Íslensk byggingarlist á sér ekki mjög langa sögu. En einmitt það gerir hana óvenjulega og áhugaverða. Í dag stöndum við fyllilega jafnfætis öðrum þjóðum á sviði byggingarlistar, þrátt fyrir það að hér var ekki til sú atvinnumannastétt sem við í dag köllum arkitekta fyrr

ÍSLENSK STEINSTEYPUKLASSÍK Í VERKUM EINARS ERLENDSSONAR

EFTIR SIGRÍÐI BJöRK JÓNSDÓTTUR

Einar Erlendsson hóf feril sinn sem aðstoðarmaður Rögnvaldar Ólafssonar og átti síðan eftir að teikna nokkur þeirra húsa sem hvað hæst ber í íslenskri steinsteypuklassík. Hann var orðinn mjög fær í að notfæra sér byggingarstíla eins og klassík og barokk og flest þeirra húsa sem hann teiknaði á tímabilinu 1920-30 eru einmitt sambland af þessum tveimur stíltegundum.



Íslensk byggingarlist á sér ekki mjög langa sögu. En einmitt það gerir hana óvenjulega og áhugaverða. Í dag stöndum við fyllilega jafnfætis öðrum þjóðum á sviði byggingarlistar, þrátt fyrir það að hér var ekki til sú atvinnumannastétt sem við í dag köllum arkitekta fyrr en í upphafi þess arar aldar og voru þeir í þá daga kallaðir annað hvort húsa- eða byggingarmeistarar. Almenn umræða um sögu byggingarlistarinnar hefur aukist undanfarin ár og sem betur fer virðast flestir í dag telja húsaverndun og virðingu fyrir gömlum byggingum sjálfsagðan hlut. Til skamms tíma voru það nær einungis gömlu timburhúsin sem talin voru í útrýmingarhættu, en nú er farið að gefa meiri gaum að steinsteypuhúsum frá því á fyrri helmingi þessarar aldar. Þau eru ekki síður mikilvægur kafli í íslenskri byggingarlistarsögu. Umfjöllunarefni mitt í þessari grein er afmarkað svið í íslenskri byggingarlistarsögu, eða það tímabil þegar Íslendingar uppgötvuðu byggingarefnið steinsteypu og fóru að nota hana nær eingöngu sem efnivið við húsbyggingar. Flestir þekkja til verka þeirra Rögnvaldar Ólafssonar og Guðjóns Samúelssonar. Þeir eru færri sem þekkja til samtímamanns þeirra sem var ekki síður afkastamikill á tímabilinu 1920-'30, en einmitt á þeim áratug var mikil gróska í byggingu steinsteypuhúsa í borginni. Þessi maður, sem mér finnst kominn tími til að kynna fyrir almenningi, hét Einar Erlendsson og starfaði hann sem húsameistari í hartnær hálfa öld. Hver var Einar Erlendsson? Einar Erlendsson fæddist 15. október árið 1883. Foreldrar hans voru Erlendur Árnason húsasmíðameistari og Ágústa H.J. Ahrenz, og var hún af þýskum ættum en faðirinn Húnvetningur. Kona Einars hét Sigríður Lydia Thjell og eignuðust þau hjónin tvö börn. Ekki kemur margt fyrir á prenti um uppvaxtarár Einars. Á unga aldri lærði hann trésmíði eins og faðirinn og tók Einar sveinspróf í þeirri