VIÐ hjónin fórum með Heimsferðum til Barcelona og Benidorm 12/8/1998 til þess að halda upp á 40 ára afmæli. Fjögurra tíma seinkun varð á flugi frá Keflavík ­ matur fluttur frá Spáni var fram borinn í flugvélinni.
Matareitrun Spánarfara Frá Þorgerði M. Kristiansen: VIÐ hjónin fórum með Heimsferðum til Barcelona og Benidorm 12/8/1998 til þess að halda upp á 40 ára afmæli. Fjögurra tíma seinkun varð á flugi frá Keflavík ­ matur fluttur frá Spáni var fram borinn í flugvélinni. Stærstur hluti farþeganna sem fóru úr vélinni í Barcelona varð fyrir matareitrun sem eyðilagði dvöl okkar í borginni ­ farþegarnir með fluginu til Barcelona þennan dag dreifðust á nokkur hótel þar í borg. Komið var á hótel í Barcelona um þrjúleytið um nóttina en strax daginn eftir fóru einkenni matareitrunar að koma í ljós og ágerðust síðan næsta dag. Farþegar urðu misveikir eins og títt er um matareitrun, en hluti farþeganna var veikur allan tímann í Barcelona (einnar viku dvöl) og sumir voru ennþá veikir er komið var heim. Við höfum farið fram á að Heimsferðir bæti okkur að nokkru leyti fjárhagslegt tjón og taki ábyrgð á matareitruninni, sem með engu móti verður rakin til annars en matarins sem borinn var fyrir okkur í flugvélinni. Spánskt flugfélag "Futura" er með leiguflug fyrir Heimsferðir. Heimsferðir vilja firra sig allri ábyrgð svo við óskum eftir því að þeir farþegar sem fóru með "Futura" á vegum Heimsferða þennan dag og urðu fyrir matareitrun hafi samband við okkur, svo unnt verði að að athuga réttarstöðu ferðalanganna sem heildar, þar sem ekki er hlustað á kvartanir einstaklinga. Við viljum biðja þá farþega sem við málið kannast að hafa samband við okkur ­ vinsamlegast sendið okkur bréfkorn með ykkar lýsingu á veikindum í ferðinni, ásamt nafni og símanúmeri svo við getum haft samband við ykkur um lögfræðilegt framhald málsins. Hálfur sigur væri unninn þótt ekki kæmu til neinar bætur ef okkur tekst að vara þá Íslendinga við, sem hyggja á ferðalög á vegum Heimsferða. Við getum allavega minnkað líkurnar á að fleiri Íslendingar þurfi að upplifa okkar hörmungarreynslu. Ekki neyta matarins sem framreiddur er í flugvélum Futura-flugfélagsins. Þið sem eruð á leiðinni til útlanda með Heimsferðum og lesið þetta bréf ­ takið með ykkur nesti!! ÞORGERÐUR M. KRISTIANSEN, Hringbraut 91, 107 Reykjavík.