VIÐSKIPTI á Netinu eru enn að slíta barnsskónum, en það er helst að bóka- og plötusala hafi gengið vel. Netbókabúðir vestanhafs hafa háð harða rimmu undanfarið og glímt um sístækkandi markað og einnig er harður slagur hjá Netplötubúðum. Nýjasta útspil þeirra er að selja plötur á Netinu.
Plötur á Neti VIÐSKIPTI á Netinu eru enn að slíta barnsskónum, en það er helst að bóka- og plötusala hafi gengið vel. Netbókabúðir vestanhafs hafa háð harða rimmu undanfarið og glímt um sístækkandi markað og einnig er harður slagur hjá Netplötubúðum. Nýjasta útspil þeirra er að selja plötur á Netinu. Rekstur Netbókabúða hefur verið í járnum, en heldur betur hefur gengið í plötunum. Fyrsta eiginlega plötubúðin á netinu er CDConnection, www.cdconnection.com, sem var á sínum tíma telnet-verslun, en færði sig inn á vefinn þegar hann var opnaður fyrir alla. Helsta plötubúð á Netinu í dag er aftur á móti Cdnow, www.cdnow.com, sem er í eigu Tower-plötuverslanakeðjunnar. Cdnow hefur nú sett upp útibú í Evrópu, Cdnow Europe, þaðan sem plötur verða sendar til kúnna í Evrópu. Með þessu móti nær fyrirtækið að lækka sendingarkostnað og auka hraðann á afgreiðslunni, því víða í Evrópu fá viðskiptavinirnir plötuna daginn eftir að þeir kaupa hana. Að sögn blaðafulltrúa Tower er uppsetning dreifingarútibús í Evrópu aðeins liður í þeirri stefnu fyrirtækisins að reka Netplötubúð á sex tungumálum, með 160 mismunandi gjaldmiðla og alþjóðlega drefingu frá fjörutíu stöðum í heiminum. Segja má að Cdnow hafi komist með aðra löppina inn á Evrópumarkað þegar það gerði samning við leitarvélina vinsælu Lycos um að vera getið á heimasíðu leitarvélarinnar, sem er með þeim vinsælustu á Netinu. Á móti kemur að Lycos er í eigu Bertelmann-samsteypunnar sem einnig á útgáfuna BMG og hyggur sjálft að koma sér upp plötubúð á Netinu þegar fram líða stundir. Verslun á fimm tungumálum Helsti keppinautur Cdnow er Music Boulevard, www.musicblvd.com, sem hefur þegar komið sér upp dreifingaraðstöðu í Hollandi og rekur verslun á fimm tungumálum. Á heimaslóð N2K, fyrirtækisins sem á Music Boulevard, kemur fram að fyrirtækið líti ekki síst til þess að sáralítill aukakostnaður sé því samfara að hafa heimasíður á fleiri en einu tungumáli og skipa um eftir léni gestsins, aukinheldur sem Evrópumarkaður sé spennandi fyrir það að um þriðjungur af sölu á plötum sé þar. N2K-menn virðast framsýnni en Cdnow-liðar, því Music Boulevard hefur þegar komið sér vel fyrir í Japan, sem er einnig gríðarlega stór markaður. Þó plötu- og bóksala hafi gengið hvað best á Netinu er það ekki með rífandi gróða; allt frá því Amazon Netbókabúðin, www.amazon.com, var stofnuð hefur verið tap á rekstrinum, en svo mikla trú hafa menn á að verslunin sé á réttri leið að markaðsvirði þess er margfalt meira en svo að það eigi eftir að standa undir því. Amazon opnaði fyrir skemmstu plötudeild á vefsíðu sinni og býður þar mikið úrval af plötum, flestar á niðursettu verði. Amazon nýtur góðs af því hversu nafn verslunarinnar er þekkt í Netheimum og þannig hefur það náð samningum við margar vinsælustu vefslóðir Netheima, til að mynda Yahoo!, Excite, AOL.com, Geocities og Netscape, um pláss á heimasíðum þeirra. Þetta gefur fyrirtækinu eðlilega nokkurt forskot, en markhópur þess er nokkuð annar en hefðbundinnar plötubúðar; Amazon hyggst greinilega höfða til eldri kaupenda, fólks á þrítugs- og fertugsaldri, og sér sér væntanlega leik á borði vegna þess að flestir Netnotendur eru á þeim aldri þó flestir plötukaupendur séu um og innan við tvítugt í mannheimum. Af þessu má ráða að miklar sviptingar eru framundan í plötusölu á næstu árum og hægt að spá því að stór hluti plötusölu eigi eftir að færast inn á Netið innan fárra ára, ekki síður en bóksala. Hvort það á eftir að verða með því móti að menn sæki söng inn á tölvur sínar og brenni eigin diska er svo annað mál.