grein. Því næst hélt hann utan til náms í húsagerðarlist í Tekniske Selskabs Skole í Kaupmannahöfn. Þar var hann við nám í alls þrjú ár eða frá 1901-1903 og svo aftur veturinn 1904. Þegar Einar kom aftur heim til Íslands gerðist hann aðstoðarmaður Rögnvaldar Ólafssonar sem þá var ráðunautur landsstjórnarinnar í húsagerð. Báðir höfðu þeir orðið að hverfa frá námi áður en þeir luku því. Þeir höfðu svipaðan bakgrunn, nema hvað Rögnvaldur hafði lokið stúdentsprófi og lesið guðfræði í eitt ár við Prestaskólann áður en hann hóf nám sitt í húsagerðarlist í Danmörku. Einar var aðstoðarmaður Rögnvaldar frá 1905-1917, en vann jafnhliða á sinni eigin teiknistofu. Á þeim þremur árum sem liðu frá fráfalli Rögnvaldar og þar til að Guðjón Samúelsson tók við starfi húsameistara, gegndi Einar stöðu byggingarfulltrúa Reykjavíkur. Guðjón varð fyrstur manna til þess að gegna starfi húsameistara ríkisins þegar til þess var stofnað árið 1920, en hann var einnig fyrstur Íslendinga til þess að ljúka prófi í arkitektúr. Einar gerðist aðstoðarmaður Guðjóns og gegndi því starfi þar til Guðjón féll frá, en þá tók Einar við stöðunni næstu fjögur árin eða frá 1950-54. Einar starfaði ekki einungis fyrir hið opinbera heldur starfrækti hann eigin teiknistofu og teiknaði fyrir fjölmörg fyrirtæki og einstaklinga. Hann þótti frumlegur og hagsýnn teiknari og voru hús hans því vinsæl. Ásamt því að vera afkastamikill á byggingasviðinu, þá var Einar athafnasamur á sviði félagsmála og hófust afskipti hans af þeim nokkuð snemma. Hann var einungis 15 ára gamall þegar hann gerðist aukafélagi í Iðnaðarmannafélagi Reykjavíkur, líklega á meðan hann var í trésmíðanáminu við Iðnskólann. Hann var virkur í félaginu og átti síðar eftir að verða formaður þess um fimm ára skeið, á árabilinu 1936­40. Einar var kosinn heiðursfélagi á 100 ára afmæli félagsins árið 1967, en hann hafði þá verið félagsmaður í Iðnaðarmannafélaginu í 70 ár. Meðal þeirra félaga og fyrirtækja þar sem Einar var einn af stofnendum voru Íþróttafélag Reykjavíkur, Sparisjóður Reykjavíkur og Rotaryklúbburinn. Einnig sat hann í ýmsum nefndum á vegum bæjarins og var meðal annars varaborgarfulltrúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn í Reykjavík árin 1942-1950. Jafnframt var hann kosinn sjöundi þingmaður Reykvíkinga árið 1942. Einar Erlendsson var iðnaðarmaður sem þekkti vel til allra framkvæmda við húsabyggingar og hugaði ekki síður að tæknilegum atriðum utan sem innan, en jafnframt hafði hann gott listrænt innsæi og er það það sem gerði hann að vinsælum og virtum húsameistara. Upphaf ferils Einars sem húsameistara

