EKKI hefur heyrst hátt um Hafnarfjarðarmálin uppá síðkastið sem betur fer, enda voru margir orðnir leiðir á hafnfirskri pólitík fyrir löngu. Meira að segja fréttamenn gátu ekki minnst á Hafnarfjarðarmálin án þess að brosa út í annað.
Ertu þarna ennþá, Ingvar minn? Menn eiga að veljast til forystu, segir Ólafur Sigurðsson , sem trúverðugastir eru til að fylgja eftir þeirri stefnu sem félagsmenn hafa ákveðið.

EKKI hefur heyrst hátt um Hafnarfjarðarmálin uppá síðkastið sem betur fer, enda voru margir orðnir leiðir á hafnfirskri pólitík fyrir löngu. Meira að segja fréttamenn gátu ekki minnst á Hafnarfjarðarmálin án þess að brosa út í annað. Það gerðist þó sem flestir vissu, að Alþýðuflokkurinn í Hafnarfirði tapaði á samstarfi við umdeilda sjálfstæðismenn, sem jafnvel Sjálfstæðisflokkurinn vildi ekki gangast við. Reyndar var þetta ekki bara tap hjá Ingvari bæjarstjóra, þetta var "burst" eins og sagt er í handboltanum, krötunum var einfaldlega rústað í síðustu bæjarstjórnarkosningum. Af sex manna meirihluta þegar Ingvar tekur við, eru nú eftir aðeins þrír bæjarfulltrúar krata og það naumlega! Nei, Alþýðuflokkurinn fékk engan sex manna meirihluta eins og forystan lofaði, heldur fékk Sjálfstæðisflokkurinn verðskuldaðan meirihluta með Framsókn, sem kom loks manni að. Og enn situr Ingvar sem forystumaður Alþýðuflokksins í Hafnarfirði. Þessi niðurstaða kosninganna ein og sér hefði átt að verða til þess að formaður flokksins segði af sér. Þeir vita það sem vilja hér í bæ að Ingvar klúðraði ekki bara stöðu Alþýðuflokksins í Hafnarfirði, heldur hélt umdeilt meirihlutasamstarf hans við sjálfstæðismennina Jóhann Gunnar Bergþórsson og Ellert Borgar góðu lífi í þeirri umræðu að Alþýðuflokkurinn væri spilltur og að einstaklingar sem þar kæmust áfram noti hvert tækifæri til að koma sér og sínum að. Þannig hefur Jafnaðarmannaflokkur Íslands í heild liðið fyrir neikvæða umræðu um þessi mál. Þetta er mjög slæmt fyrir almenna félaga, því það er mikið af duglegu og kláru fólki sem enn hefur þá hugsjón að útrýma fátækt og eymd þeirra sem minna mega sín. Þetta er stefna Jafnaðarstefnunnar sem við mörg trúum enn á. Á síðasta þingi Alþýðuflokksins var ákveðið að vinna að sameiningarmálum um land allt. Slíkt gerist ekki farsællega, nema virkja grasrótina og skapa stemmningu um málið meðal flokksmanna. Nema hvað! Hafnarfjörður var eina bæjarfélagið þar sem ekki tókst að skapa samstöðu milli A-flokkana ­ þrátt fyrir yfirgnæfandi vilja félagsmanna! Nú í haust fer félagsstarfið í gang í flestum flokkum og félagasamtökum. Þá er mikilvægt að virkja meðlimina. Nógu erfitt er að fá fólk á fundi, hvað þá þegar leiðtoginn er umdeildur og hefur af skammsýni stórskaðað eigin flokk og allt flokksstarf, að ekki sé minnst á bæjarmálin. Hafa ómældar fjárhæðir farið í vonlausar bæjarábyrgðir, jafnvel til fyrirtækja einstakra bæjarfulltrúa! Hefði fé þetta betur farið í einsetningu skólanna hér í bæ. Því víkja svona menn ekki? Það gerði þó Árni Sigfússon í Reykjavík af minna tilefni. Sem stendur er umræða og gagnrýni á þessi mál í lágmarki innan flokksins. Menn eiga að veljast til forystu, sem trúverðugastir eru til að fylgja eftir þeirri stefnu sem félagsmenn hafa ákveðið. Forystumenn eignast ekki flokkinn sinn, nema þá kannski tímabundið með bitlingum og sporslum. Slíkur flokkur líður þó fljótt undir lok. Einstök félög Alþýðuflokksins hljóta nú að hugsa sinn gang í þeirri sameiningarumræðu sem á sér stað. Hverjum eiga félögin að nýtast, einstaklingum eða stefnunni? Menn þurfa að gera upp við sig hvers konar jafnaðarmenn þeir ætla að vera eða hvort þeir eigi einfaldlega ekki betur heima í öðrum flokkum. Því fyrr sem menn átta sig á þessu, því betur mun samstarf félagshyggjufólks ganga fyrir sig.

Höfundur er félagi í Alþýðuflokknum í Hafnarfirði. Ólafur Sigurðsson