Arabíska er feimið tungumál nefnist viðtal eftir Einar Örn Gunnarsson rithöfund við íraska skáldið Sargon Boulus (Mbl. 20. sept. sl.). Margt athyglisvert kemur fram í þessu viðtali. Meðal þess sem Boulus hefur að segja er þetta: "Að nokkru leyti má segja að ljóðagerð og þýðingar mínar hafi verið erfið, ströng og vanþakklát vinna.
Bjánarnir hálfgerðu

"Eftir að hafa skrifað í 30 ár er ekki laust við að ég verði pirraður á því að sjá hvernig hálfgerðir bjánar virðast vera að ná undirtökunum í heiminum."

Sargon Boulus



Arabíska er feimið tungumál nefnist viðtal eftir Einar Örn Gunnarsson rithöfund við íraska skáldið Sargon Boulus (Mbl. 20. sept. sl.). Margt athyglisvert kemur fram í þessu viðtali.

Meðal þess sem Boulus hefur að segja er þetta:

"Að nokkru leyti má segja að ljóðagerð og þýðingar mínar hafi verið erfið, ströng og vanþakklát vinna. Eftir að hafa skrifað í 30 ár er ekki laust við að ég verði pirraður á því að sjá hvernig hálfgerðir bjánar virðast vera að ná undirtökunum í heiminum. Þar á ég við menn sem eiga milljarða og lifa munaðarlífi. Öll dagblöð og tímarit eru undir þeirra stjórn. Á sama tíma sitja skáldin og vinna hörðum höndum að framgangi tungumálsins. Að velja sér að vera skáld af einlægni er einhver heiðarlegasta köllun sem hægt er að þjóna í lífinu."

Vera má að Sargon Boulus taki of djúpt í árinni, en auðvelt er að vera sammála honum að einhverju leyti. Kannski þurfum við ekki að óttast þessa "bjána" hér heima. Og þó.

Þeir sem stjórna dagblöðum og tímaritum virðast oft ofurseldir markaðnum. Við sjáum daglega hve ýmiss konar lágmenning verður æ fyrirferðarmeiri í fjölmiðlum. En það hlýtur að vera þörf fyrir hana eins og hámenninguna.

Dæmi um lágmenningarlega blaðaútgáfu og stundum lágkúruleg vinnubrögð er kálfurinn fókus sem fylgir DV á föstudögum. Það er ekki bara að uppsetning, skreytingar og efnismeðferð sé í anda verslunarsamfélagsins heldur virðist hafa verið kappkostað að ráða skriffinna, stundum nafnlausa, sem kunnir eru fyrir æsileg skrif og auðvelt er að "selja". Það eru ekki bara knattspyrnumenn sem eru seldir! Einn eða tvo beinskeytta penna blaðsins undanskil ég, einkum þá sem búa yfir húmor, hvítum og svörtum.

Líklega má segja það fókusi til varnar að hann virðist vera nær eina blaðið sem skrifað er á krá og oft undir áhrifum þótt greinarnar séu ekki allar margra glasa virði. Slíkt blað hlýtur að eiga rétt á sér?

Allt þarf að selja og menninguna líka. Ég hef ekkert á móti því að hægt sé að "matreiða" efni á nýjan hátt og jafnvel óvæntan en helst þarf það að vera einhvers virði. Gömlu blöðin eru vitanlega óttalega gamaldags. Fréttir og myndir úr næturlífinu, fjallaklifur, ökugleði og barnsleg undrun yfir möguleikum Netsins girða ekki fyrir það.

Skáldið Sargon Boulus skýrði það hvers vegna arabíska sé feimið tungumál "því það samþykkir ekki erótísk orð og er því erfitt að finna til að mynda hentug orð yfir kynfæri. Ég hef reynt að vinna frjálslega með tungumálið og í stað þess að nefna hluti berum orðum gef ég þá í skyn þannig að merkingin kemst til skila."

Feimni í málnotkun er vissulega böl eins og dæmin sanna, orðfælni getur valdið því að til dæmis rithöfundar leggi niður skrif. Stundum óskar maður þó að slíkt komi yfir þá, að ekki sé talað um ýmsa útvarps- og blaðamenn, einkum þá sem hafa gerst sérfræðingar í því að teygja lopann.

Mér kom aftur á móti yfirlýsingin um feimnina nokkuð á óvart því að ég veit að bæði fyrr og síðar hafa arabísk skáld ort mikið um ástina og reyndar verið talin í fararbroddi á því sviði. En ég áttaði mig fljótlega þegar ég las um vanda íraska skáldsins sem var að þýða Allen Ginsberg á arabísku. Ginsberg er dæmi um höfund sem tók lágmenninguna í sína þjónustu með góðum árangri. Hann þurfti að nefna hlutina réttum nöfnum og hefði áreiðanlega ekki getað hugsað sér að styðjast eingöngu við orðskrúð arabískunnar, tákn hennar og myndir. Boulus segist hafa gripið til þess ráðs þegar hann var að þýða Ginsberg að endurskapa "beat-tungumálið" úr ensku yfir á arabísku, en til þess þurfti hann m.a. "að finna nýja hrynjandi og framsetningu". Hann þurfti líka að skapa ný orð.

Vandi íraska skáldsins er líka vandi annarra þýðenda. Það er til dæmis ekki svo auðvelt að koma Ginsberg yfir á íslensku þannig að hann hljómi eðlilega. Það hefur þó verið reynt.

"Bjánarnir" í heimalandi arabíska skáldsins létu það bíða í tíu ár eftir að fá birt Howl eða Ýlfur Ginsbergs í þýðingu.

Ginsberg kom út á neðanjarðarforlögum í Bandaríkjunum í fyrstu. Það uppgötvaðist samt fljótlega að hægt var að "selja" hann, ekki síst vegna þess að hann var samkynhneigður og leyndi því ekki, hneykslunarhella sem afklæddist stundum undir lestri ljóða sinna og neytti eiturlyfja. Hann var tilbúinn að rífa kjaft á öllum hugsanlegum tímum. Þetta mátti "selja" og "bjánarnir" sáu sér hag í því. Hin hliðin á málinu er svo sú að Ginsberg var ágætt skáld og áreiðanlega sammála Sargon Boulus um það hverjir hafi undirtökin í heiminum og hvað eigi að kalla þá.

Nýlega heyrði ég víðkunnan og margsigldan íslenskan rithöfund fara lofsamlegum orðum í útvarpi um vikublaðið Séð og heyrt. Þessi rithöfundur hefur greinilega ánetjast lágmenningunni að einhverju leyti, en vill hafa hámenningu til spari. (Rithöfundurinn hlakkaði mikið til væntanlegrar bókar um Jónas Hallgrímsson). Kannski er þetta gullna leiðin? Eða hitt að sprauta hámenningu inn í lágmenninguna? Hið gagnstæða virðist ganga furðu vel og ekki skortir "hálfgerða bjána" því til fulltingis.

Bjánarnir stjórna með glæsibrag!

VIÐHORF Eftir Jóhann Hjálmarsson