Einar Erlendsson byrjaði feril sinn sem aðstoðarmaður Rögnvalds Ólafssonar. Er hann kom heim frá Danmörku hófst hann þegar handa við að teikna hús. Á þeim tíma var timbur enn algengasta byggingarefnið. Einar var menntaður trésmiður og kunni því vel til verka. Eftir brunann mikla í Reykjavík árið 1915 má segja að smíði timburhúsa leggist svo til alveg af. Í stað timbursins kom steinsteypan. Einar virðist ekki hafa verið lengi að tileinka sér nýja byggingarefnið og byrjaði hann snemma að prófa sig áfram. Til þess að gefa einhverja mynd af ferli Einars fyrir 1920 verða hér nefnd nokkur þeirra húsa sem hann teiknaði fyrir þann tíma. Eitt frægasta timburhús sem Einar teiknaði er Fríkirkjuvegur 11 sem athafnamaðurinn Thor Jensen lét reisa fyrir sig árin 1907­08. Húsið er í nýklassískum stíl, en er klætt með bárujárni sem verður að teljast mjög einkennandi fyrir íslenskan byggingarstíl. Í æviminningum sínum segir Thor frá því að hann hafi sjálfur leitað fyrirmynda að húsi sínu í bókum á Landsbókasafninu en síðan fengið húsameistarann Einar Erlendsson til þess að sjá um útfærsluna. Timburhúsið sem enn stendur við Skólabrú 1 var reist árið 1907 eftir teikningu Einars. Sama ár vann Einar að endurbyggingu Fálkahússins og hefur húsinu ekki verið breytt síðan. Við Kirkjustræti 2 stendur hús Hjálpræðishersins eða Herkastalinn eins og hann er oft nefndur. Húsið teiknaði Einar árið 1916. Í fyrstu var húsið aðeins tvílyft en var hækkað um tvær hæðir árið 1929 og sá Einar um að teikna viðbótarhæðirnar tvær svo að ekki er hægt að sjá annað en að húsið hafi átt að vera fjórar hæðir í upphafi. Herkastalinn er byggður í nýrómönskum stíl. Það er ekki klassísk fornöld sem er fyrirmyndin í það skiptið heldur evrópskir miðaldakastalar. Eftir að húsið var hækkað um tvær hæðir er þetta einkenni ekki eins áberandi. Til þess að líkja eftir hleðslu hefur steypan verið lögð í mót, en þetta má sjá víðar á húsum sem eru byggð um þetta leyti. Síðar átti Einar eftir að teikna einbýlishús í nútímalegri og klassískari kastalastíl. Árið 1916 er við Þingholtsstræti 29A reist hús það sem nú hýsir Borgarbókasafn, eftir teikningum Einars. Húsið er gert úr steinsteypu en er í nýbarokk-stíl. Í miðbæ Reykjavíkur eru fleiri hús sem Einar hefur teiknað. Við Hafnarstræti standa þrjú stórhýsi eftir Einar. Þetta eru Hafnarstræti 10-12 sem gekk undir nafninu Edinborgarhúsið , Mjólkurfélagshúsið númer 5 og hús Helga Magnússonar kaupmanns en þar er Rammagerðin nú til húsa. Öll þessi hús bera einhver einkenni nýklassíkur. Einnig teiknaði Einar húsið sem stendur við Austurstræti númer 14 og verður minnst á það síðar. Einar var orðinn mjög fær í að notfæra sér byggingarstíla eins og klassík og barokk. Flest þeirra húsa sem hann teiknaði á tímabilinu 1920-30 eru einmitt sambland af þessum tveimur stílum. Á þessum árum 1915-20 teiknaði Guðjón Samúelsson nokkrar byggingar í "hefðbundnum stíl" sem þegar hafði náð vinsældum. Guðjón hafði lært að byggja í nýklassískum stíl í Akademíunni í Kaupmannahöfn. Sökum velgengni sinnar hugðist Guðjón ekki ljúka prófi í arkitektúr en koma heldur til starfa á Íslandi þar sem næg verkefni biðu hans. Það var Jón Magnússon, þáverandi forsætisráðherra, sem lofaði Guðjóni embætti húsameistara ríkisins ef hann aðeins lyki námi sínu. Hefur það vafalaust haft áhrif á þá ákvörðun Guðjóns að ljúka náminu áður en heim skyldi haldið. Einari Erlendssyni var ekki boðin staðan heldur gegndi hann henni aðeins tímabundið eða í rúm tvö ár, eða meðan Guðjón var að ljúka námi. Einar hafði þegar þetta var ekki hlotið húsameistararéttindi vegna þess að hann hafði, eins og margir Íslendingar sem fóru til náms í Kaupmannahöfn á þessum árum, ekki lokið prófi í greininni. Hann fékk ekki húsameistararéttindi fyrr en árið 1939 og hafa menn líklega talið hann þá hafa sannað sig í starfi. Í bókinni Íslenzk bygging eru tilteknir þrír samstarfsmenn Guðjóns, þar á meðal Einar Erlendsson. Þar segir:

Einar Erlendsson var mjög fær húsameistari, og auk þátttöku sinnar við ríkisbyggingar, hafði hann á eigin spýtur staðið fyrir byggingu margra merkra húsa í Reykjavík. Meðan Einar starfaði með húsameistara ríkisins gætti hann með mikilli umhyggju hinna miklu fjármuna, sem runnu í miljóna tali gegnum skrifstofu hans.

Einar átti langa starfsævi og gafst honum tækifæri til þess að vinna með þeim tveimur mönnum sem minnst er sem frumkvöðlanna tveggja í íslenskri byggingarsögu í upphafi aldarinnar. Einar sat ekki aðgerðalaus þennan tíma heldur var hann þvert á móti mjög athafnasamur húsameistari. Í hugum margra er Guðjón sá eini sem teiknaði þessi nýklassísku fínu hús sem standa víðs vegar í miðbæ Reykjavíkurborgar. Það eru ekki eins margir sem þekkja til verka Einars Erlendssonar. En hann á heiðurinn af mörgum þeirra húsa sem setja ekki hvað síst stórborgarbrag á þessa litlu borg. Nýklassík Hugtakið steinsteypuklassík hefur verið notað í umfjöllum um þau steinsteypuhús sem byggð voru í Reykjavík á árabilinu 1920-30. Í þessum húsum eru klassísk stíleinkenni útfærð í hið nýja byggingarefni sem þá var nýlega komið fram. Húsin voru mótuð að erlendri fyrirmynd en annað byggingarefni notað. Húsin bera ekki eingöngu nýklassísk einkenni heldur er í þeim að finna fleiri stíleinkenni fyrri tíma, þetta hefur líka verið kallað sögustíll. Hugtakið klassík í þessu samhengi á því fremur við um eitthvað gamalt og viðurkennt. Einar Erlendsson hefur gjarnan verið nefndur faðir steinsteypuklassíkur en einnig byggðu aðrir í þeim stíl. Einar Erlendsson var afkastamikill á þessu tímabili eða á milli 1920 og 1930. Erfitt er að velja einstök hús til umfjöllunar þar sem úrvalið er mikið og gott. Það liggur þó beint við að velja til umfjöllunar nokkur hús sem standa við tvær af elstu götum borgarinnar, Bankastræti og Laugaveg. Einar teiknaði tvö hús sem standa í Bankastræti og eru það húsin númer 5 og 7a. Það fyrra hýsir nú Íslandsbanka. Það er þó nær óþekkjanlegt ef borin er saman frumteikning Einars af húsinu. Öllu þekktara er Hús málarans, í dag oftast kallað Sólon Íslandus, sem er númer 7a. Húsið var reist árið 1926 og heldur enn sínum ytri einkennum, fyrir utan efstu hæðina sem var bætt við löngu síðar. Næsta hús stendur að vísu hvorki við Bankastræti né Laugaveg, en er þó vel sjáanlegt frá Laugaveginum. Þetta er Gamla Bíó sem stendur við Ingólfsstræti, kannski betur þekkt sem Íslenska óperan. Það hús er í hreinum nýklassískum stíl. Einar teiknaði þar ekki einungis ytra byrði heldur hannaði hann einnig innanhúss skreytingar og gerir skissu að teikningum þeim sem eru á vegg í anddyri hússins. Þær myndir eru mjög þjóðlegar og blandar hann þannig saman nýklassík og þjóðlegum stíl. Framhlið byggingarinnar skagar nokkuð upp fyrir eiginlega þakhæð þess. Það var gert í þeim tilgangi að gera bygginguna enn reisulegri og gnæfir hún eins og grískt hof í lítilli þvergötu í miðbæ Reykjavíkur. Einar teiknaði mörg hús sem standa við Laugaveg. Meðal þeirra eru Laugavegur 36 eða bakarí Sandholt og Laugavegur 40a, áður Iðunnarapótek. Flest þessara húsa við Laugaveg og nærliggjandi götur teiknaði Einar á seinni hluta þriðja áratugarins þegar allt var í uppgangi. Þá voru það ófá íbúðarhús sem hann teiknaði fyrir hina ýmsu athafnamenn í þjóðlífinu sem áttu nóg af peningum og vildu allt til vinna að hafa híbýli sín sem glæsilegust sem merki um velgengni sína. Mörg þessara húsa má finna í gamla vesturbænum, á Sólvallagötu, Bárugötu, Suðurgötu og þar í kring. Hvaða viðtökur hlaut nýklassíkin í Reykjavík? Þjóðfélagslegar forsendur þess afturhvarfs til fornaldar sem var í Evrópu á 19. öldinni voru alls ekki fyrir hendi á Íslandi. Í upphafi 19. aldar er ekki hægt að tala um eiginlega bæjarmenningu og hvað þá borgarmenningu til jafns við Evrópu. Að vísu var hún að myndast, en þróunin var ekki komin langt á veg. Það er að sama skapi varla hægt að tala um iðnvæðingu á Íslandi fyrr en í upphafi 20. aldar þegar vélvæðing verður almenn í sjávarútvegi. Á 19. öldinni þegar aðrir Norðurlandabúar reistu sér hallir í nýklassískum stíl, bjó meirihluti Íslendinga í torfkofum. Þegar síðara tímabil klassísks byggingarstíls verður í nágrannalöndunum, er bærinn Reykjavík að breytast í höfuðborg. En það þýddi að það þurfti að reisa opinberar byggingar eins og skóla, sjúkrahús ofl. Að vísu voru þegar fyrir hendi nokkrar opinberar byggingar sem voru byggðar úr steini, en mikill skortur var á íbúðarhúsum og verslunarhúsnæði. Þegar Íslendingar fara að reisa þessar byggingar þá virðast þeir vera vel inni í því sem er að gerast á Norðurlöndum og reisa þessi hús í sama nýklassíska stílnum. Það má segja að stór eyða sé í byggingarsögu Íslands. Stökkið frá því að byggja úr torfi og timbri yfir í það að byggja stórhýsi úr steinsteypu, er allstórt og þróunin hér var önnur en annars staðar á Norðurlöndunum. Í raun og veru má segja að engin þróun hafi átt sér stað heldur frekar einhvers konar stökkbreyting. Þrátt fyrir það virðast Íslendingar hafa tiltölulega fljótt náð tökum á þessu undraefni sem steypan þótti vera í fyrstu. Það var ekki aðeins að hún gerði mönnum kleift að byggja stærri og glæsilegri hús, heldur var um að ræða byltingu í mannvirkjagerð almennt.

