YFIRVÖLD í Malasíu tilkynntu í gær að andófsmaðurinn Anwar Ibrahim, fyrrverandi fjármálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra, yrði leiddur fyrir rétt bráðlega fyrir kynferðisglæpi og réttarhöldin ættu að fara fram fyrir opnum tjöldum.
Yfirvöld í Malasíu ákæra Anwar fyrir kynferðisglæpi

Boða réttarhöld

fyrir opnum tjöldum

Kuala Lumpur. Reuters.

YFIRVÖLD í Malasíu tilkynntu í gær að andófsmaðurinn Anwar Ibrahim, fyrrverandi fjármálaráðherra og aðstoðarforsætisráðherra, yrði leiddur fyrir rétt bráðlega fyrir kynferðisglæpi og réttarhöldin ættu að fara fram fyrir opnum tjöldum. Bandaríska sjónvarpið CNBC sýndi skilaboð, sem Anwar er sagður hafa tekið upp á myndband fyrir börn sín nokkrum klukkustundum áður en hann var handtekinn á sunnudag, og hann lýsir þar ásökunum stjórnvalda á hendur sér sem "siðlausum lygum".

Yfirvöld í Malasíu gagnrýndu umfjöllun erlendra fjölmiðla um handtöku Anwars og götumótmæli stuðningsmanna hans í Kuala Lumpur fyrr í vikunni og sögðu að erlendum fréttastofum yrði ekki leyft að nota ríkissjónvarpið RTM til að senda út "neikvæðar fréttir" frá Malasíu.

Opinbera fréttastofan Bernama skýrði enn fremur frá því að fjórir menn hefðu verið ákærðir í gær fyrir að breiða út flugufregnir á alnetinu um að óeirðir hefðu blossað upp í Kuala Lumpur í liðnum mánuði. Flugufregnirnar urðu til þess að gengi gjaldmiðils landsins lækkaði verulega. Talið er að með saksókninni vilji yfirvöld vara andófsmenn við því að þeir komist ekki upp með að nota netið til að kynda undir ólgunni í landinu.

Lögreglan hótar hörðum aðgerðum

Abdul Rahim Noor, lögreglustjóri Malasíu, varaði við því að lögreglan og herinn myndu grípa til harðra aðgerða til að binda enda á mótmæli stuðningsmanna Anwars, sem hafa krafist þess að Mahathir Mohamad forsætisráðherra segi af sér.

"Anwar er heill á húfi," sagði lögreglustjórinn. "Réttarhöldin verða sanngjörn, þannig er réttarkerfi okkar. Réttað verður fyrir opnum tjöldum."

Anwar sagði í myndbandsupptökunni, sem var ætluð syni hans og fimm dætrum, að hann byggist við því að Mahathir myndi grípa til "örþrifaráða". "Þess vegna, börn mín, vil ég láta ykkur vita að ásakanirnar á hendur föður ykkar eru siðlausar lygar."

Anwar sakaði stjórnmálamenn og fjármálamenn um samsæri gegn sér og sagði ástæðuna þá að þeir óttuðust að hann myndi afhjúpa spillingu þeirra þegar hann kæmist til valda.

Ákæran á hendur Anwar er í 12 liðum og hann er þar sakaður um kynmök við vændiskonur, homma, kynskiptinga og útlendinga.

Eiginkona Anwars, Wan Azizah, var í fyrradag færð til yfirheyrslu hjá lögreglu, sem hótaði henni handtöku eftir að hún sagði fréttamönnum að yfirvöld myndu hugsanlega smita Anwar af HIV-veirunni til að renna stoðum undir ásakanir um að hann hefði gerst sekur um kynmök við homma, sem er bannað með lögum í Malasíu.