HIÐ glæsilega safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju Strandberg er nú fullbyggt eftir að meginsalarkynni þess Hásalir hafa verið innréttaðir, aðeins er nú eftir að búa heimilið betur húsgögnum auk þess sem sérstök hljóðsogsklæði verða sett upp í Hásölum á aðventunni til þess að stýra hljómburði. Kapella safnaðarheimilisins var vígt fyrir 3 árum og hluti þess þá tekinn í notkun.
Safnaðarstarf

Blessun Hásala Strandbergs

HIÐ glæsilega safnaðarheimili Hafnarfjarðarkirkju Strandberg er nú fullbyggt eftir að meginsalarkynni þess Hásalir hafa verið innréttaðir, aðeins er nú eftir að búa heimilið betur húsgögnum auk þess sem sérstök hljóðsogsklæði verða sett upp í Hásölum á aðventunni til þess að stýra hljómburði. Kapella safnaðarheimilisins var vígt fyrir 3 árum og hluti þess þá tekinn í notkun. Aðstaða til safnaðarstarfs á vegum Hafnarfjarðarkirkju er nú orðin eins og best verður á kosið og unnið að því markvisst að gera það bæði fjölbreytt og blessunarríkt.

Herra Karl Sigurbjörnsson, biskup Íslands, mun blessa Hásali Strandbergs eftir kvöldmessu í Hafnarfjarðarkirkju sunnudaginn 27. september, sem hefst kl. 20.30. Herra Karl mun prédika í messunni og prestar kirkjunnar þjóna fyrir altari. Dr. Sigurbjörn Einarsson biskup mun flytja helgunarbæn í Hásölum og forystumenn safnaðarins lesa ritningarorð. Eftir helgistundina býður Kvenfélag kirkjunnar til kirkjukaffis í hinum nýju salarkynnum og safnaðarheimilið verður til sýnis. Skóflustungur voru teknar að byggingum safnaðarheimilisins og Tónlistarskóla Hafnarfjarðar sem samtengdur er því 12. september fyrir 6 árum eftir að dr. Sigurbjörn Einarsson biskup hafði blessað byggingarreitinn. Þessar byggingar eru reistar eftir fyrstu verðlaunateikningum arkitektanna og hjónanna Sigríðar Magnúsdóttur og Hans Olav Andersen og hafa vekið athygli fyrir sérstæð form og listrænt yfirbragð.

Prestar Hafnarfjarðarkirkju.

Fríkirkjan í Reykjavík á tímamótum

Á NÆSTA ári verða hundrað ár liðin frá stofnun Fríkirkjusafnaðarins í Reykjavík. Þeirra merku tímamóta mun söfnuðurinn minnast með viðeigangandi hætti bæði á næsta ári svo og árið 2000.

Tímamót eru tími endurskoðunar og uppgjörs bæði hið ytra og innra. Kirkjubyggingin við tjarnarbakkann er eitt helsta höfuðprýði miðborgarinnar enda saga Fríkirkjunnar svo samofin mótunarsögu Reykjavíkurborgar að ekki verður þar sundur greint.

Endurnýjun á ytra byrði kirkjubyggingarinnar er að mestu lokið. Framundan er endurnýjun á innra byrði kirkjuhússins og munu framkvæmdir fara fram í vetur þ.e.a.s. í okt. og nóv. mánuðum og síðan í jan. og feb. í upphafi næsta árs. Í desember verður hlé gert á framkvæmdum og kirkjan notuð til helgihalds. Ætlunin er að kirkjan muni skarta sínu fegursta á vormánuðum afmælisárið 1999.

Framkvæmdirnar valda óneitanlega vissri röskun á helgihaldi safnaðarins en gefa um leið tilefni til tilrauna og nýjunga í starfi, þar sem flestir þættir verða teknir til endurskoðunar.

Síðastliðna mánuði hefur orðið töuverð aukning í kirkjusókn og einnig hefur kirkjulegum athöfnum fjölgað.

