ÁRATUGUM saman hefur þjóðinni verið talin trú um að hún lifi eingöngu á fiski. Sumir þingmenn og jafnvel ráðherrar halda að 80% af þjóðarframleiðslunni megi rekja til fiskveiða og vinnslu en hið rétta er að einungis 9% af verðmætasköpun hagkerfisins má rekja til fiskveiða og önnur 5% til fiskvinnslu. Einungis 10% vinnuaflsins starfa við veiðar og vinnslu.
Hagfræði Kaldors, GSP og LÍÚ Sú stefna, sem alið er á í auglýsingu LÍÚ, segir Ingólfur Bender , á rætur sínar í hagfræði þess tíma þegar minna var vitað en nú er um uppruna hagvaxtar og hagsældar þjóða.

ÁRATUGUM saman hefur þjóðinni verið talin trú um að hún lifi eingöngu á fiski. Sumir þingmenn og jafnvel ráðherrar halda að 80% af þjóðarframleiðslunni megi rekja til fiskveiða og vinnslu en hið rétta er að einungis 9% af verðmætasköpun hagkerfisins má rekja til fiskveiða og önnur 5% til fiskvinnslu. Einungis 10% vinnuaflsins starfa við veiðar og vinnslu.

Kaupmáttur úr hafinu

"Það lóðar á betri tímum!" er yfirskrift auglýsingar sem birt var í Morgunblaðinu laugardaginn 19. september sl. Auglýsingin er liður í svokölluðu fræðsluátaki LÍÚ og sú fyrsta í röð opnuauglýsinga sem eiga að birtast í blaðinu næstu laugardaga. Hin virta auglýsingastofa GSP, sem meðal annars samdi slagorðið Mjólk er góð og vann fyrir sigurvegarann í síðustu forsetakosningum, hefur sem sé fengið það hlutverk að segja okkur að hækkandi seiðavísitala þorsks sé að skila þjóðinni auknum kaupmætti og hagsæld. Ég sé fyrir mér að á næstu vikum verði okkur talin trú um að það sé þjóðinni fyrir bestu að fáeinum aðilum séu gefnar auðlindir fiskimiðanna við Ísland til að versla með sín á milli.

Í auglýsingunni segir í feitletruðum texta: "Fyrstu vísbendingar um þróun kaupmáttar á Íslandi sjáum við alltaf í hafinu." Það má til sanns vegar færa því að sveiflur í fiskveiðum hafa jafnan raskað stöðugleika hagkerfisins og birst þannig í sveiflukenndum kaupmætti launa. Við sjáum þetta m.a. á því að launaþróun í iðnaði hefur fremur fylgt heildaraflatekjum en framleiðni í iðnaði. Ferlið hefur kostað ótal gengisfellingar, valdið verðbólgu, dregið úr fjölbreytni atvinnulífsins og leitt til þess að velferð hér er minni en ella. Við getum að minnsta kosti tekið undir það að hagsveiflurnar koma úr hafinu.

Það var þessi gamla lumma um að kaupmátturinn komi úr hafinu, skreytt með seiðavísitölu þorsks og mynd af þróun kaupmáttar hér á landi frá 1990, sem varð tilefni þessarar greinar. Grunnurinn að þeirri kaupmáttaraukningu, sem við upplifum nú, var lagður með samstilltu átaki þjóðarinnar. Verðbólgunni var komið niður fyrir tveggja stafa tölu í upphafi þessa áratugar. Stefna stöðugleika og aukins frjálsræðis var mótuð og á grundvelli hennar var hafin endurreisn atvinnulífsins eftir að uppsveifla í fiskveiðum hafði enn eina ferðina sprengt þakið af samkeppnisstöðunni og botninn úr hagkerfinu á síðasta áratug. Kaupmáttaraukningin nú, að því marki sem hún er varanleg, er þess vegna ekki hvalreki úr hafinu heldur afleiðing af þessari stefnu stöðugleika og frjálsræðis.

