Hitaveita Suðurnesja kaupir nýtt upplýsingakerfi HITAVEITA Suðurnesja og Tæknival hf. hafa undirritað samning um endurnýjun á viðskipta- og upplýsingakerfi fyrir alla orkusölu Hitaveitunnar. Umrætt kerfi, K+, er sænskt að uppruna, en er þýtt og aðlagað að íslenskum aðstæðum.
Hitaveita Suðurnesja

kaupir nýtt upplýsingakerfi

HITAVEITA Suðurnesja og Tæknival hf. hafa undirritað samning um endurnýjun á viðskipta- og upplýsingakerfi fyrir alla orkusölu Hitaveitunnar.

Umrætt kerfi, K+, er sænskt að uppruna, en er þýtt og aðlagað að íslenskum aðstæðum. Kerfið er öflugt upplýsingakerfi, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá Tæknivali, og bætir möguleika Hitaveitu Suðurnesja til markvissari og fjölbreyttari þjónustu við viðskiptavini. Meðal annars býður K+ upp á sveigjanlega gjaldskráruppbyggingu og setja má upp sérsamninga um orkukaup. K+ er hannað með grafískum notendaskilum fyrir Windows umhverfi.

Með samningi þessum bætist Hitaveita Suðurnesja í hóp þeirra stofnana sem áður hafa keypt kerfið, það er Rafmagnsveitna ríkisins og Rafmagnsveitu Reykjavíkur.

Stefnt er að gangsetningu hins nýja kerfis í febrúar á næsta ári.

FULLTRÚAR Tæknivals og Hitaveitu Suðurnesja, f.v. Rúnar Sigurðsson, Júlíus Jónsson, Sigríður Olgeirsdóttir, Rúnar Óskarsson, Arnar Sigurjónsson og Stefán Bjarnason.