Húsavík-Borgarhólsskóli á Húsavík bauð til fagnaðar nýlega til að kynna þær byggingar sem nú er nýlokið við skólann og úrslit samkeppni sem efnt var til á sl. vori um merki fyrir skólann.
Nýtt merki Borgarhólsskóla

Húsavík - Borgarhólsskóli á Húsavík bauð til fagnaðar nýlega til að kynna þær byggingar sem nú er nýlokið við skólann og úrslit samkeppni sem efnt var til á sl. vori um merki fyrir skólann.

Skólastjórinn, Halldór Valdimarsson, sagði að fleiri tillögur um merki hefðu borist en búast hefði mátt við en alls bárust 70 tillögur frá 27 höfundum.

Dómnefnd skipuð valinkunnum mönnum hefði verið vandi á höndum en hefði úrskurðað sigurvegarann Baldur Kristjánsson frá Hólmavaði og voru honum veitt sigurlaunin.

Viðstöddum voru síðan boðnar veitingar og sýndi Halldór skólastjóri þeim skólann. Í honum eru alls 25 kennslustofur, góð vinnuaðstaða fyrir kennara auk samkomusalar. Aðeins væri ein grein skólastarfsins ekki búin að fá þá aðstöðu sem henni væri ætluð en það væri verkmenntunin. Gert væri ráð fyrir að úr því yrði bætt á næsta ári.

Morgunblaðið/Silli NÝTT merki Borgarhólsskóla.