Úrelt mismunun

Sérgreind atvinnustefna hefur verið ríkjandi hér á landi sem og víða annars staðar. Sú stefna, sem alið er á í auglýsingu LÍÚ, á rætur sínar í hagfræði þess tíma þegar minna var vitað en nú er um uppruna hagvaxtar og hagsældar þjóða. Sú hagfræði byggðist á þeim djúpstæða misskilningi að sumar atvinnugreinar væru í alla staði mikilvægari og því rétthærri en aðrar. Sérstaklega voru það útflutningsgreinarnar sem nutu hylli en hinar voru litnar hornauga ­ jafnvel kallaðar afætur.

Nýlega kom hingað til lands í boði Samtaka iðnaðarins prófessor við Cambridge-háskóla að nafni Robert Rowthorn. Hann er frægur fyrir skrif sín um orsakir minnkandi vægis iðnaðar í vinnuaflsnotkun þjóða. Flutti hann um það erindi í boði samtakanna. Í hagfræðinni er hann þó ef til vill þekktastur fyrir að hafa afsannað villukenningu um uppruna hagvaxtar sem víða var lögð til grundvallar sérgreindri atvinnustefnu á sjöunda og áttunda áratugnum. Kenningin er kölluð lögmál Kaldors.

Lögmál Kaldors

Lögmál þetta spratt upp úr vangaveltum breska hagfræðingsins Nickulásar Kaldors um höft hagvaxtar. Hélt hann því fram að hagvöxtur væri hægari þegar útflutningsgreinarnar kepptu á jafnræðisgrundvelli við aðrar greinar ­ afæturnar ­ um vinnuaflið. Í villu sinni mælti hann með því sem varð að veruleika í Bretlandi árið 1966 þegar komið var á sérgreindum tekjuskatti í þeim tilgangi að hvetja fólk til að vinna við útflutningsgreinarnar en flýja hinar.

Skattur þessi var að allri gerð svipaður og sjómannaafslátturinn sem fyrirfinnst í okkar skattkerfi. Sjómannaafslátturinn og margs konar viðlíka sértækar aðgerðir undanfarinna áratuga, sem of langt væri upp að telja, byggjast á viðlíka villutrú.

Rowthorn sannaði svo hressilega að lögmál Kaldors væru staðlausir stafir í grein sem hann skrifaði í Journal of Economics árið 1975 að Kaldor sjálfur lýsti sitt eigið hugverk dautt og ómerkt sama ár. Sérgreindi tekjuskatturinn var aflagður í Bretlandi en sjómannaafslátturinn er hér enn við lýði. Kaldor gamli ætlar að tóra lengi á Íslandi.

Spor í rétta átt?

Að undanförnu hefur mönnum orðið tíðrætt um nauðsyn þess að auka þjóðhagslegan sparnað til að sporna gegn þenslu í íslenskum þjóðarbúskap. Ýmsar leiðir hafa verið nefndar s.s. aukið aðhald í opinberum rekstri, að nýta þær skatttekjur sem góðærið skapar til að greiða niður erlendar skuldir og hvetja einkaaðila til sparnaðar. Mér er ljóst að stjórnvöld telja það fráleitt að útgerðin greiði neitt fyrir auknar aflaheimildir, þrátt fyrir hækkandi verð á sjávarafurðum. Má ef til vill leggja til að tækifærið verði þó notað til að leggja af þá mismunun sem felst í sjómannaafslættinum? Um er að ræða ríflega einn og hálfan milljarð króna og munaði um minna til að "lækka hitann" í hagkerfinu ef sú fjárhæð væri nýtt til að greiða niður erlendar skuldir.

Stóra spurningin er auðvitað þessi: Ætla stjórnvöld að gera eitthvað til þess að draga úr vaxandi þenslu sem kynt er undir með auknum afla og hækkandi verði á sjávarafurðum eða á þessi uppsveifla í hagskerfinu að leiða til verðbólguholskeflu eins og allar hinar?

Höfundur er hagfræðingur Samtaka iðnaðarins. Ingólfur Bender