BISKUP Ísland, herra Karl Sigurbjörnsson, vígir þrjá guðfræðinga við guðsþjónustuna í Dómkirkjunni sunnudaginn 27. september kl. 11. Ragnheiður Jónsdóttir, cand. theol., verður sóknarprestur í Hofsósprestakalli, Skagafjarðarprófastsdæmi. Sr. Sigurpáll Óskarsson sóknarprestur hefur fengið lausn frá störfum fyrir aldurs sakir frá 1. október. Sigurður Grétar Sigurðsson, cand. theol.
Þrír guðfræðingar vígðir

BISKUP Ísland, herra Karl Sigurbjörnsson, vígir þrjá guðfræðinga við guðsþjónustuna í Dómkirkjunni sunnudaginn 27. september kl. 11.

Ragnheiður Jónsdóttir, cand. theol., verður sóknarprestur í Hofsósprestakalli, Skagafjarðarprófastsdæmi. Sr. Sigurpáll Óskarsson sóknarprestur hefur fengið lausn frá störfum fyrir aldurs sakir frá 1. október.

Sigurður Grétar Sigurðsson, cand. theol., verður sóknarprestur í Breiðabólsstaðarprestakalli, Hvammstanga, Húnavatnsprófastsdæmi. Sr. Kristján Björnsson, sóknarprestur hefur verið skipaður sóknarprestur í Vestmannaeyjaprestakalli, Kjalarnesprófastsdæmi, frá 1. september 1998.

Kristín Þórunn Tómasdóttir, cand. theol., verður héraðsprestur í Kjalarnesprófastsdæmi. Sr. Önundur Björnsson sem gegnt hefur því embætti að undanförnu hefur nú verið kjörinn sóknarprestur í Breiðabólsstaðaprestakalli, Rangárvallaprófastdæmi, og tók við því embætti 1. september sl.

Vígsluvottar verða sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur í Skagafjarðarprófastsdæmi, sr. Guðni Þór Ólafsson, prófastur í Húnavatnsprófastsdæmi, dr. Gunnar Kristjánsson, prófastur í Kjalarnesprófastsdæmi, sr. Pálmi Matthíasson, sóknarprestur í Bústaðaprestakalli sem lýsir vígslu og sr. Tómas Sveinsson, sóknarprestur í Háteigsprestakalli.

Sr. Hjalti Guðmundsson dómkirkjuprestur þjónar fyrir altari. Dómkórinn syngur undir stjórn Marteins H. Friðrikssonar dómorganista.

Þá hefur biskup skipað áfram sr. Helgu Soffíu Konráðsdóttur til að vera prestur í Háteigsprestakalli, Reykjavíkurprófastsdæmi vestra.