INGIBJÖRG Pálmadóttir heilbrigðisráðherra hefur beðið Morgunblaðið að birta eftirfarandi athugasemd: "Guðmundur Björnsson, formaður Læknafélags Íslands, hélt því fram í fréttum Fréttastofu útvarpsins, að lífsýnafrumvarp, sem verið er að semja í heilbrigðisráðuneytinu, sé unnið "í skjóli myrkurs og þeim aðilum sem að til þess eru bærir, hagsmunaaðilum,
Athugasemd heilbrigðisráðherra

INGIBJÖRG Pálmadóttir heilbrigðisráðherra hefur beðið Morgunblaðið að birta eftirfarandi athugasemd:

"Guðmundur Björnsson, formaður Læknafélags Íslands, hélt því fram í fréttum Fréttastofu útvarpsins, að lífsýnafrumvarp, sem verið er að semja í heilbrigðisráðuneytinu, sé unnið "í skjóli myrkurs og þeim aðilum sem að til þess eru bærir, hagsmunaaðilum, að fjalla um þetta og gefa sérfræðiumsagnir að þeir hafa ekki fengið að gera það á formlegan hátt", eins og formaður lækna orðaði það.

Þetta er rangt og í tilefni orða Guðmundar Björnssonar tekur Ingibjörg Pálmadóttir heilbrigðisráðherra fram:

1. Lífsýnafrumvarpið hefur verið í undirbúningi í heilbrigðisráðuneytinu frá árinu 1997.

2. Tugir sérfræðinga hafa tekið þátt í gerð frumvarps á undirbúningsstigi, læknar, sérfræðingar á þessu sviði, sérfræðingar ráðuneytisins, forsvarsmenn lífsýnasafna og aðrir þeir sem hafa sérþekkingu á málinu.

3. Guðmundur Björnsson, formaður Læknafélags Íslands, og Jón Snædal, varaformaður sama félags, hafa verið kallaðir til vegna undirbúnings málsins.

4. Heilbrigðisráðuneytið er þeirrar skoðunar að þeir sem hafa tekið þátt í gerð frumvarpsins séu fyllilega bærir til að undirbúa málið til meðferðar á Alþingi.

Guðmundur Björnsson, formaður Læknafélags Íslands, segir um vandaða afgreiðslu heilbrigðisráðuneytisins: "Okkur finnst þetta eins og í Villta vestrinu, það er skotið fyrst og spurt svo."

Þessi orð dæma sig sjálf, en hverjir ætli þessir við séum? Er það stjórn Læknafélagsins?"