Sveitasöngsverðlaunin 1998 HIN ÁRLEGU verðlaun sveitasöngvara voru veitt í Nashville 23. september síðastliðinn og er það í 32. skipti sem verðlaunin eru veitt. Söngvarinn Garth Brooks náði þar í titilinn "Skemmtikraftur ársins" í fjórða skipti, sem verður að teljast góður árangur.
Sveitasöngsverðlaunin 1998

HIN ÁRLEGU verðlaun sveitasöngvara voru veitt í Nashville 23. september síðastliðinn og er það í 32. skipti sem verðlaunin eru veitt. Söngvarinn Garth Brooks náði þar í titilinn "Skemmtikraftur ársins" í fjórða skipti, sem verður að teljast góður árangur. Hann var þó fjarri góðu gamni, þar sem hann var staddur í Buffalo í New York-fylki við tónleikahald. Hann söng þó ásamt Trishu Yearwood hið geðþekka lag "Much Too Young to Feel This Damn Old" í gegnum myndsímann gestum til óblandinnar ánægju.

George Strait, sveitasöngvari frá Texas, var valinn karlsöngvari ársins, og er það í fimmta skipti sem honum hlotnast sá heiður. Fremst í flokki söngkvenna var Trisha Yearwood, en hún var einnig valin besta söngkonan í fyrra. Tvenn verðlaun fóru til kvennasveitarinnar Dixie Chicks, en þær fengu verðlaun fyrir að vera besti söngflokkur ársins og bjartasta vonin.

Steve Wariner hlaut einnig tvenn verðlaun, fyrir bestu smáskífuna og lag hans "Holes in the Floor of Heaven" var einnig valið besta lag ársins. Brooks & Dunn voru valdir besta tvíeykið í sveitatónlist, en það er í sjöunda skipti í röð sem þeir vinna þann titil, en þeir hafa selt meira en 17 milljónir breiðskífna.

Tim McGraw hlaut verðlaun fyrir bestu breiðskífu ársins, "Everywhere", og fóru fleiri verðlaun til fjölskyldu hans því konan hans, Faith Hill, vann verðlaun fyrir besta tónlistarmyndband ársins. Hin ástlausa Patty, eða Patty Loveless, vann verðlaun fyrir besta sönginn í stöku lagi fyrir lag sitt "You Don't Seem to Miss Me", en hún söng það með söngvaranum George Jones. Brett Mason gítarleikari var valinn besti hljóðfæraleikari ársins.

Að auki voru látnir listamenn úr heimi sveitatónlistar heiðraðir og meðal annarra var söngkonan Tammy Wynette valin í Frægðarsal sveitatónlistar, eða Country Music Hall of Fame.

PATTY Loveless ánægð með sín verðlaun.

GEORGE Strait vígalegur með kúrekahattinn.

TIM McGraw hampar hér verðlaunum fyrir bestu breiðskífuna.

STEVE Wariner með besta lagið og bestu smáskífuna.

DIXIE Chicks voru besti söngflokkur ársins og bjartasta vonin.

BROOKS & Dunn besta tvíeyki sveitatónlistar 1998.