Stefán Jón Björnsson Meðan veðrið er stætt

berðu höfuðið hátt

og hræðstu eigi skugga á leið.

Bak við dimmasta él

glitrar lævirkjans ljóð

upp við ljóshvolfin björt og heið

þó steypist í gegn

þér stormur og regn

og þó byrðin sé þung sem þú berð

þá stattu fast og vit fyrir víst

þú ert aldrei einn á ferð.

(Rogers, Hammerstein) Elsku Stefán afi, nú er kall þitt komið og þú meðal ástvina á öðru tilverustigi og orðinn frískur aftur. Berðu Láru ömmu kveðju mína. Ég vil þakka þér, elsku afi minn, allan hlýhuginn sem þú barst til mín og fjölskyldu minnar. Það sem mér er minnisstæðast eru stundirnar sem ég átti með þér í Úthlíðinni er ég var búsett í Reykjavík um stund. Alltaf tókstu svo vel á móti mér og varst glaður í bragði, hitaðir tevatn og bauðst mér brauð. Þá hófst sögustund sem ég hafði mikla unun af, enda fannst mér þú merkilegur karl. Þú talaðir um foreldra þína, æsku, uppvaxtarár og um Láru ömmu, sem ég hitti aldrei. Það sem mér finnst verst í dag er að hafa ekki skrifað upp frásögn þína til varðveislu fyrir mig, því þú hafðir lifað merkilega tíma. Alltaf varstu einstaklega vel klæddur, strokinn og fínn. Þannig minnist ég þín, elsku afi minn.

Ég, Elís, Kjartan Björn og Kristín Inga hugsum til þín með hlýhug og þakklæti yfir því að hafa fengið að kynnast þér. Blessuð sé minning þín og guð veri með þér.

Þín sonardóttir (frænka),

Ragnheiður Kristín Björnsdóttir.