ALVARLEGAR athugasemdir eru gerðar við málflutning starfsmanna Umferðarráðs í bréfi til Morgunblaðsins 17. september síðastliðinn. Þar fullyrðir Guðvarður Jónsson að um síðustu verslunarmannahelgi hafi starfsmenn Umferðarráðs hvatt til hraðaksturs í umferðinni í útsendingum Útvarps Umferðarráðs.
Fórnum ekki lífi fyrir hraðann

Svar frá Umferðarráði

Frá Sigurði Helgasyni:

ALVARLEGAR athugasemdir eru gerðar við málflutning starfsmanna Umferðarráðs í bréfi til Morgunblaðsins 17. september síðastliðinn. Þar fullyrðir Guðvarður Jónsson að um síðustu verslunarmannahelgi hafi starfsmenn Umferðarráðs hvatt til hraðaksturs í umferðinni í útsendingum Útvarps Umferðarráðs. Í áranna rás höfum við sem önnumst upplýsingamiðlun fyrir Umferðarráð verið sökuð um flest annað en að hvetja til hraðaksturs. Við, eins og flestir Íslendingar, vitum hvaða hættur fylgja honum.

Í bréfi sínu fullyrðir Guðvarður að Umferðarráð hafi hvatt ökumenn til að fylgja 110 til 120 km hraða. Ekki vitum við hvar hann hefur heyrt slíkar ábendingar, því aldrei hafa þær komið frá okkur.

Meginboðskapur okkar varðandi ökuhraða er, að allir eigi að virða reglur um hámarkshraða og að miða ávallt hraða við aðstæður. Við höfum líka stundum sagt að þeir ökumenn sem aki lengst frá meðalhraða, sérstaklega þeir sem aka mun hraðar en lög leyfa og einnig þeir sem aka mun hægar en meginumferðarstraumurinn er, séu hættulegastir í umferðinni. Hins vegar teljum við að þeir sem kjósa að aka hægar hafi til þess fullan rétt, en hvetjum þá hins vegar til að sýna öðrum ökumönnum tillitssemi með því að hleypa öðrum fram úr hvar sem aðstæður eru fyrir hendi. Með því móti minnkar hætta á hættulegum framúrakstri, sem er sérstaklega viðsjárverður um miklar umferðarhelgar, eins og verslunarmannahelgar. Það var samdóma álit lögreglumanna um síðustu verslunarmannahelgi að hraði hafi verið minni en oftast áður, með einni undantekningu þó, en það var ökuhraði sumra þeirra sem leið áttu um Holtavörðuheiði. Á það minntumst við ítrekað í Útvarpi Umferðarráðs.

Að saka starfsmenn Umferðrráðs um að hvetja til hraðaksturs er mjög alvarlegur misskilningur og mistúlkun á skilaboðum þeirra. Þeir vita flestum betur hverjar afleiðingar hraðakstur hefur í för með sér og munu aldrei hvetja til hans eða verja hann. Markmið Umferðarráðs er að auka öryggi í umferðinni og að því er unnið af heilum hug. Alvarleg umferðarslys á undanförnum mánuðum eru okkur mikið áhyggjuefni og hafa meðal annars leitt til þess að vegfarendum hafa verið send skilaboð um að draga úr hraða og minnka þar með líkur á að fólk láti lífið á vegum landsins.

Guðvarði, sem greinilega er liðsmaður aukins öryggis í umferðinni, þökkum við hins vegar fyrir að vekja máls á því að margir virða ekki reglur um hámarkshraða. Hann er, þrátt fyrir að hafa misskilið starfsmenn Umferðarráðs heiftarlega um verslunarmannahelgina, miklu meiri samherji okkar heldur en fram kemur í skrifum í Morgunblaðinu í dag. Honum og öllum talsmönnum hóflegs ökuhraða sendum við baráttukveðjur. Förum mað lögum!

SIGURÐUR HELGASON,

upplýsingafulltrúi Umferðarráðs.