NEFND heilbrigðisráðuneytisins sem samið hefur drög að frumvarpi um lífsýnasöfn vill koma á framfæri athugasemdum vegna þess sem haft er eftir Guðmundi Björnssyni, formanni Læknafélags Íslands, í Ríkisútvarpinu að morgni 23. september sl., að stjórnsýsla við undirbúning frumvarps til laga um lífsýnasöfn sé "með endemum" og að viðhöfð séu óvenjuleg vinnubrögð við smíði frumvarpsins.
Myrkraverk? Mikilvægir hagsmunaaðilar í sambandi við lífsýnasöfn eru lífsýnagjafar og almenningur, segir Ragnheiður Haraldsdóttir , og er frumvarpinu ætlað að tryggja hag þeirra.

NEFND heilbrigðisráðuneytisins sem samið hefur drög að frumvarpi um lífsýnasöfn vill koma á framfæri athugasemdum vegna þess sem haft er eftir Guðmundi Björnssyni, formanni Læknafélags Íslands, í Ríkisútvarpinu að morgni 23. september sl., að stjórnsýsla við undirbúning frumvarps til laga um lífsýnasöfn sé "með endemum" og að viðhöfð séu óvenjuleg vinnubrögð við smíði frumvarpsins.

Í fréttinni segir m.a.: "Undirbúningur þessa máls er alveg með ólíkindum í raun og veru og okkur finnst að þessi vinna hafi verið unnin hálfpartinn í skjóli myrkurs og þeim aðilum sem að til þess væru bærir, hagsmunaaðilum, að fjalla um þetta og gefa sérfræðiumsagnir að þeir hafi ekki fengið að gera það á formlegan hátt." Aðferð stjórnvalda að leggja fyrst fram frumvarp á þingi og óska svo umsagnar segir Guðmundur slæma. "Okkur finnst þetta eins og í Villta vestrinu, það er skotið fyrst og spurt svo." Og formaðurinn segist aldrei hafa kynnst svona vinnubrögðum áður í stjórnsýslunni. Venjan sé að gefa rúman frest fyrir sérfræðiálit, tekið sé tillit til athugasemda og vandaðar umsagnir samdar um flókin frumvörp. Svo sé ekki nú.

Fyrir hönd ofangreindrar nefndar vill undirrituð mótmæla framangreindum fullyrðingum með því að koma á framfæri eftirfarandi upplýsingum.

Almennt um smíði lagafrumvarpa

Hvorki eru í gildi sérstök lagaákvæði né stjórnvaldsfyrirmæli um samningu frumvarpa til laga sem lögð eru fram á Alþingi. Aðferðir við undirbúning þingmála og smíði frumvarpa eru margvíslegar og fara yfirleitt eftir efni þeirra. Algengast er að frumvörp séu samin af ráðuneytum og af sérfræðingum innan þeirra, en auk þess eru árlega lögð fram á Alþingi frumvörp sem samin eru á vegum þingmanna, eins eða fleiri, auk þess sem dæmi eru um að fastanefndir Alþingis leggi fram frumvörp. Flest frumvörp eru þó samin af ráðuneytum og við þá vinnu er oftast leitað aðstoðar og/eða álits utanaðkomandi sérfræðinga. Í sumum tilvikum eru drög að frumvörpum send út til umsagnar beint frá ráðuneytum, en fullyrða má að algengara er að þau séu fyrst send út til formlegra, almennra umsagna þegar þau hafa verið lögð fram á Alþingi. Þetta er hins vegar alfarið mat þess, er leggur frumvarp fram. Þegar lagafrumvarp hefur verið lagt fyrir Alþingi er það á forræði þess eða þingnefndar, hvort senda skuli frumvarp til umsagnar. Umsagnir eru svo sendar Alþingi.

