WIENER Volksoper, annað stærsta óperuhúsið í höfuðborg tónlistarinnar, Vínarborg, verður aldargamalt í vetur. Af því tilefni verður ráðist í uppfærslu á Meistarasöngvurunum frá Nürnberg eftir Richard Wagner og meðal aðalsöngvara verður ungur íslenskur bassasöngvari, Bjarni Thor Kristinsson. Frumsýning er fyrirhuguð í desember.
MEÐ WAGNER

Á VÖRUM

Bjarni Thor Kristinsson, bassasöngvari við Wiener Volksoper, mun syngja eitt af burðarhlutverkunum í sýningu á óperu Wagners, Meistarasöngvurunum frá Nürnberg, sem færð verður upp í tilefni af 100 ára afmæli hússins í vetur. ORRI PÁLL ORMARSSON sló á þráðinn til Bjarna sem hefur fengið lofsamlega dóma fyrir frammistöðu sína í sýningum Wiener Volksoper til þessa.

WIENER Volksoper, annað stærsta óperuhúsið í höfuðborg tónlistarinnar, Vínarborg, verður aldargamalt í vetur. Af því tilefni verður ráðist í uppfærslu á Meistarasöngvurunum frá Nürnberg eftir Richard Wagner og meðal aðalsöngvara verður ungur íslenskur bassasöngvari, Bjarni Thor Kristinsson. Frumsýning er fyrirhuguð í desember.

Bjarni segir Wiener Volksoper sjaldan ráðast í sýningar af þessari stærðargráðu en húsið er einkum þekkt fyrir að færa upp óperettur og óperur í léttari kantinum. "Ástæðan fyrir því er sú að Wiener Volksoper er fyrst og fremst hugsuð fyrir íbúa Austurríkis meðan Vínaróperan hefur alþjóðlegra yfirbragð. Einstaka sinnum fæst húsið þó við stærri verk, eins og Boris Godunow eftir Mussorgsky og Fást eftir Gounod, sem bæði hafa verið á fjölunum nýlega. Meistarasöngvararnir eru hins vegar óneitanlega bitastæðasta verkið sem það tekur upp á sína arma í langan tíma."

Sýningin á Meistarasöngvurunum verður um margt frábrugðin hefðbundnum uppfærslum í Wiener Volksoper. Þannig verða allir aðalsöngvarar, að Bjarna undanskildum, aðkeyptir en fyrir því eru fá dæmi í starfsemi hússins. "Wiener Volksoper er sennilega eitt stærsta óperuhús í Evrópu sem setur nær eingöngu upp sýningar með söngvurum sem eru fastráðnir við húsið. Algengast er að hús fái utanaðkomandi stjörnur til að syngja aðalhlutverkin og þannig er því til dæmis yfirleitt háttað í Vínaróperunni. Nú ætlar Wiener Volksoper sem sagt að hafa þennan háttinn á ­ í tilefni aldarafmælisins."

Bjarni segir það mikla upphefð fyrir sig að fá úthlutað einu af aðalhlutverkunum í sýningunni, hlutverki Veits Pogners, ekki síst þar sem hann sé eini fastráðni söngvari hússins sem komi til með að verða svo framarlega í flokki. "Í þessari sýningu eru kallaðir til menn á heimsmælikvarða, nefni ég þar bassabarítonsöngvarann Falk Struckmann, einn helsta Wagner-söngvarann í þessum raddflokki í heiminum í dag, og tenórsöngvarann Johan Botha. Húsið veitir sér sjaldan svona söngvara, þannig að mér er mikið traust sýnt með því að fá að syngja á móti þeim."

Sveltur niður í 130 kg

Bjarni hlakkar mikið til að vinna með þessum mönnum. Struckmann þekkir hann ekki en hefur séð Botha syngja á sviði. "Það er tilkomumikil sjón! Ég sá hann syngja í Fidelio eftir Beethoven og gat reyndar ekki varist brosi í upphafi sýningar. Ástæðan er sú að Botha fer með hlutverk manns sem hefur verið sveltur í fangelsi svo mánuðum skiptir, sem er í sjálfu sér ekkert svo merkilegt, nema hvað Botha er í breiðari kantinum, að minnsta kosti 130 kg að þyngd. Einhverra hluta vegna átti maður erfitt með að trúa því að hann hefði verið í svelti! Þegar hann byrjaði að syngja gleymdist það aftur á móti fljótt."

Svo vill til að óperuunnendur í Vínarborg hafa sumir hverjir tekið feil á Bjarna og Botha á götu. "Það er í sjálfu sér ekkert að því nema kannski að ég tel mig vera allavega þremur þyngdarflokkum léttari en hann!"

Í sýningunni mun Bjarni leika tilvonandi tengdaföður Bothas og kveðst ekki geta annað en brosað við tilhugsunina. "Það er frekar sjaldgæft að bassasöngvarar takist hlutverk Veits Pogners á hendur svona ungir og það er óneitanlega sérkennileg tilfinning að leika föður sópransöngkonunnar og tengdaföður tenórsöngvarans, sem eru bæði nokkuð eldri en ég. Það kemur þó vonandi ekki að sök."

Leikstjóri sýningarinnar, Þjóðverjinn Christine Mielitz, er þekkt fyrir allt annað en fara hefðbundnar leiðir í uppfærslum sínum. Bjarni á því von á sterkum viðbrögðum.

