"EINN er sá staður í miðborg Reykjavíkur sem er líklega opinberasta stássstofa Íslands"; segir Hannes Sigurðsson listfræðingur. Þar hafa komið í heimsókn brjálæðingar, skáld, heimspekingar, forstjórar, leikarar, tónlistarmenn, stjórnmálamenn, útlendingar, blaðamenn að taka viðtöl og síðast en ekki síst ­ hitt fólkið.

SÝNINGARSTAÐUR Í 40 ÁR

EFTIR RANNVEIGU A. JÓNSDÓTTUR OG ÞORVALD H. GUNNARSSON

Á Mokkakaffi við Skólavörðustíg kynntust landsmenn ekki aðeins nýrri tegund af kaffi, heldur því að kaffið og myndlistin gátu átt samleið. Margir merkir listamenn stigu sín fyrstu skref í sýningarhaldi á Mokka og meðan aðrir sýningarstaðir komu og fóru hefur Mokkakaffi haldið sínu striki.

"EINN er sá staður í miðborg Reykjavíkur sem er líklega opinberasta stássstofa Íslands"; segir Hannes Sigurðsson listfræðingur. Þar hafa komið í heimsókn brjálæðingar, skáld, heimspekingar, forstjórar, leikarar, tónlistarmenn, stjórnmálamenn, útlendingar, blaðamenn að taka viðtöl og síðast en ekki síst ­ hitt fólkið. Það leitar frá amstri dagsins, amstrinu fyrir utan gluggann, talar saman um allt milli himins og jarðar eða þá bara ekki neitt og les í dagblaði óáreitt. Skrafið heyrist á milli borðanna en engin er tónlistin, nema ef vera skyldi í hjarta staðarins ­ expressóvélinni (góður hávaði, eins og tónlistarmaðurinn sagði!). Gestirnir viðra reynslu sína á listaverkum staðarins, og þannig hefur það verið í 40 ár. Séríslensk stofa en þó svo alþjóðleg um margt. Stofa þar sem valinkunnir gestir skráðu nöfn sín lengi vel í gestabók. Tímalaus stofa þar sem hlutunum hefur ekki verið breytt að neinu ráði, stofa sem tekur á móti verðandinni og skoðar hana í myndlist og dagblöðum og ræðir (milli kl. 9.30 og 23.30 nema á sunnudögum, þá er opið frá 14.00-23.30) yfir bolla af kaffi, vöfflum með rjóma, rúnnstykki með osti og marmelaði eða þá sneið af jólaköku. Mokka heitir sú stofa.

Guðmundur Baldvinsson og Guðný Guðjónsdóttir eru eigendur stofunnar og hafa rekið hana frá upphafi. Þau felldu hugi saman á Ítalíu þegar Guðmundur var fararstjóri í íslenskum ferðamannahóp. Hann var þar í söngnámi en eftir að til Íslands kom var lítið um söngstörf í hinu unga lýðveldi. Hann ákvað að fylla það tómarúm í lífi sínu með stofnun lítillar kaffistofu í ítölskum anda að Skólavörðustíg 3 A, þar sem áður var virt veitingastofa, Vega. Í maí 1958 byrjaði svo fyrsta expressóvél landsins að fnæsa og allt í einu var orðið öðruvísi að drekka kaffi. Íslendingar voru að kynnast framandi menningu í fyrsta skipti, og "höktið" í kaffipöntun á Mokka fór ekki að lagast fyrr en sólarlandaferðirnar gerðu fleirum kleift að upplifa hið suðræna umhverfi og menningu á sjöunda áratugnum. Landinn var frelsaður frá venjubundnu soðnu og malbikslituðu kaffi með kaffibætinum "export" og skellt inn í "ilmandi" borgaramenningu. Kaffidrykkja varð list.

