ALÞJÓÐLEGUR baráttudagur heyrnarlausra er sunnudaginn 27. september. Baráttudagur þessi hefur verið haldinn hátíðlegur víðsvegar um heim í 10 ár og þennan dag nota heyrnarlausir tækifærið til þess að vekja athygli á baráttumálum sínum og menningu.
Alþjóðlegur baráttudagur heyrnarlausra

ALÞJÓÐLEGUR baráttudagur heyrnarlausra er sunnudaginn 27. september. Baráttudagur þessi hefur verið haldinn hátíðlegur víðsvegar um heim í 10 ár og þennan dag nota heyrnarlausir tækifærið til þess að vekja athygli á baráttumálum sínum og menningu.

Félag heyrnarlausra var stofnað árið 1960 og er heildarsamtök heyrnarlausra á Íslands. Markmið félagsins er að bæta stöðu heyrnarlausra og heyrnarskertra í samfélaginu, stuðla að réttindum þeirra til jafns við aðra og rjúfa félagslega einangrun þeirra með öflugu félagslífi, fræðslu og ráðgjöf. Einnig miðar félagið að því að koma upplýsingum til almennings um heyrnarleysi, menningu og tungumál heyrnarlausra, íslenska táknmálið.

Undanfarin ár hefur Félag heyrnarlausra staðið fyrir pennasölu í tengslum við dag heyrnarlausra og hefur það verið mikilvægur þáttur í fjáröflun félagsins.

"Stuðningur almennings í landinu hefur verið ómetanlegur og gert Félagi heyrnarlausra kleift að standa vörð um hagsmuni félagsmanna og hefur margt áunnist undanfarin ár. En til að gera enn betur og stuðla að bættri stöðu heyrnarlausra í íslensku samfélagi er áframhaldandi stuðningur nauðsynlegur. Næstu daga munu pennarnir verða til sölu víðsvegar um land og vonast félagið eftir því að almenningur taki vel á móti sölufólki," segir í fréttatilkynningu.