Þórir Jónsson Af veikum mætti langar mig til að minnast afa míns. Ég segi af veikum mætti vegna þess að ég var ekki nema rúmlega þriggja ára þegar hann kvaddi. Engu að síður lifir og dafnar minning um yndislegan afa, afa sem gaf og elskaði.

Á lífsleiðinni hef ég oft orðið þess áskynja að yfir mér sé vakað, að það sé einhver sem haldi yfir mér verndarhendi, styrki mig og styðji. Og alltaf fylgir mér sú sannfæring að það sé Þórir afi. Mér er mjög minnisstætt þegar ég og Hjörtur vinur minn ákváðum einn góðviðrisdag að ganga á Helgafell fyrir ofan Hafnarfjörð. Við fengum far upp að Kaldárseli og þaðan gengum við áleiðis til fjallsins sem nú skyldi sigrað. Fyrir tvo fljóthuga tíu ára snáða var þetta lítið mál. Ekki voru lagðar til grundvallar neinar vísindalegar rannsóknir á því hvernig best væri að haga göngunni. Það lá ljóst fyrir: beint af augum. Sem og við gerðum. Til að byrja með gekk allt að óskum. Síðan fór brattinn að aukast og það fóru að renna á okkur tvær grímur. Það var víða sandur á klöpp sem gerði klöppina mjög hála. Við vorum farnir að gera okkur grein fyrir því að þetta væri hættuspil. Við hvöttum hvor annan til að fara varlega því stórgrýtt var allt í kringum okkur. En áfram skyldi haldið, fjallið skyldi sigrað, hvað sem tautaði og raulaði. Við vorum komnir mjög ofarlega þegar það gerðist. Ég man það eins og það hefði gerst í gær.

Mér skrikaði fótur. Ég rann á klöppinni. Fyrr en varði var ég kominn á fleygiferð. Það var alveg sama hvernig ég beitti höndum eða fótum, hraðinn jókst bara. Allt í einu var eins og kippt væri í peysuna mína aftanverða, ég snarstoppa og í sömu andrá finn ég að fæturnir dingla í lausu lofti. Ég var á snös. Þegar ég kíkti fram af milli fóta mér blasti við mér þverhnípi og stórgrýti þar fyrir neðan. Langt fyrir neðan. Það hefði ekki þurft að spyrja að leikslokum ef ég hefði farið fram af. Það að gripið skyldi í mig með þessum hætti var undarlegt. En ennþá undarlegra var að ég skyldi aldrei verða hræddur. Eins og ég vissi að mér væri engin hætta búin. Eins og ég vissi að það væri einhver þarna fyrir mig, einhver sem myndi sjá til þess að ekkert slæmt kæmi fyrir. Afi.

Við vinirnir létum loks segjast. Fjallið skyldi sigrað einhvern annan góðviðrisdag. Þegar ég kom heim sagði ég frá atburðum dagsins. Það var enginn efi hjá mömmu. Sá sem hafði gripið í taumana vildi ekki að neitt kæmi fyrir mig. Elskaði mig út yfir gröf og dauða. Afi.

Að lokum langar mig til að gera orð mömmu að mínum:

Það líður tími og líða ár

þá gróa líka opin sár.

Guð hann læknar.

Við treystum á

hans mildu hönd

sem þerrar tár.

Blessuð sé og veri ætíð minningin um sómamanninn Þóri Jónsson.

Þorsteinn Gunnar.