Sementið var töfralyf, sem hafði gerbreytt ýmsum kenninsetningum mannvirkjafræðinnar. Með það í höndum var hægt að gera þá hluti, sem vísustu verkfræðingar höfðu ekki látið sig dreyma um að nokkurn tímann yrðu framkvæmdir, áður en þetta mikilvæga duft kom til sögunnar.

Íslenska nýklassíkin var að mestu leyti mótuð í steinsteypu. Fyrir aldamótin höfðu þó verið reist timburhús á Íslandi í klassískum stíl.

Á áttunda áratugnum sneið og reisti sá ágæti alþýðuarkitekt Helgi Helgason nýja húsagerð, sem veruleg áhrif hafði og kalla mætti nýklassík. Byggingar þessar voru tvílyftar, með lágu risi, meiri lofthæð en áður gerðist og prýddar klassísku hússkreyti á borð við bjóra yfir dyrum og gluggum, flatsúlur á hornum og skornar vindskeiðar. Segja má, að Helgi Helgason sé fyrsti boðberi nýklassískrar húsagerðar hérlendis, stefnu, sem réði ríkjum í íslenskri byggingarlist fram til 1930.

Með steinsteypunni fylgdu nýir möguleikar, ekki aðeins tæknilegir heldur líka listfræðilegir. Íslendingar nýttu sér þessa möguleika öðru vísi en gert var annars staðar; gamla stílnum var haldið við en hann var nú mótaður í steypu en ekki tré. Hægt var að móta steypuna að vild við gerð húsaskreytis. Það kallaði líka á nýja stétt, múrara og skrautgerðarmenn. Menn áttuðu sig fljótlega á mikilvægi þess að vanda vel til verks vegna þess að þessi hús sem byggð voru úr steypunni áttu eftir að standa um aldur og ævi. Það er ekki fyrr en þá að Íslendingar fara út í nám í arkitektúr í einhverjum mæli. Hafa verður í huga að vöxtur hinnar nýju borgarastéttar sem var tiltölulega vel efnum búin, var mikilvæg forsenda þeirrar þróunar sem varð í atvinnugrein húsameistara. Vafalaust hefur sjálfstæðisbaráttan haft áhrif á þær viðtökur sem byggingarstíllinn fékk hér á landi. Þegar Íslendingar fá sjálfstæði 1918 er mikilvægt fyrir þá, eins og vestur-evrópsku borgarastéttina á 19. öld, að losa sig við öll einkenni fyrri tíma, tíma örbirgðar og fátæktar. Því skyldi byggja vel og ríkmannlega. Nýklassískur stíll er afar glæsilegur og stórborgarlegur. Það er því ekki skrýtið að hinni nýríku stétt sem reisti sér hús á áratugnum milli 1920 og 30 hafi litist vel á teikningar manna eins og Einars Erlendssonar og Guðjóns Samúelssonar. Það má einnig túlka þessa löngun til þess að reisa stórhýsi í þessum stíl sem svo, að Íslendingar hafi viljað samsama sig öðrum Evrópuþjóðum sem voru sjálfstæðar. Danski arkitektinn Alfred J. Råvad skrifar um íslenska húsagerðarlist árið 1918. Þar reynir hann að benda á að á Íslandi sé til sérstakur stíll sem þurfi að rækta og þróa, en ekki fengu orð hans mikinn hljómgrunn meðal fólks. Hann segir:

Ef nokkur þrá lifir í brjósti manna eftir listfegurð í byggingum, er það víst helst þrá eftir einhverju því sem algengast er í útlöndum og almennast þar, í þeirri von, að það muni greiða þeim veginn inn í hið almenna menningarstarf.

