólstæðingurinn getur en alls ekki gera það sem hann getur ekki en þarf sárlega að fá gert. Sá sem hefur yfirumsjón með heimilishjálp hlýtur að koma eða senda mann á staðinn sem "tekur út" það sem gera þarf ­ talar við hinn aldraða eða veika á heimili sínu, skoðar aðstæður og fær að vita nákvæmlega hvað viðkomandi getur gert sjálfur og hvað ekki. Um það getur auðvitað enginn sagt nema hann sjálfur. Einhverra hluta vegna skortir þó greinilega stundum upp á að úttektin sé nægilega markviss ­ svo mikið hef ég heyrt og séð.

Það gerir talsverðar kröfur til fólks að sinna heimilishjálp. Slíkir starfsmenn þurfa að vera í góðu andlegu jafnvægi eins og allir þeir sem sinna veiku, öldruðu eða lasburða fólki. Starfsmennirnir þurfa að vera vel verki farnir og helst hjálpsamir og þolinmóðir að eðlisfari. Það skiptir miklu máli að heimilishjálpin gangi vel fyrir sig vegna þess að ef henni er sinnt eins og þörf er á getur það hjálpað fólki að vera heima sem ella þyrfti að vista á stofnunum. Góðir starfsmenn þurfa góð laun. Það er misjafnt eftir bæjarfélögum hver laun heimilishjálpar eru, en sjaldnast eru þau há. Það borgar sig þó ábyggilega þegar til lengri tíma er litið að borga þau laun sem duga til að vel hæft fólk fáist til starfans.

eftir Guðrúnu

Guðlaugsdóttur