Það er skrýtið að tala um Mokka sem "kaffistofu" en ekki "kaffihús", en kaffistofa selur ekki áfengi. Það helltu þó alltaf einhverjir í glösin undir borðum án þess að vandræði hlytust af. Áður en Mokka var sett á stofn staldraði fólk ekki ýkja mikið við á kaffihúsum. Vegalengdir voru ekki svo miklar í borginni að ástæða væri fyrir fólk að hittast á kaffihúsi eða stofu, heldur hittist það frekar heima hjá sér. Þó fóru hlutirnir að breytast með ört vaxandi kvikmynda- og leikhúsmenningu, en þar sem sýningar í kvikmyndahúsum og leikhúsum hættu yfirleitt á sama tíma, og þá snemma, fór fólk að hittast á kaffihúsunum og stofunum eftir sýningar. Þetta kom sér einkar vel í tilviki Mokka sem liggur stutt frá Þjóðleikhúsinu og mörgum kvikmyndahúsum. En tilkoma sjónvarpsins breytti miklu og fólk varði tímanum meira heima við þess vegna, þó svo að alltaf hafi verið nóg að gera á fimmtudögum þegar sjónvarpið gaf frí. Núna er orðið svo mikið af sjónvarpi að fólk flýr fremur undan því til tilbreytingar.

Hjónin héldu sig ekki langt frá listinni þó svo þau leggi áherslu á að kaffistofan hafi alltaf verið hugsuð fyrst og fremst sem veitingastofa. En hún er listaverk. Mokka var innréttað og hannað af fagmönnum og listamönnum og dagblöðin voru óspör á upplýsingarnar, enda þóttu blaðamönnum sem boðið var sérstaklega við opnun Mokka mikið til annarleika staðarins koma. "Teikningu og skipulag annaðist Halldór Hjálmarsson arkitekt, en yfirsmiður við innréttingar var Gestur Gíslason. Afgreiðsluborð og aðrar borðplötur smíðaði vinnustofan Ösp hf. en járnvinna var unnin af Sindra hf. Hjörtur Sigurðsson lagði rafmagn. Teppin á gólfinu eru frá Kjartani Guðmundssyni. Málverkin teikningarnar og teppi sem prýða veggina í "Mokka" eru eftir Braga Ásgeirsson, Bjarna Jónsson og Barböru Árnason, gluggamyndir eru eftir Benedikt Gunnarsson og höggmynd eftir Jón Benediktsson." ("Ný kaffistofa opnuð á Skólavörðustíg 3", Vísi miðvikudaginn 28. maí 1958.) Ákveðið var að leyfa vinum og kunningjum að sýna myndlistarverk á strigaklæddum veggjum kaffistofunnar (sem í upphafi áttu að vera klæddir kaffistrigapokum með kaffimerkjum) og svo þróaðist sýningarhaldið áfram. Þetta uppátæki er allrar athygli vert en þau Guðmundur og Guðný tala um að ekki hafi tíðkast að halda eiginlegar sýningar með listamönnum inni á ítölskum kaffibörum. Myndlistargallerí sáu um það. Uppátækið er þá að mörgu leyti séríslenskt og kannski skiljanlegt í litlu samfélagi þar sem fjölskyldutengsl, fámenni og knappar aðstæður geta ráðið miklu um þróun mála. Þannig hefur Mokka gegnt margþættu hlutverki gallerís, safns og kaffistofu.

Í raun voru ekki margir sýningarsalir í Reykjavík og erfitt fyrir óþekkta listamenn að komast að með verk sín m.a. í Bogasal Þjóðminjasafnsins, Listamannaskálanum og Ásmundarsal. En í Mokka skipti ekki máli hver myndlistamaðurinn var eða þá list hans. Það gerði mörgum kleift að spreyta sig í sýningarhaldi og sýningarhald í Reykjavík breyttist. Menningarhugtakið innan myndlistargeirans færðist frá því sem við erum vön að kalla hámenningu ("og klíkuskap") niður í eins konar lágmenningu (dægurmenningu) og þarna rokkaði það á milli. Það getur varla verið augljósara en í grein Braga Ásgeirssonar um sýningu Eyborgar Guðmundsdóttur í Mokka og Einars Hákonarsonar: "FREKAR óvenjulegt er að víkja orðum að smásýningum í kaffihúsum eða í gluggum, en vegna þess að nú er ýmislegt óvenjulegt að gerast, sem á fullan rétt á, að veitt sé athygli, finn ég mig knúðan til að setjast niður og gera undantekningu." ("Ýmsislegt um myndlist", Mbl., föstudaginn 16. des. 1966.) Og ekki má gleyma listasögulegum forsendum en á byrjunarárum Mokka gekk í garð umbrotatímabil í myndlistargeiranum og samfélaginu öllu, þar sem fagurfræði daglegs lífs hins almenna neytanda spyrnti á móti fagurfræði abstraktsins.