Það var einmitt þetta viðhorf sem einkenndi íslenska byggingarlist. Það var mikið á sig lagt til þess að standa jafnfætis nágrannaþjóðunum, því ekki mátti hin nýja höfuðborg landsins standa öðrum að baki. Steinsteypan hentaði vel til þess að koma klassíkinni til skila. Ekki aðeins urðu húsin nú stærri og glæsilegri heldur var hægt að móta skreyti úr steypunni og jafnvel gera í hana raufir eða leggja hana í mót í þeim tilgangi að líkja eftir steinhleðslu. Með tilkomu nýklassíska stílsins fylgdu auknar fagurfræðilegar kröfur. Menn gerðu kröfur um aukið samræmi bæði innan og utan heildarinnar. Húsagerð varð að listgrein. Ásmundur Sveinsson myndhöggvari lærði til dæmis skrautlist jafnhliða höggmyndanáminu og vildi þannig tengja saman listina og iðnina í þeim tilgangi að fegra umhverfið. Annar Íslendingur sem vann að skrautlist á byggingar var Guðmundur frá Miðdal og gerði hann meðal annars lágmynd á húsið sem Einar Erlendsson teiknaði og stendur við Austurstræti 14. Það er því ekki hægt að segja annað en að nýklassíkin hafi fengið mjög góðar viðtökur í höfuðborginni. Klassíkin hans Einars Þegar talað er um reykvíska steinsteypuklassík er ekki endilega eingöngu átt við þær byggingar sem eru reistar í hreinum nýklassískum stíl, því þær eru í raun ekki margar. Þegar hugtakið nýklassík er notað er oftar en ekki átt við það þegar byggt hefur verið í gömlum stíl sem tilheyrir fortíðinni en er tekinn upp að nýju. Það var algengt að einkenni annarra stíla kæmu einnig fram í þessum byggingum. Þess vegna eru hús Einars, sem frekar eru í nýrómönskum stíl (Herkastalinn) og nýbarokkstíl, einnig tekin með í þessari umfjöllun um reykvíska steinsteypuklassík. Þrátt fyrir að Einar sé gjarnan nefndur faðir steinsteypuklassíkur áttu aðrir það til að byggja hús í klassískum stíl. Nærtækasta dæmið er Guðjón Samúelsson. Meðal þeirra húsa sem hann teiknaði í þessum stíl eru Landspítalinn og Austurstræti 16, nú Reykjavíkurapótek. Í því síðarnefnda er reyndar að finna áhrif annarra stíltegunda eins og nýrómantíkur og jugendstíls. Á húsinu við Austurstræti 16 er áberandi þessi gervihleðsla sem mótuð var í múrhúðina og er eitt helsta einkenni þeirra klassísku bygginga sem standa í Reykjavík. Það var þó ekki með öllu óþekkt erlendis að líkja eftir hleðslu í múrhúðinni. Það að móta hleðslu í ysta lagið er því ekki séríslenskt einkenni. Það sem er kannski séríslenskt er að hér voru húsin byggð úr steinsteypu yst sem innst. Það var líklega Guðjón Samúelsson sem fyrstur Íslendinga mótaði hleðslu í múrhúðina á þennan hátt á húsinu við Austurstræti 16, sem hann teiknaði þegar hann hafði lokið námi árið 1916. Tæknina hefur hann lært í Danmörku og lagaðI hana að íslenskum aðstæðum. Tímabil stælinga eldri stíltegunda hefur löngum ekki þótt sérlega fínt og þá allra síst meðal þeirra sem vilja gera íslenskri list hátt undir höfði. Menn skulu ætíð varast að setja nútímamælikvarða á söguna, því að fram til 1930 þóttu þessar stælingar afar fínar. Í raun og veru kom Einar Erlendsson ekki fram með mjög persónulegan og einkennandi stíl, enda var það ekki markmið hans. Hlutverk hans er þó ekki síður mikilvægt. Það var uppeldislegs eðlis. Hann bjó í haginn fyrir íslenska byggingarlistarhefð svo hún gæti þróast. Sagt er að sá listamaður sem ekki hefur lesið listasögu sé dæmdur til þess að endurtaka hana. Það var hlutverk Einars að kynna nýklassíkina og aðra stíla fyrir Íslendingum svo þeir gætu á gömlum grunni tekist óhræddir á við framtíðina og þær nýju hugmyndir fylgdu nýjum stílum eins og funksjónalisma þegar kom fram á fjórða áratuginn. Einars Erlendssonar mun alltaf verða minnst sem lykilmanns í íslenskri byggingarlist og föður steinsteypuklassíkurinnar. Með húsum sínum hefur hann reist sér minnisvarða sem standa mun um ókomin ár. EINAR Erlendsson húsameistari.

