HUNDRAÐASTA tölvustýrða skurðarvélin frá Marel var afhent forsvarsmönnum Útgerðarfélags Akureyringa í gær. Skurðarvélin, sem byggir á tölvusónartækni, tekur mynd af hverju flaki og ákvarðar hvaða bita er hagkvæmast að skera úr hverju flaki og sker þá síðan með meiri nákvæmni en mannshöndin getur að jafnaði gert. Afköst vélarinnar eru 1.200 til 1.800 kíló á klukkustund.
Tölvustýrðar skurðarvélar frá Marel ÚA kaupir 100. vélina

HUNDRAÐASTA tölvustýrða skurðarvélin frá Marel var afhent forsvarsmönnum Útgerðarfélags Akureyringa í gær.

Skurðarvélin, sem byggir á tölvusónartækni, tekur mynd af hverju flaki og ákvarðar hvaða bita er hagkvæmast að skera úr hverju flaki og sker þá síðan með meiri nákvæmni en mannshöndin getur að jafnaði gert. Afköst vélarinnar eru 1.200 til 1.800 kíló á klukkustund.

Með kaupum ÚA á skurðarvélinni er félagið að setja upp þriðju Marel skurðarvélina í fiskvinnsluna hjá sér. Það gerir ÚA að einum afkastamesta fiskbitaframleiðenda í heimi nú um stundir. ÚA endurnýjaði vinnslubúnað sinn á sl. ári í samstarfi við Marel og fleiri en það hefur skilað sér í auknum afköstum og betri nýtingu hráefnis í verðmætari afurðir.

Marel hóf framleiðslu á tölvustýrðu skurðarvélinni árið 1994. Í upphafi var markmiðið að skera fiskflök í bita af ákveðinni stærð en notkunarsviðið hefur þróast í að skera heilan lax í bita, nauta- og svínakjöt í ákveðnar sneiðar ásamt því að skera niður kjúklinga og kalkún í bita eða strimla. Jafnframt því er vélin nýtt um borð í frystitogurum.

Vélin hefur verið seld til yfir 10 landa og er Marel nú stærsti framleiðandi í heiminum á tölvustýrðum skurðarvélum fyrir matvælaiðnað.