MARGT skilur með leikjatölvum og einkatölvum og þá ekki bara verðið. Þeir sem nota hvora tveggja tölvuna til leikja átta sig strax á því hversu frábrugðnir leikir fyrir þær eru í eðli sínu. Leikir fyrir einkatölvur fela í sér meiri gagnvirkni og yfirleitt meiri dýpt en í leikjatölvunum, en leikjatölvuleikir eru á móti talsvert glæsilegri og líflegri að spila.

Magnaður

hlutverkaleikur Illa hefur gengið að flytja leiki frá leikjatölvum yfir í einkatölvur svo vel sé og sumir haldið því fram að það sé ógerningur. Árni Matthíasson kannaði heim Final Fantasy VII og segir að hann sé undantekningin sem afsanni regluna. MARGT skilur með leikjatölvum og einkatölvum og þá ekki bara verðið. Þeir sem nota hvora tveggja tölvuna til leikja átta sig strax á því hversu frábrugðnir leikir fyrir þær eru í eðli sínu. Leikir fyrir einkatölvur fela í sér meiri gagnvirkni og yfirleitt meiri dýpt en í leikjatölvunum, en leikjatölvuleikir eru á móti talsvert glæsilegri og líflegri að spila. Þetta hefur meðal annars staðið í veginum fyrir því að leikjafyrirtækjum hafi tekist að flytja PC- leiki yfir í leikjatölvuumhverfi svo vel sé. Til að mynda hefur Sega reynt það með mjög misjöfnum árangri og fleiri framleiðendur reyndar líka, en einnig hefur síður gengið stirðlega að flytja leiki frá PC-samhæfðum tölvum yfir á leikjatölvur. Í því ljósi kom skemmtilega á óvart hversu vel heppnaðist að flytja leikinn magnaða Final Fantasy VII yfir á PC-samhæfðar tölvur eftir að hann hafði lagt PlayStation- heiminn að fótum sér. Final Fantasy VII vakti gríðarlega athygli að segja áður en hann kom út og frægt varð þegar japanskir leikjafíklar stóðu í röð í á þriðja dag til að ná sér í eintök af leiknum. Þar í landi hefur Final Fantasy-röðin líka notið gríðarlegra vinsælda, þó ekki sé beinlínis um framhald að ræða í hverjum leik. Á Vesturlöndum hefur leiknum einnig verið vel tekið í PlayStation-gerð hans, enda hafa selst af honum ríflega sex milljón eintök sem er nánast einsdæmi. Myndskreytt saga Final Fantasy VII kalla menn RPG, eða hlutverkaleik, en hann er að mörgu leyti ólíkur hefðbundnum hlutverkaleikjum eins og menn þekkja í PC-heimum. Réttara væri að segja að hann sé myndskreytt saga með bardagaatriðum og leikandinn hefur það helst fyrir stafni að miða sögunni áfram nánast línulega. Hljómar kannski ekki nógu vel, en eins og menn reka sig fljótt á þegar farið er að leika er söguþráðurinn flóknari og umfangsmeiri en menn eiga að venjast í slíkum leik. Það er því nóg við að vera og hann ætti að duga meðalmanni í um það bil viku af nokkuð stífum leik, svo framarlega sem menn eigi sér líf utan sýndarveruleika tölvunnar. Forlögin grípa inní Final Fantasy VII hefst í gríðarstóru iðnaðarhverfi framtíðarinnar og er svo um hríð þar til skyndilega að leikurinn berst út um allan heim. Hreyfingar eru frábrugðnar því sem jafnan þekkist í slíkum leikjum, og þannig er hægt að fara umhverfis, yfir eða inní ýmsa staði. Bardagar fara fram með töfrum og álögum sem gera þá einkar skemmtilega því styrkur hverrar persónu er frábrugðinn styrk annarra. Ýmist er hægt að kalla á ófreskjur sem legga manni lið, eða beita töfrakröftum á annan hátt. Bardagar eru reyndar með því skemmtilegasta í leiknum, svo vel eru þeir útfærðir og lausnir snjallar. Eitt af því sem gerir Final Fantasy VII glæsilegan er hversu vel heppnuð grafíkin í honum er. Hún er reyndar stórglæsileg og ef eitthvað er talsvert betri en í PlayStation-útgáfunni. Þar skiptir eðlilega miklu máli að tölvuskjárinn er svo miklu betri en sjónvarpsskjár, en einnig virðist sem eitthvað hafi verið flikkað uppá útlitið, að minnsta kosti á aðalpersónum, því umhverfið og bakgrunnar eru víða grófir. Eins og getið er byggist leikurinn á því að miða fram söguþræði og þó mikið sé að skoða er ekki hægt að fara nema fyrirfram ákveðnar leiðir. Óforvarandis getur viðkomandi síðan þurft að berjast við ólíklegustu ófreskjur. Það er reyndar eini gallinn, því iðulega er erfitt að átta sig á hver tilgangur orrustunnar sé, hvað þá að hægt sé að skilja hvers vegna einmitt var barist á þessum stað. Þetta ku víst vera alsiða í japönskum leikjum og eins gott að sætta sig við það strax að forlögin grípi inní hvað eftir annað. Að þessu frátöldu er ljóst að Final Fantasy VII er ekki síður skemmtilegur leikur fyrir PC-tölvur en var fyrir PlayStation og afsannar að ekki sé hægt að flytja leiki á milli svo vel sé.