VERSLUN erlendra ferðamanna á Íslandi jókst um 28,3% fyrstu átta mánuði þessa árs, frá sama tímabili á síðasta ári. Er þá miðað við aukningu í endurgreiðslu virðisaukaskatts til útlendinga hjá Global Refund á Íslandi hf. Heildarsala á vörum sem virðisaukaskattur er endurgreiddur af til útlendinga nam liðlega 160 milljónum kr. í ágúst og hafði aukist um 30,3%, miðað við ágúst í fyrra.
Endurgreiðsla virðisaukaskatts til útlendinga Innkaup ferðamanna aukast um 28% milli ára

VERSLUN erlendra ferðamanna á Íslandi jókst um 28,3% fyrstu átta mánuði þessa árs, frá sama tímabili á síðasta ári. Er þá miðað við aukningu í endurgreiðslu virðisaukaskatts til útlendinga hjá Global Refund á Íslandi hf.

Heildarsala á vörum sem virðisaukaskattur er endurgreiddur af til útlendinga nam liðlega 160 milljónum kr. í ágúst og hafði aukist um 30,3%, miðað við ágúst í fyrra. Svipuð aukning var einnig í júlí. Fyrstu átta mánuði ársins nam vörusala til útlendinga, samkvæmt þessum endurgreiðslum, 517 milljónum kr.

Ullarvörur seljast best og nema liðlega 55% sölunnar það sem af er árinu. Hins vegar hefur orðið mikil aukning í sölu fatnaðar, ekki síst kvenfatnaðar en sala á honum hefur nærri tvöfaldast á milli ára. Bandaríkjamenn kaupa mest allra þjóða, þá Þjóðverjar, Svíar og Norðmenn.

Verslunin samkeppnisfær

Að áliti hagsmunasamtaka verslunarinnar má draga þá ályktun af þessari þróun að íslensk verslun sé vel samkeppnisfær við erlenda verslun, bæði í verði og gæðum vöru og þjónustu. Kemur þetta álit fram í fréttatilkynningu frá Íslenskri verslun.

Í fréttatilkynningunni er vakin á því athygli að tölur í meðfylgjandi töflu eru reiknaðar út frá endurgreiðslu virðisaukaskatts til útlendinga og bent á að salan sé í raun meiri því ekki nýti allir útlendingar að fá virðisaukaskattinn endurgreiddan við brottför frá Íslandi.