EIN AF meginforsendum fyrir þróun byggingaiðnaðarins til arðvænlegs gæðaiðnaðar er sterk Rannsóknarstofnun hans. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld að viðurkenna mikilvægi atvinnugreinarinnar í verki. Þetta segir m.a. í leiðara Tækni-Púlsins. 50 milljarðar
»Byggingarannsóknir EIN AF meginforsendum fyrir þróun byggingaiðnaðarins til arðvænlegs gæðaiðnaðar er sterk Rannsóknarstofnun hans. Til að svo megi verða þurfa stjórnvöld að viðurkenna mikilvægi atvinnugreinarinnar í verki. Þetta segir m.a. í leiðara Tækni-Púlsins.

50 milljarðar

Í LEIÐARA Tækni-Púlsins, sem er fréttablað Iðntæknistofnunar og Rannsóknarstofnunar byggingariðnaðarins, segir m.a.:

"Þegar hafðar eru í huga hinar stóru hagstærðir í byggingariðnaði, þ.e.a.s. 50 milljarða árleg fjármunamyndun, yfir 60% af allri fjárfestingu í landinu og hin miklu áhrif þeirra á kjör fólks, er ekki undarlegt að byggingariðnaður sé íhaldssamur og að snöggar breytingar séu fáar.

Nýjungar geta skilað miklum arði til einstaklinga og þjóðarbúsins en þær geta líka valdið verulegu tapi ef væntingar ganga ekki eftir. Íhaldssemi í byggingariðnaði er víðast fyrir hendi. Þannig eru góðu gömlu byggingaraðferðirnar enn mest áberandi í flestum löndum hvort sem byggingarhefðin felst í hlöðnum múrsteinshúsum, timburhúsum eða steyptum húsum. Nauðsynlegt er að nýjungar styðjist við fullnægjandi rannsókna- og þróunarvinnu en séu ekki byggðar á röngum forsendum."

Gæðaiðnaður

"SAMTÖK iðnaðarins birtu nýlega framtíðarsýn sína varðandi íslenskan byggingariðnað. Þar kemur fram framsækin stefna sem tekur á öllum helstu vandamálum byggingariðnaðarins og þróun hans í átt til viðurkennds arðvænlegs gæðaiðnaðar fyrir árið 2005. Ekki er hér um óraunhæfa óskhyggju að ræða heldur raunhæf markmið þar sem ein af meginforsendunum fyrir árangri er sterk Rannsóknastofnun byggingariðnaðarins. Til þess að svo megi verða þurfa stjórnvöld þó að viðurkenna í verki mikilvægi þessarar atvinnugreinar, m.a. með því að linna stöðugum niðurskurði fjárveitinga til rannsókna og þróunarstarfsemi og lyfta undir byggingariðnað til jafns við annan iðnað, s.s. fiskiðnað og almennan iðnað. Sérstaða byggingariðnaðarins er sú að hann býr við allstóran heimamarkað, en það ætti að styrkja möguleika á árangri í þróunarstarfsemi og minnka áhættu."