Þessi breyting leysti þónokkra nýja orku úr læðingi innan reykvískrar menningar. Myndlistin á Mokka var ekki færð inn í stöðugt og lokað andrúmsloft heldur var andrúmsloftið "pönkað". Þar hefur alltaf viss anarkismi verið við völd í sýningarhaldinu ­ í blöndun við staðinn, gestina, eigendurna og myndlistina. Hugtökin list og menning fengu á sig óræðan merkingarblæ og satt að segja lýsir það sig hvað best í ótrúlegri umfjöllun og athygli sem Mokka fékk frá dagblöðunum sem fyrirfundust í landinu. Dagblöðin sem skrifuðu um Mokka voru ein þrettán og sýningarnar voru a.m.k. á tveggja vikna fresti. Blaðamenn kepptust við að koma á opnun sýningar til að taka viðtöl við listafólkið sem var af ólíkum toga allsstaðar af landinu og erlendis frá, segja nokkur falleg orð um myndirnar og hvort og hve margar myndir hafi selst. Stundum virtist sá mælikvarði vera mælikvarði á listrænu gildi. Var þessi blaðamennska meira lík "tilkynningarskyldu" heldur en eiginlegri myndlistargagnrýni, enda ekki vani að meðhöndla sýningarhald sem fréttir. Slík umfjöllun, ef hún var þá til, tilheyrði helst ekki dagblöðum og því var blaðamönnunum nokkur vorkunn að reyna að feta sig á gagnrýnisbrautinni sem margir tróðu nú.

"Mokka listamannakrá?", var spurt árið 1964 í titli dæmigerðar greinar sem fjallar um kaffi- og kaffihúsamenningu. Margir vildu meina að Mokka hefði tekið við bóhemlífi kaffistofunnar á Laugavegi 11, þó svo að listamennirnir væru ekki einu gestirnir. Staðurinn var hreinlega athvarf hjá ákveðnum einstaklingum og þarna kom margt fyrirmennið. Mokka gat því orðið uppspretta "Séð og heyrt" frétta fyrri tíma. Að þessu leyti hefur Mokka aldrei þurft að reiða sig á mátt auglýsingarinnar, enda óbeinu þættirnir margir sem vakið hafa umtal. Hið mikla fjölmiðlaumtal sem alltaf hefur loðað við sýningarnar hefur nánast auglýst staðinn upp frá byrjun, þar sem yfirleitt var endað á ágætis einkunn um kaffið á Mokka. Nú hafa verið settar upp a.m.k. 426 sýningar á kaffistofunni og léttilega væri hægt að gefa út bók sem innihéldi "jafnaðarmannslega" listasögu Mokka, byggða á blaðagreinum. Allir listamennirnir fengu jafnmikið pláss og umfjöllun hvort sem um væri að ræða frístundamálara utan af landi, vefara frá Filippseyjum eða meðlim SÚMhópsins.

