Í SAMVINNU við Vinnueftirlit ríkisins, Iðntæknistofnun og Caterpillar stendur Hekla fyrir keppni þar sem leitað er að "vélamanni Íslands". Lýst er eftir tveimur vélamönnum til að keppa fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni vélamanna sem haldin verður á æfingasvæði Caterpillar í Malaga á Spáni vikuna 18.­25. október 1998.
Keppt um þátttöku í Evrópukeppni vélamanna

Í SAMVINNU við Vinnueftirlit ríkisins, Iðntæknistofnun og Caterpillar stendur Hekla fyrir keppni þar sem leitað er að "vélamanni Íslands". Lýst er eftir tveimur vélamönnum til að keppa fyrir Íslands hönd í Evrópukeppni vélamanna sem haldin verður á æfingasvæði Caterpillar í Malaga á Spáni vikuna 18.­25. október 1998.

Tilgangur keppninnar er að hvetja menn og konur til að ná sér í fullgild réttindi til þess að stjórna vinnuvélum ásamt því að auka öryggi og hæfni stjórnenda vélanna. Allir keppendur verða að hafa fullgild réttindi. Gert er ráð fyrir því að keppnin verði árleg.

Fyrirkomulagið er þannig að keppt verður í tveimur flokkum; á traktorsgröfu og beltagröfu. Keppt verður í malarnámunni í Bolöldu skammt fyrir neðan Litlu kaffistofuna. Keppnin hefst kl. 9 og sendur til kl. 15 í dag, laugardaginn 26. september.

Verðlaunin eru ferð fyrir sigurvegarana í hvorum flokki fyrir sig til Malaga á Spáni þar sem þeir keppa fyrir hönd Íslands í Evrópukeppni "vélamanna".