Jafnframt því að syngja Veit Pogner mun Bjarni fara með tvö önnur hlutverk í Wiener Volksoper í vetur, Leporello í Don Giovanni eftir Mozart og John Falstaff í Kátu konunum frá Windsor eftir Nicolai. Báðar sýningarnar eru teknar upp frá fyrra leikári.

Bjarni kom fyrst að Wiener Volksoper sem gestasöngvari vorið 1997, meðan hann var enn í framhaldsnámi, en frá og með síðasta hausti hefur hann verið fastráðinn við húsið. Samningurinn gildir til vors 1999. Unir hann hag sínum vel í Vínarborg.

"Hér er fínt að vera. Ég hef líka verið heppinn. Ungir söngvarar við hús sem þetta eru margir hverjir áþekkir að gæðum, þannig að það þarf heppni til að lenda réttum megin við línuna. Það hef ég gert ­ verkefnin sem mér hefur verið úthlutað eru þau sömu og ég hefði valið sjálfur. Það er ég virkilega ánægður með."

Njóta þess besta úr báðum heimum

Bjarni segir Wiener Volksoper aukinheldur henta ungum söngvurum ákaflega vel ­ við húsið njóti þeir hins besta úr báðum heimum. "Fyrir unga söngvara eru tvær leiðir færar. Annars vegar að krækja í aukahlutverk í stóru húsunum og reyna að vinna sig upp og hins vegar að komast að hjá litlu húsi, þar sem þeir fá tækifæri til að spreyta sig í stórum hlutverkum. Wiener Volksoper sameinar eiginlega báða kosti. Í fyrsta lagi er húsið stórt, tekur um 1.400 áhorfendur í sæti og telst til stærri húsa í Evrópu, og í annan stað fá ungir söngvarar tækifæri til að syngja aðalhlutverk, þar sem húsið veitir sér sjaldan gestasöngvara."

Bjarni tók þátt í tveimur frumsýningum í Wiener Volksoper á liðnu leikári, annars vegar söng hann hlutverk Zettels í Draumi á Jónsmessunótt eftir Britten og hins vegar hlutverk Pímins í Boris Godunow eftir Mussorgsky. Fékk hann lofsamlega dóma í blöðum fyrir hvort tveggja. "Ungur Íslendingur, Bjarni Thor Kristinsson, fer á kostum sem Zettel," sagði í einum dómi um Draum á Jónsmessunótt og "raddgæði hans eru á heimsmælikvarða og túlkunin vekur miklar vonir," sagði í öðrum. Um frammistöðu Bjarna í hlutverki Pímens sagði á einum stað: "Enn og aftur skarar Bjarni Thor Kristinsson framúr öðrum einsöngvurum." Og í öðrum dómi sagði: "Bjarni Thor Kristinsson söng Pímen með sinni sérstaklega fögru og hljómmiklu bassarödd."

Af öðrum hlutverkum sem Bjarni söng í fyrra má nefna Sarastó í Töfraflautunni, Bartóló í Brúðkaupi Fígarós, höfuðsmanninn í Don Giovanni, en allar eru þessar óperur eftir Mozart, og van Bett í óperettunni Zar und Zimmermann eftir Lorzig, sem er eitt stærsta hlutverkið á hans raddsviði.

Bar ekki kennsl á sendiherrann

Síðastnefnda hlutverkið söng Bjarni líka einu sinni í Staatsoper unter den Linden í Berlín ­ við nokkuð sérstæðar aðstæður. "Þannig var að bassasöngvarinn þeirra veiktist og ég var beðinn um að hlaupa í skarðið á einni sýningu. Þetta var á laugardegi en sýningin átti að vera á sunnudegi. Ekkert mál, sagði ég, enda heiður að fá að syngja í þessu húsi, og bað þá um að senda mér símbréf með samtalssenunum í sýningunni sem þeir og gerðu. Þegar ég fékk bréfið í hendur runnu hins vegar á mig tvær grímur ­ þetta var greinilega allt önnur uppfærsla en í Wiener Volksoper, allt annar texti. Það var hins vegar ekki aftur snúið og morguninn eftir flaug ég til Berlínar. Tveimur tímum fyrir sýningu kom ég svo í óperuna, þar sem ég fékk stutta æfingu með aðstoðarleikstjóranum, var kynntur fyrir samsöngvurunum og mátaður á mig búningur og skalli. Síðan hófst sýningin."

Bjarni segir sýninguna hafa gengið vonum framar ­ miðað við aðstæður. "Nokkrum sinnum komst ég þó í hann krappann, sérstaklega í mannmargri senu þar sem ég átti að ganga að franska sendiherranum og saka hann um að vera annar en hann er. Vandamálið var nefnilega að ég hafði ekki hugmynd um hvaða söngvari var franski sendiherrann! Til allrar hamingju gat ég snúið mér að konu í kórnum, svo lítið bar á, og beðið hana að upplýsa mig. Þetta var mikið ævintýri ­ en ekki vildi ég gera þetta um hverja helgi!"

Húsbændur í Staatsoper unter den Linden hafa greinilega kunnað að meta framlag Bjarna því í framhaldi af þessari óvenjulegu sýningu buðu þeir honum að syngja annað hlutverk við húsið, í uppfærslu á Salome í febrúar og mars 1999. Áhættan getur því borgað sig!

BJARNI Thor Kristinsson í hlutverki Bartólós í Brúðkaupi Fígarós eftir Mozart í Wiener Volksoper á liðnu leikári.

PÍMEN ræðir við Boris og Schuiskij í Boris Godunow. Bjarni Thor, Egil Silins og Kurt Schreibmayer í hlutverkum sínum.