RANNSÓKNASTOFNUN fiskiðnaðarins stendur fyrir ráðstefnu á Hótel Loftleiðum þriðjudaginn 29. september undir yfirskriftinni "Aðferðir til að meta ferskleika fisks." Ráðstefnan er sú fyrsta af nokkrum slíkum sem Rf mun standa fyrir undir merki FLAIR FLOW,
Ráðstefna um ferskleikamat fisks

RANNSÓKNASTOFNUN fiskiðnaðarins stendur fyrir ráðstefnu á Hótel Loftleiðum þriðjudaginn 29. september undir yfirskriftinni "Aðferðir til að meta ferskleika fisks." Ráðstefnan er sú fyrsta af nokkrum slíkum sem Rf mun standa fyrir undir merki FLAIR FLOW, en það er sérstakt átaksverkefni á vegum Evrópusambandsins til að vekja athygli á og miðla upplýsingum um rannsóknir sem tengjast matvælaiðnaði, segir í fréttatilkynningu.

Á ráðstefnunni mun Guðrún Ólafsdóttir, matvælafræðingur á Rf, flytja erindi um mat á ferskleika fisks, og Emilía Martinsdóttir, efnaverkfræðingur á Rf, og Ólafur Magnússon, fulltrúi Tæknivals, munu kynna verkefnið "Tölvuvætt skynmat í fiski". Þá mun Andrew Pepper frá Tesco Stores Ltd. í Bretlandi flytja erindi um mat á ferskleika fisks, með neytendur í huga. Loks mun Hjördís Sigurðardóttir, gæðastjóri Bakka hf. í Bolungarvík, fjalla um þörfina á gæðamælingum í fiskvinnslu á Íslandi.

Ráðstefnan hefst kl. 8.15 og stendur til kl. 12.15. Aðgangur er ókeypis og er fólk í matvælaiðnaði sérstaklega hvatt til að mæta.