BERGUR Felixson, framkvæmdastjóri Dagvistar barna, segir að þeir "minnispunktar" sem Tölvunefnd beindi til Dagvistar barna að yrði eytt úr skjölum stofnunarinnar hafi aldrei verið neitt gagn í málinu vegna uppsagnar Guðrúnar Maríu Óskarsdóttur, fyrrverandi starfsmanns leikskólans Laufásborgar.
Framkvæmdastjóri Dagvistar barna segir minnispunkta leikskólastjóra hafa farið í skjalasafn af vangá Voru aldrei neitt gagn

í málinu

BERGUR Felixson, framkvæmdastjóri Dagvistar barna, segir að þeir "minnispunktar" sem Tölvunefnd beindi til Dagvistar barna að yrði eytt úr skjölum stofnunarinnar hafi aldrei verið neitt gagn í málinu vegna uppsagnar Guðrúnar Maríu Óskarsdóttur, fyrrverandi starfsmanns leikskólans Laufásborgar. Minnispunktunum hafi verið eytt strax og þeir bárust honum í hendur í upphafi en hins vegar hafi afrit þeirra verið varðveitt af vangá í skjalasafni borgarinnar.

Bergur sagðist bera ábyrgð á þeim mistökum. Hann sagði að minnisblöð gengju gjarnan milli undirmanna og yfirmanna og hann kvaðst hafa beðið leikskólastjórann að taka saman "einhverja punkta um uppsögnina" og hefði hann fengið þessa minnispunkta. Bergur sagði að sér hefði strax fundist orka tvímælis að nota þá punkta í málinu. "Málið snerist um lögmæta eða ólögmæta uppsögn, ekki um neina persónu. Ég fékk ráðgjöf hjá lögfræðingi borgarinnar sem var mér alveg sammála. Þessir minnispunktar voru því ekki innlegg í málið og aldrei liður í neinni meðferð þess. Ég eyddi þeim strax í tætara," sagði Bergur.

Bárust í skjalasafn af vangá

Bergur sagði að afrit af minnispunktunum hefði hins vegar fyrir einhver mistök orðið eftir í skjalasafni starfsmannaskrifstofu borgarinnar. Það hefði hann ekki uppgötvað fyrr en hann fékk sendingu frá umboðsmanni Alþingis með þessum punktum eftir að umboðsmaður lauk umfjöllun um málið en umboðsmaður hafði fengið minnispunktana senda með öðrum gögnum borgarinnar eftir að kvörtun Guðrúnar Maríu barst honum.

Bergur segir rangt í frétt Morgunblaðsins í gær að umboðsmaður Alþingis hafi ekki tekið efnislega afstöðu til uppsagnarinnar. Niðurstaða umboðsmanns hafi verið sú að af gögnum málsins verði ekki ráðið að önnur sjónarmið en málefnaleg hafi legið til grundvallar ákvörðun um uppsögn Guðrúnar Maríu. Bergur sagðist því telja frétt Morgunblaðsins í gær ekki gefa rétta mynd af málinu.

"Við þóttumst gera vel við Guðrúnu Maríu með því að samþykkja að hún fengi bæði áunninn veikindarétt og uppsagnarfrest greiddan," sagði Bergur. "Ég var í góðri trú þegar ég sagði Guðrúnu Maríu að slíkir punktar væru ekki til því ég hafði eytt þeim og ég eyddi þeim í annað skipti eftir að við samþykktum að verða við tilmælum Tölvunefndar."

Bergur sagði að uppsögn Guðrúnar Maríu hefði átt rætur að rekja til samstarfsörðugleika við leikskólastjóra. Það hefði verið farið ofan í málið, m.a. á fundum með stéttarfélagi hennar, og hefði niðurstaðan verið sú að rétt hefði verið staðið að uppsögninni. Lögfræðiálit með sömu niðurstöðu lægi fyrir.