FRÍKIRKJUVEGUR 11. Thor Jensen stórkaupmaður lét reisa húsið eftir teikningum Einars árin 1907-08. Húsið er í nýklassískum stíl, en klætt bárujárni sem verður að teljast einkennandi fyrir íslenskan byggingarstíl á þessum tíma. KIRKJUSTRÆTI 2 ­ Herkastalinn. Einar teiknaði húsið árið 1916. Upphaflega var húsið tvílyft en árið 1929 var tveimur hæðum bætt við og teiknaði Einar einnig viðbótarhæðirnar tvær. ÞINGHOLTSSTRÆTI 29a ­ Borgarbókasafn. Húsið var reist árið 1916 úr steinsteypu í nýbarokk-stíl. BANKASTRÆTI 7a ­ Hús málarans ­ Sólon Íslandus. Húsið var reist árið 1926 . Það var Jón Björnsson kaupmaður sem lét Einar teikna húsið fyrir sig. Árið 1958 var húsið hækkað og var nýja hæðin gerð úr timbri og steini. Hún er síst til prýði fyrir húsið og í alls engu samræmi við gerð þess. INGÓLFSSTRÆTI ­ Gamla bíó ­ Íslenska óperan. Árið 1925 bað herra P. Petersen Einar um að gera uppdrátt að nýju lifandimynda-leikhúsi. Húsið er byggt í hreinum nýklassískum stíl og skreyti þess í sama stíl. Á uppdrætti Einars af húsinu sést að hann hefur einnig gert skissur að myndunum sem málaðar voru uppi við loft í anddyri hússins. Þar blandar hann á vissan hátt saman alþjóðlegum og íslenskum einkennum. Laugavegur 36 ­ Bakarí Sandholt. Árið 1925 tók Einar að sér að teikna íbúðarhús og bakarí fyrir Guðmund Ólafsson og Sandholt. Húsið er eins og Gamla Bíó í nýklassískum stíl og svipar reyndar nokkuð til Gamla Bíós í uppbyggingu þó að það sé ekki nærri því eins íburðarmikið. AUSTURSTRÆTI 14. Hér sést lágmynd Guðmundar frá Miðdal. Húsið teiknaði Einar árið 1928 og ber það klassísk einkenni en jafnframt þjóðleg, sbr. myndefni Guðmundar. Klassískir bitar undir þakbrún eru áberandi.



Helstu heimildir: Tímarit Iðnaðarmanna. "Einar Erlendsson húsameistari sextugur." 16. árg, 1943.

Guðmundur Ingólfsson, Guðný Gerður og Hjörleifur Stefánsson. Kvosin. Byggingarsaga miðbæjar Reykjavíkur. Reykjavík 1987.

Lýður Björnsson. "Steypa lögð og steinsmíði rís".

Íslenzk bygging. Brautryðjendastarf Guðjóns Samúelssonar. Jónas Jónasson og Benedikt Gröndal sömdu texta og ritstýrðu.

Hörður Ágústsson. Þættir úr íslenskri húsagerðarsögu. Kafli um timburhús.

Råvad, Alfred J. "Íslensk húsagerðarlist." Dansk- Islands samfunds smaaskrifter nr. 1. Kaupmannahöfn 1918. Bls. 5. Guðjón Friðriksson. Saga Reykjavíkur. Bærinn vaknar 1870-1940, síðari hluti.

Grein þessi er unnin upp úr B.A.-ritgerð höfundar, Einar Erlendsson og íslensk steinsteypuklassík, sem var skrifuð við Sagnfræðideild Háskóla Íslands vorið 1995.