HÚSFYLLIR hefur verið á öllum tónleikum Norrænna músíkdaga sem lýkur í dag í Stokkhólmi og komust færri að en vildu, en það er alveg nýtt fyrirbrigði á þeirri hátíð, að sögn Kjartans Ólafssonar tónskálds sem þar er staddur ásamt fleiri félögum í Tónskáldafélagi Íslands.
NORRÆNIR MÚSÍKDAGAR Í STOKKHÓLMI

MIKILL ÁHUGI OG

MIKIL AÐSÓKN

HÚSFYLLIR hefur verið á öllum tónleikum Norrænna músíkdaga sem lýkur í dag í Stokkhólmi og komust færri að en vildu, en það er alveg nýtt fyrirbrigði á þeirri hátíð, að sögn Kjartans Ólafssonar tónskálds sem þar er staddur ásamt fleiri félögum í Tónskáldafélagi Íslands.

Á hátíðinni, sem hófst á mánudag, voru flutt verk eftir sjö íslensk tónskáld: In a magnetic field fyrir kammersveit eftir Snorra Sigfús Birgisson, Proud Music of the Storm eftir John Speight, Píanótríó eftir Áskel Másson, Mónetta fyrir fiðlu og píanó eftir Kjartan Ólafsson, Game fyrir tvær flautur eftir Karólínu Eiríksdóttur, Flecte Lapis fyrir Midi- píanó eftir Atla Ingólfsson og hljómsveitarverkið Bells of Earth eftir Þorstein Hauksson. Þá var Mist Þorkelsdóttur boðið sérstaklega til hátíðarinnar en sá háttur hefur verið hafður á að bjóða þangað tónskáldum af yngri kynslóðinni frá allri Evrópu.

Kjartan segir að mikill áhugi og mikil stemmning sé fyrir Norrænum músíkdögum að þessu sinni og hátíðin sé sérlega vel skipulögð hjá Svíum. Hugsanlega megi rekja aukinn almennan áhuga og aðsókn til þess að Stokkhómur er nú menningarborg Evrópu. "Á hátíðinni hefur oft verið leikin hálfgerð utangarðstónlist fyrir einhverja sérhópa tónlistarmanna en í dag virðist hópur áheyrenda vera mjög breiður, alveg frá unglingum og upp úr og það er skemmtileg nýbreytni," segir hann. Annað sem hefur komið þægilega á óvart á hátíðinni er skyndileg haustblíða eftir kalt sumar í Svíþjóð. "Hingað mættu allir með vetrarföt og skíðaúlpur en nú er sólskin og yfir tuttugu stiga hiti," segir Kjartan.