HALLDÓR Blöndal samgönguráðherra undirritaði í gær samning um smíði á nýrri Hríseyjarferju. Ferjan mun annast fólks- og vöruflutninga milli Árskógssands og Hríseyjar og mun hún leysa af hólmi ferjuna "Sævar" sem gegnt hefur hlutverkinu frá árinu 1979.
Samningur um smíði nýrrar

Hríseyjarferju undirritaður

HALLDÓR Blöndal samgönguráðherra undirritaði í gær samning um smíði á nýrri Hríseyjarferju. Ferjan mun annast fólks- og vöruflutninga milli Árskógssands og Hríseyjar og mun hún leysa af hólmi ferjuna "Sævar" sem gegnt hefur hlutverkinu frá árinu 1979.

Ríkiskaup önnuðust útboð á smíðinni fyrir Vegagerðina á liðnu sumri og bárust tilboð frá sex innlendum skipasmíðastöðvum og þrjú frá erlendum aðilum. Gengið var að tilboði lægstbjóðanda sem uppfyllti öll skilyrði sem sett voru í útboðsgögnum um verktaka. Smíðinni á að vera lokið á miðju næsta sumri og hefjast þá strax áætlunarsiglingar.

Ferjan "Sævar" tekur um 48 farþega í sæti en nýja ferjan mun verða með tveimur farþegasölum og taka allt að 70 manns í sæti. Auk þess verður aðstaða til flutninga á allt að 20 tonnum af vörum. Fyrirhugað er að ganghraði nýju ferjunnar verði allt að 12 mílum á klukkustund, og verður hún tæpir 23 metrar að lengd og tæpir 7 metrar á breidd, skrokkur og yfirbygging úr stáli. Tvær aðalvélar verða í skipinu og tvær skrúfur sem tengjast hvor sinni vél sem einnig eru búnar aðalrafölum skipsins.

Morgunblaðið/RAX HALLDÓR Blöndal samgönguráðherra og fulltrúar frá Vegagerðinni og Stálsmiðjunni undirrituðu samning um smíði nýrrar Hríseyjarferju í gær.