ÓLAFUR Ólafsson landlæknir hefur ákveðið í samráði við heilbrigðisráðherra að fara til Noregs og Svíþjóðar og ræða við íslenska lækna sem þar eru við störf um hvort þeir séu tilbúnir til að koma heim og gegna lausum læknisstöðum á landsbyggðinni. Nú vantar 20 lækna til starfa á landsbyggðinni og segir Ólafur að staðan sé verri en hún hafi verið undanfarin ár.
20 lækna vantar til starfa á landsbyggðinni Landlæknir í viðræðum við lækna á Norðurlöndum

ÓLAFUR Ólafsson landlæknir hefur ákveðið í samráði við heilbrigðisráðherra að fara til Noregs og Svíþjóðar og ræða við íslenska lækna sem þar eru við störf um hvort þeir séu tilbúnir til að koma heim og gegna lausum læknisstöðum á landsbyggðinni. Nú vantar 20 lækna til starfa á landsbyggðinni og segir Ólafur að staðan sé verri en hún hafi verið undanfarin ár.

Ólafur sagði að mikið væri búið að reyna til að fá lækna til starfa í heilsugæslu á landsbyggðinni. Sú hugmynd hefði kviknað að fara sérstaka ferð til annarra Norðurlanda og ræða við íslenska lækna sem þar starfa um laus störf á Íslandi. Heilbrigðisráðherra styddi þessa tilraun eindregið. Ólafur sagðist ætla að kynna læknunum starfsaðstöðu á Íslandi og þær breytingar sem hefðu orðið í uppbyggingu heilsugæslunnar. Jafnframt myndi hann veita þeim upplýsingar um launakjör og fleira. Hann vildi einnig kynnast þeirra viðhorfum.

Ólafur sagði að nú væru 20 læknisstöður á landsbyggðinni lausar, sem væri 17-18% af öllum stöðum í heilsugæslu á landsbyggðinni. Hann sagði að á fyrstu árum sínum sem landlæknir fyrir aldarfjórðungi hefði mikill skortur verið á læknum, en með uppbyggingu heilsugæslunnar hefði tekist að bæta ástandið. Nú væri ástandið aftur að versna.

Los komst á lækna í kjaradeilunni 1996

Ólafur Oddsson, héraðslæknir á Norðurlandi eystra, sagði að tvo lækna vantaði í sínu umdæmi, þ.e.a.s í N-Þingeyjarsýslu. Hann sagðist vonast eftir að búið væri að leysa þetta mál til bráðabirgða fram til áramóta, en framtíðarlausn væri ekki í sjónmáli þrátt fyrir að mikið væri búið að leita að slíkri lausn.

Ólafur Oddsson sagði að í kjaradeilu ríkisins og heilsugæslulækna árið 1996 hefði komið nokkurt los á allmarga lækna á landsbyggðinni og nokkrir hefðu leitað eftir nýju starfi á höfuðborgarsvæðinu. Ekki hefði tekist að fá jafnmarga lækna til baka síðan. Hann sagði að talsvert væri búið að gera til að reyna að bæta starfsaðstæður lækna á landsbyggðinni. Áhugi væri á að sameina heilbrigðisstofnanir í meira mæli en þegar hefði verið gert, en með því móti yrðu læknar hluti af stærri heild og vaktabyrði lækna minnkaði.