Guðsþjónustur verða áfram hvern helgan dag. Nú sunnudaginn 27. sept. verður fjölskylduguðsþjónusta kl. 11.00 fyrir hádegi. Predikunarefni verður; Hvað er það að vera kirkja?

Fyrrihluti guðsþjónustunnar verður á léttu nótunum og við hæfi barna sem fullorðinna. En þegar kemur að predikun verður börnum fylgt yfir í Safnaðarheimilið þar sem dagskrá verður við þeirra hæfi en hinir fullorðnu taka áfram þátt í helgri guðsþjónustu. Síðan sameinast allir í guðsþjónustulok í kirkju kaffi og spjalli í safnaðarsal. Að loknu kirkjukaffi veður síðan gengið niður að tjörn og fuglunum gefið brauð en það hefur um árabil verið ómissandi þáttur í barnastarfinu. Fjölskylduguðsþjónustur verða síðan einu sinni í mánuði kl. 11.00.

Í október og nóvember og í janúar og febrúar á næsta ári verða guðsþjónustur haldnar í Safnaðarheimili Fríkirkjunnar, rétt ofan við kirkjuna að Laufásvegi 13. Hefðbundnar guðsþjónustur verða eins og áður kl. 14.00 að undanskildum þeim dögum sem fjölskylduguðsþjónustur verða.

Barnaguðsþjónustur verða kl.11.00 annan hvern sunnudag frá og með 27. sept.

Þegar er einu námskeiði lokið í Fermingarskóla Fríkirkjunnar en enn er verið að skrá börn til þátttöku í vetrar- eða vornámskeiðum, svo og í ferðalag. En fermingargjöld eru engin innan Fríkirkjunnar.

Í vetur verður efnt til fræðslukvölda og málþings um fríkirkjuhugsjónina. Dagsetningar verða auglýstar síðar.

Kvenfélag Fríkirkjunnar er rótgróið félag sem á sér merka sögu. Það er eitt af elstu kirkjukvenfélögum á landinu og hefur gefið kirkjunni flesta hennar dýrmætustu gripi. Kvenfélagið fundar fyrsta fimmtudag í hverjum mánuði og verður næsti fundur þess í Safnaðarheimilinu fyrsta október næstkomandi kl. 19.30. Formaður kvenfélagsins er Ágústa Sigurjónsdóttir.

Einnig er starfandi Bræðrafélag Fríkirkjunnar og á það sér líka merka sögu. Bræðrafélagið fundar laugardaginn 17. okt. kl. 12.00 og síðan laugardaginn 14. nóv. í hádeginu þar sem safnaðarprestur mun flytja erindi um fríkirkjuhugsjónina. Formaður Bræðrafélagsins er Ragnar Bernburg.

Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í mótun og uppbyggingu lifandi framtíðarstarfs í stórum, frjálsum og lýðræðislegum lútherskum söfnuði, í hjarta borgarinnar, hafi samband við safnaðarprest sem allra fyrst.

Allar ferskar hugmyndir eru vel þegnar. Símar safnaðarprests eru 552 7270 og 553 9105.

Tölvupóstfang safnaðarprests er; hjörturm Þ ismennt.is

Hjörtur Magni Jóhannsson,

safnaðarprestur.

Vetrarstarf Seltjarnarneskirkju

NÚ ER vetrarstarfið í Seltjarnarneskirkju komið á fullt skrið. Sumarið er búið að vera yndislegt og nú mætum við öll í kirkjuna okkar endurnærð og full af orku til góðra starfa.

Messur eru alla sunnudaga kl. 11. Barnastarfið fer fram á sama tíma og eru börnin með í messunum fram að prédikun, en fara þá með leiðtogum sínum í safnaðarheimilið. Farið er í nýtt fræðsluefni með börnunum og svo koma Mýsla og Músapési í heimsókn. Fræðsluerindi verða haldin eftir messu fyrsta sunnudag í október, nóvember, febrúar, mars og apríl. Þá verður og boðið upp á léttan hádegisvereð. Fræðsluerindin verða auglýst nánar þegar nær dregur.

