GUNNAR Ingi Gunnarsson, læknir og fyrrverandi formaður Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur, hefur sagt sig úr Alþýðuflokknum. Gunnar segir að hann geti ekki sætt sig við stefnu sameiginlegs framboðs félagshyggjuflokkanna í utanríkismálum, sérstaklega hvað varðar afstöðuna til varnarliðsins og aðildar að NATÓ. Hann segist vera að íhuga að ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn.
Gunnar Ingi Gunnarsson, fyrrverandi formaður

Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur

Segir sig úr Alþýðuflokknum

GUNNAR Ingi Gunnarsson, læknir og fyrrverandi formaður Alþýðuflokksfélags Reykjavíkur, hefur sagt sig úr Alþýðuflokknum. Gunnar segir að hann geti ekki sætt sig við stefnu sameiginlegs framboðs félagshyggjuflokkanna í utanríkismálum, sérstaklega hvað varðar afstöðuna til varnarliðsins og aðildar að NATÓ. Hann segist vera að íhuga að ganga til liðs við Frjálslynda flokkinn.

"Ég sé það í hendi mér að stefna þessarar samfylkingar í utanríkismálum og Evrópumálum er þannig að ég get ekki með nokkru móti verið þar með. Mér finnst þess vegna eðlilegast að láta strax vita af því og ákvað að segja mig úr flokknum þó það væri ekki til annars en að vekja athygli á því sem mér finnst þarna vera að gerast. Ég hef verið í sambandi við fleiri alþýðuflokksmenn og það eru allmargir afskaplega óánægðir með þennan þátt og mönnum finnst að það sé afskaplega mikið klúður hvernig að þessu hefur verið staðið. Menn virðast hafa farið fram á völlinn með ófrágengin plögg og ekki getað útskýrt hvað þeir voru að tala um," sagði Gunnar Ingi.

Utanríkisstefna byggð á sorta fortíðarinnar

Gunnar Ingi sagðist hafa gengið í Alþýðuflokkinn vegna þess að hann hefði séð í stefnu flokksins evrópska jafnaðarmennsku þar sem frjálslyndi og framsækni væru í öndvegi. Hann sagðist telja fráleitt annað en að Ísland eigi að vera virkur þátttakandi í NATÓ og eðlilegt væri að veita bandalaginu aðstöðu hér á landi. Gunnar Ingi sagðist ennfremur vera óánægður með að samfylkingin ætlaði að stíga á bremsurnar varðandi aðild Íslands að ESB.

Gunnar Ingi sagðist hafa gert sér grein fyrir að þetta sameiginlega framboð kallaði á að flokkarnir þyrftu að gefa eftir í einstökum málum, en fyrir öllu væru takmörk. Þegar utanríkisstefnan væri grundvölluð á kalda stríðs slagorðum úr sorta fortíðarinnar þá gæti hann ekki verið með.