DAVID Trimble, forsætisráðherra á N-Írlandi og leiðtogi stærsta flokks mótmælenda (UUP), var í gær gagnrýndur af aðstoðarforsætisráðherra sínum Seamus Mallon, sem er varaleiðtogi flokks hófsamra kaþólikka (SDLP), fyrir að standa í vegi fyrir því að ríkisstjórn taki til starfa.
Trimble enn gagnrýndur

DAVID Trimble, forsætisráðherra á N-Írlandi og leiðtogi stærsta flokks mótmælenda (UUP), var í gær gagnrýndur af aðstoðarforsætisráðherra sínum Seamus Mallon, sem er varaleiðtogi flokks hófsamra kaþólikka (SDLP), fyrir að standa í vegi fyrir því að ríkisstjórn taki til starfa.

Valda orð Mallons enn meiri áhyggjum en ummæli Gerrys Adams, leiðtoga Sinn Féin, í sama dúr fyrr í vikunni, enda hefur samstarf Mallons og Trimbles þótt með ágætum og báðir eru þeir fulltrúar hófsamari aflanna á N-Írlandi.

Mallon sagði í viðtali við The Irish News í gær að ekki væri hægt að hrinda öðrum ákvæðum Belfast-samkomulagsins frá páskum í framkvæmd fyrr en stjórn hefði verið skipuð, stjórnmálamenn á N-Írlandi gætu ekki ákveðið að hrinda einungis í framkvæmd þeim ákvæðum sem þeim líkaði persónulega vel við. Sambandssinnar hafa ítrekað krafist þess að IRA hefji afvopnun áður en ríkisstjórn tekur til starfa með aðild Sinn Féin.

Trimble á nú undir högg að sækja frá báðum áttum því á miðvikudag gerðu sambandssinnar í hans eigin kjördæmi að honum aðsúg er hann átti fund með leiðtogum Óraníureglunnar í Portadown. Finnst þeim, andstætt Adams og nú Mallon, sem Trimble hafi gengið of langt í samkomulagsátt við kaþólikka.