HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra segir að Ísland muni styðja viðleitni til þess að semja á vettvangi Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO) um afnám ríkisstyrkja til sjávarútvegs. Þetta kom fram í ræðu ráðherrans á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í gærkvöldi.
Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra á allsherjarþingi SÞ

Vill reglur um afnám

sjávarútvegsstyrkja

HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra segir að Ísland muni styðja viðleitni til þess að semja á vettvangi Heimsviðskiptastofnunarinnar (WTO) um afnám ríkisstyrkja til sjávarútvegs. Þetta kom fram í ræðu ráðherrans á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í New York í gærkvöldi.

Utanríkisráðherra gerði sjávarútvegsmál að meginumfjöllunarefni sínu og sagði í ræðu sinni að tryggja yrði að hægt yrði að halda áfram skynsamlegri nýtingu lifandi auðlinda sjávar og að efnahagsleg framþróun og vernd lífríkisins héldust í hendur. "Til þess að treysta kraftmikinn og ábatasaman sjávarútveg verða ríki að innleiða grundvallarreglur einkaframtaksins í sjávarútveginum og leyfa afurðum hans að keppa á frjálsum markaði," sagði Halldór.

Sjávarútvegurinn kaffærður með styrkjum

Hann gat þess að Íslendingar hefðu náð góðum árangri í fiskveiðistjórnun með kvótakerfinu, sem tryggði bæði vernd fiskveiðiauðlindarinnar og sjálfbæra nýtingu hennar. Aftur á móti væri sjávarútvegur víða um heim illa staddur vegna ofnýtingar auðlindanna. Halldór sagðist telja að þetta væri einkum vegna þess að sjávarútvegurinn hefði verið kaffærður með ríkisstyrkjum, sem hefðu leitt til umframveiðigetu og röskun á markaðnum. Engin aðgerð væri betur til þess fallin að stuðla að sjálfbærri þróun fiskveiða en að afnema ríkisstyrki til atvinnugreinarinnar.

"Ísland myndi styðja frumkvæði í þá átt að gera reglur um ríkisstyrki í sjávarútvegi, helzt útrýmingu þeirra, að sérstöku umræðuefni í næstu lotu samningaviðræðna innan WTO," sagði Halldór.

WWF telur kvótakerfi geta leyst ofveiðivandann

Hann gat þess að í ýmsum skýrslum Sameinuðu þjóðanna væri gefið í skyn að ofveiði væri alls staðar vandamál og að strandríkjum hefði mistekizt að stýra auðlindunum í efnahagslögsögu sinni. Þetta væri hins vegar ekki rétt. Halldór benti á nýja skýrslu umhverfisverndarsamtakanna World Wide Fund for Nature (WWF), þar sem fram kæmi að of mikil veiðigeta fiskveiðiflotans og ríkisstyrkir í sjávarútvegi væru meginorsakir ofveiði. Í skýrslunni væri réttilega bent á að ein lausn vandans væri sú að veita útgerðarfyrirtækjum framseljanleg réttindi til að veiða ákveðna aflahlutdeild, eins og hefði reynzt vel á Nýja-Sjálandi, Íslandi og í Ástralíu.