FORRÁÐAMENN Vatnsleysustrandarhrepps hafa ákveðið að freista þess að neyta forkaupsréttar vegna sölu á hluta jarðarinnar Þórustaða á Vatnsleysuströnd sem Hitaveita Reykjavíkur festi nýlega kaup á vegna hitaréttinda við Krísuvík. Kaupverðið var 35 milljónir króna. Ætlan hreppsins er að selja Hitaveitu Suðurnesja hitaréttindi og fjármagna með því kaupin.
Vilja kanna forkaupsrétt á Þórustöðum

FORRÁÐAMENN Vatnsleysustrandarhrepps hafa ákveðið að freista þess að neyta forkaupsréttar vegna sölu á hluta jarðarinnar Þórustaða á Vatnsleysuströnd sem Hitaveita Reykjavíkur festi nýlega kaup á vegna hitaréttinda við Krísuvík. Kaupverðið var 35 milljónir króna. Ætlan hreppsins er að selja Hitaveitu Suðurnesja hitaréttindi og fjármagna með því kaupin.

Jóhanna Reynisdóttir, sveitarstjóri Vatnsleysustrandarhrepps, upplýsti í viðtali við Morgunblaðið í gær að hreppurinn ætti að geta neytt forkaupsréttar vegna þess að jörðin væri landbúnaðarjörð en leggist búskapur af á jörðinni þarf samþykki hreppsins að koma til. Slíkt samþykki hafi ekki verið veitt en jörðin hefur að undanförnu aðallega verið nýtt vegna hrossa. Jóhanna sagði hreppinn heldur ekki hafa samþykkt þá tvískiptingu jarðar ofan og neðan vegar sem gerð hafi verið en Hitaveita Reykjavíkur keypti jarðarhlutann ofan vegar, þ.e. sunnan vegar. Þurfi til þess einnig samþykkti jarðarnefndar auk umsagnar landbúnaðarráðuneytis og Bændasamtakanna.

Sveitarstjórinn segir að sýslumaður hljóti að kanna hugsanlegan forkaupsrétt þegar hann fær kaupsamning í hendur til þinglýsingar og þar með eigi Vatnsleysustrandarhreppur að geta komið formlega inn í málið. Hún telur óeðlilegt að Reykjavíkurborg sé að seilast í hitaréttindi, sem Hitaveita Suðurnesja hefur þegar lýst áhuga á að nýta, og segir að fái hreppurinn að ganga inn í kaupin muni Hitaveitu Suðurnesja verða seld hitaréttindi og þannig sé hugmyndin að fjármagna kaupin.