Samráð við hagsmunaaðila

Mikilvægir hagsmunaaðilar í sambandi við lífsýnasöfn eru lífsýnagjafar og almenningur, og er frumvarpinu ætlað að tryggja hag þeirra. Að áliti nefndarinnar er mikilvægt að læknar komi að vinnu við undirbúning lagafrumvarps um lífsýni. Þetta var tryggt með margvíslegum hætti, eins og eftirfarandi sannar. Fjórir læknar sátu í nefnd um gerð frumvarpsins, þar af tveir sem starfa á því sviði sem hér um ræðir; sérfræðingur á Rannsóknastofu Háskólans í meinafræði og forstöðulæknir Blóðbankans. Mikil vinna var innt af hendi í nefndinni, ekki síst af hálfu þessara tveggja sérfræðinga. Um tuttugu læknar (auk annarra) voru kallaðir á fundi nefndarinnar, og tókst að fá fulltrúa margra þeirra sjónarmiða sem komið geta til álita við lífsýnasöfn. Þeir læknar er komu á fund nefndarinnar eru sérfræðingar á mörgum sviðum og í hópi þeirra eru forsvarsmenn allra stærstu lífsýnasafna hér á landi. Voru fundirnir afar fróðlegir og gagnlegir og nýttust vel í vinnu nefndarinnar. Síðan var boðað til sameiginlegs fundar nefndarinnar með flestum þeirra sérfræðinga, sem höfðu lagt lið með einhverju móti, þar sem frumvarpsdrögin voru kynnt og hvatt til athugasemda. Var fundurinn gagnlegur. Öllum þessum læknum var gert ljóst að unnið væri að gerð frumvarps um lífsýni og að þeir hefðu tækifæri til að koma á framfæri skoðunum sínum og hvers kyns athugasemdum. Sérstaklega var tekið fram af ráðuneytisins hálfu á fundinum að það biði Alþingis að leita eftir formlegum umsögnum.

Læknafélag og löggjafarvald

Meðal þeirra, sem boðaðir voru á fund nefndarinnar og kynnt að verið væri að vinna þessi frumvarpsdrög, voru Guðmundur Björnsson, formaður Læknafélags Íslands, sem vitnað er til hér að ofan, og Jón G. Snædal, varaformaður. Á fundinum var fulltrúum Læknafélagsins gerð grein fyrir vinnu nefndarinnar og þeir inntir eftir, hver væru helstu álitamálin í þessu sambandi. Töldu nefndarmenn fundinn góðan og ábendingar félagsins þarfar. Ekki var rætt um að Læknafélagið teldi sig eiga kröfu á að fá frumvarpið í hendur áður en það væri kynnt ríkisstjórn, þingflokkum eða heilbrigðis- og trygginganefnd.

Undirbúningur og aðdragandi

Ýmis álitamál sem tengjast lífsýnum voru til umræðu með skipulögðum hætti í Siðaráði Landlæknis frá vorinu 1996. Haustið 1997 ákvað Siðaráðið að setja niður skoðanir ráðsins á helstu álitamálunum í formi lagatexta, sem síðan var komið til ráðuneytisins til umfjöllunar. Siðaráðið hafði áður kynnt sér hvernig málum væri fyrirkomið hér á landi. Reyndist þessi undirbúningsvinna Siðaráðsins svo gagnleg, að grunnhugmyndirnar eru enn óbreyttar frá drögum Siðaráðsins. Ekki hefur því verið kastað til höndum.

Framhaldið

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra hyggst leggja fram frumvarp til laga um lífsýnasöfn nú á haustþingi, og gefast þá væntanlega bæði tími og tækifæri fyrir alla er málið varðar að koma á framfæri athugasemdum sínum. Ekki verður séð að nein þörf sé fyrir hraða umfjöllun um þetta frumvarp, en það er að sjálfsögðu Alþingis að meta það. Undirrituð er fullviss um að Læknafélag Íslands mun síðar fjalla með vönduðum hætti um frumvarpið.

Höfundur er skrifstofustjóri í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Ragnheiður Haraldsdóttir