Sýningarhald á Mokka breyttist þó töluvert með tilkomu Hannesar Sigurðssonar listfræðings, en hann og kona hans, dóttir Guðmundar og Guðnýjar, stunduðu bæði nám í Bandaríkjunum. Tók Hannes við sýningarhaldinu þar úti árið 1991 og stýrði fyrstu sýningunum þaðan, en þær tóku minna mið af lýðræðislegum markmiðum Guðmundar og Guðnýjar, þ.e.a.s. að ekki gera upp á milli listamanna og leyfa nánast óheft sjálfstæði þeirra við sýningar, en lagði þess í stað meiri áherslu á að vinna með anarkismann í Mokka, alþjóðavæðinguna og Mokka sem tilraunastofu í andlegum efnum. Þessi blanda innihélt mjög úthugsaðar sýningar. Áherslan á líkamslist hrærðist saman við samfélagið og sýn manna á veruleikann og þurfti oft áræðni til að koma niður þessum "kokteil". Sýningin Eitt sinn skal hver deyja (listahátíð 1996) er einna minnisstæðust í þessu samhengi, en þar fléttaði Hannes saman líkmyndum Andres Serrano í galleríinu Sjónarhóll og íslenskum líkmyndum (m.a. af börnum) fyrr á tímum á Mokka, ásamt öðrum uppákomum sem tengdust sýningunni vítt og breitt um Reykjavík. Með þessum uppátækjum tókst Hannesi að kynna þekkta erlenda, og oft umdeilda, listamenn í vasabrotsútgáfu, innlima íslenskan veruleika um leið og pakka öllu saman með fjölmiðlum og auglýsingum. Þannig hafa tilraunirnar og rannsóknirnar í menningarlegu landslagi Íslands orðið vettvangur nýbreytni í íslensku sýningarhaldi á alþjóðlegum skala, þar sem Hannes leggur áherslu á samstarf við íslenska sem erlenda listamenn í mótun sýninga og hrista svo laglega upp í viðteknum viðhorfum. En þessar andlegu framkvæmdir eru ekki ókeypis og skilningur yfirvalda á því lítill að mati Hannesar. Til að vekja athygli á litlum fjárveitingum fór hann í "menningarlegt" verkfall sumarið 1997 og hætti öllum störfum. Nú rekur hann menningarfyrirtækið art.is sem sér m.a. um sýningarhaldið í Mokka.

Við sem yngri erum og þykjumst vita hvað kaffihúsamenning gengur út á lifum í goðsögninni um þessa opinberu stofu. Við vitum að í handarkrikanum á Skólavörðustígnum leynist þessi kaffistofa með sína áru, vitandi að fyrir marga gat það verið óyfirstíganlegt að ganga inn um dyr kaffistofunnar. Þar þótti andrúmsloftið alltof óvenjulegt að maður tali nú ekki um furðulega gesti og furðulegar myndir, og þessir gestir hafa skilið eftir sig för í veggjunum ef vel er að gáð, skuggaspor sem ekki hafa verið máð út. Maður er feiminn við fyrstu kynni, gestirnir fylgjast með hver þú ert, meira að segja slitfarið í gólfteppinu við afgreiðsluborðið horfir á þig með sínu "búddíska auga", vandræðagangurinn við að panta fyrsta mokkabollann (kaffi latte, kappútsjínó eða kaffi hitt!, kakó jafnvel ­ nú heitt súkkulaði ?! ­), sest niður í þessum undarlegu, nánast kafkaísku heimkynnum. Og fyrr en varir kemur maður aftur og aftur í heimsókn.

40 ár að baki í verðandinni án breytinga kallar á afmælissýningu (sem hefst 2. okt.) sem vekur fólk til íhugunar um jafn "sjálfsagðan" hlut í menningu okkar. Sýningu sem kallar fram kaffistofuna Mokka á hógværan og ótruflandi hátt eins og henni sæmir. Sýning sem kemur og fer að næturlagi eins og allar hinar. Mokka er sjálft listaverkið.

Höfundarnir eru að vinna að lokaverkefni fyrir meistarapróf við Árósaháskóla.





ANDLEGT LÍF á Mokkakaffi, að líkindum um 1960. Menn skeggræða yfir kaffibolla, sökkva sér í bækur og á veggnum er hátískulist þessara ára, abstakt flatarmálverk, sem þarna hefur losnað undan kennisetningum geómetríunnar og búið að fá frjálsara flæði.





AÐAL SÝNINGARVEGGURINN í Mokkakaffi, líklega einhverntíma á sjöunda áratugnum. Ekki hefur tekizt að bera kennsl á höfund myndanna, en hann virðist hafa gert tilraunir í ýmsar áttir, enda stigu margir sín fyrstu skref í sýningarhaldi í Mokkakaffi.





Á MOKKAKAFFI á fyrstu árunum. Þessi fasti punktur í tilveru margra var þannig þá og þannig er þannig enn.







GUÐMUNDUR Baldvinsson og Guðný Guðjónsdóttir, gestgjafar á Mokkakaffi með kaffi vélina sem þá var nýjung á Íslandi. Á veggnum til vinstri má sjá veggteppi eftir Barböru Árnason.