Kristín Halldórsdóttir Þegar maður dvelur einn erlendis er fátt yndislegra en gott bréf eða símtal að heiman. En þegar það boðar harmafregn verður sorgin nánast óbærileg. ­ Hún Stína vinkona þín í Borgarnesi dó í nótt. Hún sofnaði í gærkvöldi við hliðina á Guðmundi, en vaknaði ekki aftur í morgun. Það er enginn til að gráta hjá, enginn til að hugga. Og ég sest við tölvuna til að tala við sjálfa mig og segja öðrum hver hún Stína var. Ég þarf að tala í þátíð um hana Stínu.

Kristín Halldórsdóttir frá Dýrastöðum var ein af bestu dætrum Borgarfjarðar. Ein af bestu dætrum Íslands. Hún var gáfuð svo af bar. Hún var trú öllum bestu gildum íslensks samfélags. Hún var fjögurra barna móðir, atorkusöm, gerði alla hluti vel, þess vegna eftirsótt til allrar vinnu og trúnaðarstörfin hlóðust jafnt og þétt á hennar þykku herðar.

Hún var gegnheil og góð manneskja. Og hún var vinkona mín. Við kynntumst þegar við vorum 15 ára, í skógræktinni í Þverárhlíð, ég af Skaga hún úr Norðurárdalnum. Hún var nærsýn, feitlagin og feimin að sjá, en það þurfti ekki að ræða lengi við hana til þess að finna fyrir hennar skörpu greind. Og hún brosti svo kankvíslega. Þetta var yndislegt og sólríkt sumar. Við urðum brúnar á bakinu við bogrið yfir plöntunum. Þegar við hittumst næst í Menntaskólanum á Akureyri komum við því fljótlega þannig fyrir að við gátum verið saman á herbergi í heimavistinni. Okkur féll ákaflega vel hvorri við aðra og við skólann, báðar áhugasamar um námið og milli okkar ríkti andi samkeppni og sívaxandi vináttu. Í mér var alltaf heldur meiri óróleiki og útþrá, ég stökk út í bæ og hljóp yfir bekk, en Stína varð að sjálfsögðu dúx máladeildar 1968. Þá var ég gift kona að verða mamma, en Stína átti líka kærasta. Guðmund Egilsson úr Borgarnesi. Hann var fimm árum eldri en hún upp á dag. Þau voru bæði fædd 6. maí.

Guðmundur Egilsson, eða Mummi, eins og Stína kallaði hann alltaf í bréfunum sínum, horfir nú á eftir sinni mætu konu löngu fyrir tímann. Við sem urðum fimmtugar í vor töldum okkur rétt í hálfnuðu verki. Stína átti margt ógert, margt ólifað, m.a. að fá að fylgjast með barnabörnunum litlu vaxa úr grasi. Guðmundur hefur mikið misst, börnin hafa mikið misst, barnabörnin, Borgarfjörður, já við öll sem þekktum hana og nutum vináttu hennar og krafta. Hér í milljónaborginni reyni ég að hugga mig við minningar þessa góða og gjöfula sumars, minningar um síðasta fund okkar Stínu. Það var í júní. Við Einar vorum á ferð um Borgarfjörð og þau lánuðu okkur húsið sitt eina nótt. Voru sjálf að fara á stórt ættarmót sem Stína var í forystu fyrir. Sólsetrin eru ákaflega fögur við Kveld-Úlfsgötuna í Borgarnesi, ég gat ekki hugsað mér að draga fyrir gluggann, vildi sofna í þessari rauðu birtu í svefnherberginu þeirra. Morguninn eftir var himnaríkisblíða í garðinum sem rennur saman við votar leirurnar og fjöruborðið út í sjó. Við fórum með kaffibollana út og tímdum varla að yfirgefa staðinn.

Núna þegar ég syrgi Stínu svo ákaft ætla ég að hugga mig við að hún sofnaði svefninum langa í sínu góða rúmi. Ég sé fyrir mér rauðan bjarmann á veggnum, því það hlýtur að hafa verið fagurt sólsetur. Og þegar hún vaknar upp að morgni lífsins handan dauðans, brosir hún kankvíslega og segir, ­ jæja, svona er þetta þá, ­ og gengur út í garðinn sem nær á enda veraldar. Og það er himnaríkisblíða. Héðan frá París sendi ég öllum aðstandendum og þeim fjölmörgu sem eiga um sárt að binda við fráfall Kristínar Halldórsdóttur mínar dýpstu samúðarkveðjur.

Steinunn Jóhannesdóttir.