"ÉG VAR búinn að prófa nokkra stráka í hlutverkið án þess að finna þann rétta. Ég skrifaði hlutverkið með ákveðna persónu í huga, hann átti að vera vingjarnlegur án þess að vera þessi dæmigerði strákur með derhúfu og gleraugu," segir Haukur frá.
Ný íslensk barnamynd í Sjónvarpinu

Beggi

sigurvegari

Að baka vandræði heitir stutt barnamynd eftir Hauk Hauksson, en hann hitti Jason Egilsson á flugvellinum í Barcelona og bauð honum aðalhlutverkið. Hildur Loftsdóttir spjallaði við leikstjórann.

"ÉG VAR búinn að prófa nokkra stráka í hlutverkið án þess að finna þann rétta. Ég skrifaði hlutverkið með ákveðna persónu í huga, hann átti að vera vingjarnlegur án þess að vera þessi dæmigerði strákur með derhúfu og gleraugu," segir Haukur frá. "Persónusköpunin byggist mikið á útliti og hegðun því myndin er bara fimmtán mínútur og það gefst ekki tími til að skapa persónu sem áhorfandinn nær tilfinningalegu sambandi við. Svo þurfti líka að líta á hagkvæmu hliðarnar; að finna dreng sem hefur þolinmæði í vinnu sem tekur átta tíma á dag og stundum klukkustundir í bið. Þessar kröfur sem kvikmyndagerð gerir til leikara stóðst Jason fullkomlega."

Menningarskipti fyrir börn

Ár hvert auglýsir Sjónvarpið eftir hugmynd að stuttri leikinni barnamynd sem það síðan framleiðir. Barnamyndin tekur þátt í skiptum á leiknu efni sem EBU "European Broadcasting Union" stendur fyrir. Hver þjóð fær í skiptum fyrir sína mynd sýningarréttinn að þrettán svipuðum barnamyndum frá öðrum Evrópulöndum.

"Mér finnst hugmyndin að þessum menningarskiptum góð því hún gefur börnum víða í Evrópu tækifæri til að rýna inn í heim barna í öðrum löndum. Gæðastjórn af hálfu EBU leggur vissar línur þar sem þulur skipar stóran sess í frásögn, svo auðveldlega sé hægt að skipta yfir á annað tungumál. Persónurnar eiga að vera skemmtilegar og myndin verður að bera einkenni síns lands og sinnar menningar að einhverju leyti. Sögupersónan á að vera um átta ára og verður að vera góð. Svo má enginn sjást reykja í myndinni, og það eru fleiri frekar uppeldislegar reglur sem maður verður að fara eftir, misgáfulegar að vísu."

Í myndinni leikur Jason níu ára strák sem heitir Beggi. Afi hans er bakarinn Lúðvík og Begga finnst langskemmtilegast að fara til hans í bakaríið að baka brauð. Þennan dag segir afi Begga frá að hann ætli að trúlofast Lovísu, kærustunni sinni, þá um kvöldið. Afi sýnir Begga trúlofunarhringinn en fyrir klaufaskap Jónasar sendils dettur hringurinn ofan í hrærivélina og týnist í stóra deiginu. Beggi verður að bjarga þeim út úr þeim vandræðum og lendir í ýmsum ævintýrum við það.

Börn eru skynsöm

Haukur lærði í Toronto í Kanada, hlaut B.A.A. gráðu; "Bachelor of Applicated Arts" í upptökustjórn og vann svo í eitt ár við að kenna klippingar í skólanum.

"Þetta er í fyrsta skipti sem ég geri sjónvarpsmynd, en það var eðlilegur hlutur af náminu að leikstýra stuttmyndum bæði eftir eigin handriti og eftir samnemendur. Þetta er hins vegar fyrsta barnamyndin sem ég skrifa og leikstýri og mér finnst það mjög spennandi. Það er gaman að setja sig inn í heim barnanna; hvað þeim finnst fyndið eða skemmtilegt og reyna að standast þær miklu kröfur sem þau gera til sjónvarpsefnis. Ég reyndi að setja mig inn í tilfinningar eins og öfundsýki, væntumþykju, við hvaða aðstæður og hvernig þau finna þær og hvernig þau bregðast svo við. Þetta er samt frekar grínmynd en tilfinningarík. Ég hafði að leiðarljósi að myndin yrði skemmtileg. Jónas sendill, sem Stefán Karl Stefánsson leikur, er persóna í anda Mr. Bean. Gæðastjóranum fannst hann reyndar ekki svo sniðugur því hann er alltaf að gera heimskulega hluti sem má ekki, það væri nú ekki góð fyrirmynd fyrir börnin. Ég hef nú reyndar meiri trú á skynsemi barnanna, að þau sjái að Beggi er sá sem breytir rétt, enda stendur hann uppi sem sigurvegari myndarinnar.

Morgunblaðið/Kristinn HAUKUR Hauksson er að leggja seinustu hönd á sjónvarpsmyndina Að baka vandræði .

Ljósmyndir/Arnar Þór Þórisson STEFÁN Karl Stefánsson, Bessi Bjarnason, Jason Egilsson og Guðrún Ásmundsdóttir sem leikur Lovísu.

"MIG grunaði aldrei að ég ætti eftir að leika í kvikmynd, en mig hafði oft langað til þess," segir Jason um þessa skemmtilegu reynslu. "Ég fékk svolítið áfall þegar ég vissi að ég hefði fengið hlutverkið, en var búinn að jafna mig daginn eftir."

"STEFÁN Karl er svo fyndinn að ég átti erfitt með að halda niðri í mér hlátrinum í upptökum," segir Jason um meðleikara sinn.