Ingibjörg Steinþórsdóttir Elsku Inga amma. Nú ertu farin til Guðs og þó ég sakni þín þá veit ég að þér líður vel núna. Ég kynntist þér fyrst fyrir fimm árum þegar ég fluttist til Ólafsvíkur með foreldrum mínum og systkinum. Við bjuggum þar í rúmlega hálft ár á neðri hæðinni hjá þér, og þann tíma varst þú mér eins og sannkölluð amma, enda kallaði ég þig alltaf "Ingu ömmu". Þú hafðir svo gaman af að fá mig í heimsókn og ég hafði svo gaman af að koma til þín, enda áttirðu alltaf eitthvað gott í litla munna. Það var ansi oft að mamma var farin að leita að mér þegar ég áti að vera að leika mér úti, en þá hefði ég laumað mér upp á efri hæðina til þín, og sat þar í góðu yfirlæti. Og þó að þú ættir erfitt með að tala vegna lasleika þíns gekk mér vel að skilja þig. Það var mikill samgangur á milli hæða, enda varstu mikill vinur allra á heimilinu. Ég bið Guð að passa þig og hugsa vel um þig, elsku Inga amma mín, og mamma, pabbi og Páll, Sigrún, Doddi og Rakel Rósa biðja þess líka. Þakka þér fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur.

Með angurblíðri barnsins þrá

í bæn ég minnist þín.

Bið ljóssins Guð um lækning þá,

ljúfasta vina mín.

Þín vinkona,

Theodóra Sif.