Stöð214.20 Kanínuheiði (Watership Down, '78), er vönduð og vel viðunandi teiknimyndagerð frábærrar skáldsögu Richard Adams. Kanínusamfélag leitar sér nýrra heimkynna eftir að ein þeirra sér fyrir illa, óorðna hluti. Rödduð af breskum gæðaleikurum einsog John Hurt, Sir Ralph Richardson, Roy Kinnear og Denholm Elliott.


LAUGARDAGSMYNDIR SJÓNVARPSSTÖÐVANNA Stöð 2 14.20 Kanínuheiði (Watership Down, '78) , er vönduð og vel viðunandi teiknimyndagerð frábærrar skáldsögu Richard Adams. Kanínusamfélag leitar sér nýrra heimkynna eftir að ein þeirra sér fyrir illa, óorðna hluti. Rödduð af breskum gæðaleikurum einsog John Hurt, Sir Ralph Richardson, Roy Kinnear og Denholm Elliott. Stöð 2 21.05 Viktor, Viktoría (Victor, Victoria, '82) , er farsi um atvinnulausa söngkonu (Julie Andrews), sem bregður sér í hommahlutverk til að eiga fyrir salti í grautinn. Þá kemur ástin til sögunnar í líki karlrembunnar (James Garner). Hver kolgeggjuð upppákoman á fætur annarri, ósvikin afþreying og langbesta mynd hjónakornanna Andrews og leikstjórans Blakes Edward, og gæðaleikarans Roberts Preston. . Sýn 21.00 Laumuspil (The Heart of Justice, '93) , er sjónvarpsmynd sem IMDb gefur 6,7, og segir af blaðamanni sem rannsakar dularfull morð. Hvað sem öðru líður er margt góðra leikara; Dennis Hopper, Eric Stoltz, Jennifer Connally, Bradford Dillman og Williams H. Macy, auk gamla, góða Vincents Price í sínu síðasta hlutverki. Maltin segir myndina yfir meðallagi. Sjónvarpið 21.20 (Djöflaeyjan, '95) . Sjá umsögn í ramma. Sýn 22.30 Hún fær heila 7,3 í einkunn hjá notendum IMDb, hrollvekjan Djöflagangur (The Haunted, '91) . Byggð á sannri reynslu fjölskyldu í Pennsylvaníu, sem fékk fullt af árum með í kaupum á nýju húsi. Vænlegur leikhópur með Sally Kirkland í fararbroddi, leikstjórinn, Robert Mandel, er flinkur sjónvarpsmaður og Maltin telur myndina vel í meðallagi. Frumsýning. Sjónvarpið 23.05 (79 af stöðinni, '62) . Leigubílstjórinn Ragnar verður ástfanginn af ungri konu sem reynist vera í tygjum við hermann af Vellinum. Lýsir vel breytingartímum í lífi þjóðar þar sem sveitin stendur fyrir hið óspillta og góða en borgin er varasöm og herstöðin á Miðnesheiði spillingarvaldurinn í lífi persónanna. Stórvirki á sínum tíma, unnin í samvinnu við Dani, með íslenskum leikurum í öllum meginhlutverkum, sem taka sig misvel út í nýjum miðli. Það má líta á myndina sem óbeint framhald Lands og sona , báðar gerðar eftir sögum Indriða G. Þorsteinssonar. Stöð 2 23.30 Með bros á vör (Die Laughing (B.L. Striker), '89) . Frumsýning. Byggð í kringum einkaspæjarann Striker, sem Burt Reynolds gerði frægan á skjánum. Hann fer með aðalhutverkið og leikstýrir. Sjónvarpsmynd. Stöð 2 0.55 Skjólstæðingurinn (The Client, '94) er fínasta afþreying um 11 ára snáða með alríkislögguna og mafíuna á hælunum eftir að hann verður vitni að morði. Susan Sarandon er til hjálpar. Gerð eftir metsölubók Johns Grisham, með Tommy Lee Jones, og urmul fínna aukaleikara. Stöð 2 02.55 Réttdræpur (Shoot to Kill, '88) . Borgarlögga (Sidney Poitier) fær í lið með sér fjallagarp (Tom Berenger) í eltingaleik við morðingja sem heldur til óbyggða með gönguhópi undir leiðsögn kærustu hins síðarnefnda. Verulega góð afþreying sem markaði endurkomu Poitiers á hvíta tjaldið eftir áratugar hlé. Spennandi frásögn og góður stirðleiki á milli ólíkra aðalpersónanna í bland við mjög frambærilegan hasar eltingaleiksins og spennuatriði á fjallsbrúnum undir öruggri leikstjórn Spottiswoode. Öræfaþriller eins og þeir gerast bestir ­ ef ekki er kafað of djúpt í handritið. Sæbjörn Valdimarsson Börn braggahverfisins

Sjónvarpið 21.20 Djöflaeyjan , . MANNLÍFIÐ í braggahverfum borgarinnar á sjötta, framá sjöunda áratuginn, er yrkisefni Friðriks Þórs í Djöflaeyjunni , sem byggð er á metsölubókum Einars Kárasonar ­ sem jafnframt skrifar handritið. Börn þessara hverfa voru misjöfn einsog fólk er flest. Sumir komust til manns, aðrir höfnuðu í strætinu, líkt og sá sem aðalpersónan hér, Baddi (Baltasar Kormákur), er byggð á. Enda kampurinn líklegri til þeirra uppeldisáhrifa en mannræktar. Utan hverfisins mættu íbúarnir ósjaldan fordómum, einkum börn og unglingar sem ósjaldan brotnuðu saman eða brynjuðu sig inní skel, urðu harðir naglar. Hjarta Thúlekampsins ­ og myndarinnar ­ er "stóribragginn", aðsetur aðalpersónanna. Sá sem allt snýst um er Baddi, töffari og auðnuleysingi sem heldur til Vesturheims í kjölfar móður sinnar, heldur til baka, "ameríkaniseraður" mjög. Snýr heimilislífinu í stórabragganum í martröð. Hnignun og fall Badda er sterkasti þátturinn í Djöflaeyjunni , en í kringum hann hópur eftirminnilegra persóna og atvika. Með frábæru umhverfi, búningum, tónlist og texta, skapast afar sérstætt andrúmsloft, oftast gráglettið, jafnvel meinfyndið, þó tregafullt í bland. Myndin er vel lukkaður heimur útaf fyrir sig, sérkennilegur og persónulegur. Þeir eru sem skapaðir til samvinnu, Einar og Friðrik, þegar kemur að hversdagslífi undirmálsmanna og tekst svo sannarlega að draga fram broslegri hliðarnar á lífi í volæði og skrautlegar persónur, sem eru meginstyrkur myndarinnar. Ein aðalstjarnan er leikmynd Árna Páls Jóhanssonar, ein sú besta í íslenskri kvikmyndasögu. Handrit Einars Kárasonar er fyndið og líflegt, maður sér þó eftir nokkrum atburðum. Af leikurunum ber mest á Baltasar Kormáki. Hann er tæpast nógu fólslegur né grimmur til að byrja með, en sækir í sig veðrið og kemst vel frá Badda þegar á heildina er litið. Gísli heitinn Halldórsson er ómissandi burðarás sem fyrr í myndum Friðriks og Sigurveig Jónsdóttir lífgar heil ósköp uppá Djöflaeyjuna sem hin krossbölvandi Karólína. Önnur hlutverk eru vel mönnuð.