Starf fyrir 9-10 ára verða á fimmtudögum kl. 17 og fyrir 11-12 ára á miðvikudögum á sama tíma.

Æskulýðsfundir fyrir 8.-9. bekk verða á þriðjudagskvöldum kl. 20 og starf fyrir 9. og 10. bekk verða á sunnudagskvöldum kl. 20. Annað hvert fimmtudagskvöld kl. 20 verður síðan boðið upp á starf fyrir þau sem lokið hafa 10. bekk og hafa haldið í framhaldsskóla eða valið vinnumarkaðinn.

Foreldramorgnar eru alltaf jafnvinsælir og verða eins og mörg undanfarin ár á þriðjudagsmorgnum kl. 10. Við munum fá til okkar fyrirlesara á þessa fundi einu sinni í mánuði.

Kyrrðarstundir verða í kirkjunni á miðvikudögum kl. 12. Það er gott að staldra við í dagsins önn, setjast inn í kyrrðina og eiga stund með sjálfum sér og Guði. Kyrrðarstundir í hádeginu eru að verða sívinsælli og er alltaf mikið um fyrirbænaefni sem berast bæði fyrir stundina og á stundinni sjálfri. Þannig er kirkjan athvarf bæði fyrir þá sem sækjast eftir kyrrð og friði en einnig vettvangur til að gleðjast saman og njóta samfélags við Guð og hvert annað. Boðið er upp á hádegisverð á vægu verði í beinu framhaldi af stundinni.

Helgistundir fyrir aldraða á Seltjarnarnesi verða á fimmtudögum í íbúðum aldraðra og fyrsta þriðjudag hvers mánaðar verður samvera fyrir aldraða í kirkjunni. Samveran hefst á helgistund og síðan er boðið upp á fræðsluerindi yfir hádegisverði.

Það er ósk okkar að Seltirningar verði duglegir að muna eftir kirkjunni sinni og auðga hana með nærveru sinni. Sjáumst í kirkjunni.

Starfsfólk Seltjarnarneskirkju.

Poppguðsþjónusta

POPPGUÐSÞJÓNUSTA verður í Grafarvogskirkjuu sunnudagskvöldið 27. september kl. 20.30.

Helgihaldið og tónlistarflutningur verður með öðrum hætti en í venjulegum guðsþjónustum.

Sr. Sigurður Arnarson prédikar og þjónar fyrir altari. Tónlist flutt af ungum mönnum úr KFUM. Félagar úr Æskulýðsfélagi kirkjunnar lesa ritningarlestra og fara með bænir.

Fermingarbörn og foreldrar þeirra eru hvött til að koma, en auðvitað eru allir hjartanlega velkomnir.



KEFAS, Dalvegi 24, Kópavogi. Almenn samkoma kl. 14. Allir hjartanlega velkomnir.

KFUM og KFUK v/Holtaveg: Samkoma verður haldin í aðalstöðvum félaganna á morgun sunnudag kl. 17. Samkoman er tileinkuð upphafi vetrarstarfsins í barna- og unglingadeildum. Leiðtogar hvattir til að koma og taka þátt í samkomunni. Kynning á æskulýðsstarfinu í vetur: Gyða Karlsdóttir æskulýðsfulltrúi. Hljómsveitin "Ofur-Baldur" leikur tvö til þrjú lög. Hugvekja: Helgi Gíslason æskulýðsfulltrúi. Barnagæsla- og fræðsla á meðan á samkomu stendur. Leiðtogum boðið í léttan kvöldverð að samkomu lokinni. Allir velkomnir.

Safnaðarheimilið Sandgerði: Barnastarf hefst í safnaðarheimilinu í Sandgerði á morgun kl. 11.

Útskálakirkja. Barnastarf hefst á morgun kl. 13.30.

Hafnarfjarðarkirkja.