ÁFRÝJUNARNEFND samkeppnismála hefur hafnað ósk Visa Ísland um að fresta réttarákvörðun úrskurðar samkeppnisyfirvalda um bann við tilteknum skilmálum sem greiðslukortafyrirtækin hafa sett í samningum sínum við verslanir og þjónustufyrirtæki en Visa hefur höfðað mál til að fá úrskurðinn ógiltan. Kaupmönnum verður því heimilt eftir 1.
Bann við skilmálum greiðslukortafyrirtækjanna tekur gildi 1. október

Kaupmenn þurfa að auglýsa álag við inngöngudyr

ÁFRÝJUNARNEFND samkeppnismála hefur hafnað ósk Visa Ísland um að fresta réttarákvörðun úrskurðar samkeppnisyfirvalda um bann við tilteknum skilmálum sem greiðslukortafyrirtækin hafa sett í samningum sínum við verslanir og þjónustufyrirtæki en Visa hefur höfðað mál til að fá úrskurðinn ógiltan. Kaupmönnum verður því heimilt eftir 1. október að innheimta sérstakan kostnað í kreditkortaviðskiptum en þurfa að auglýsa það sérstaklega við inngöngudyr verslunar.

Þeir skilmálar sem samkeppnisráð og áfrýjunarnefnd samkeppnismála bönnuðu fela meðal annars í sér að söluaðila er skylt að veita korthöfum sömu viðskiptakjör, verð og þjónustu og þeim sem greiða með reiðufé, og að söluaðila sé óheimilt að hækka verð á vöru eða þjónustu sé greiðslukorti framvísað við kaupin. Upphaflegur úrskurður var kveðinn upp í janúar en réttaráhrifum hans var frestað til 1. október. Visa Ísland sem alla tíð hefur barist á móti breytingunni, hefur nú ákveðið að láta reyna á réttmæti úrskurðarins fyrir dómstólum og höfðaði mál 2. þessa mánaðar. Jafnframt var þess farið á leit við samkeppnisyfirvöld að réttaráhrifum ákvörðunarinnar yrði enn frestað, þar til endanleg niðurstaða dómstóla lægi fyrir. Því hafnaði áfrýjunarnefnd samkeppnismála í gær. Nefndin telur sig ekki hafa vald til þess að fresta gildistöku úrskurðarins vegna málshöfðunar.

Ekki miklar breytingar

Sigurður Jónsson, framkvæmdastjóri Kaupmannasamtakanna, telur að ekki verði breytingar á vöruverði um mánaðamótin þegar úrskurðurinn tekur gildi. "Það kann að vera að einhverjir aðilar fari að leggja kostnað við greiðslukort ofan á verð til þeirra sem þannig greiða en þeir verða í miklum minnihluta. Viðskiptavinunum mun ekki hugnast það. Samkeppnin er það hörð að þeir sem hækka verðið missa einfaldlega viðskipti," segir Sigurður.

Framkvæmdastjóri Kaupmannasamtakanna hefur vakið athygli á því í bréfi til Samkeppnisstofnunar að útgefandi Eurocard, Europay Ísland, sem hefur um fjórðung viðskipta í greiðslumiðlun með kortum hér á landi, er ekki aðili að stefnu Visa Ísland. "Þar á bæ segja menn að þeir ætli ekki í stríð við sína viðskiptavini, verslanir og þjónustufyrirtæki, og að umrædd regla sé úrelt og óeðlileg," segir Siguður í bréfi sínu.

Auglýst við inngöngudyr

Í gær, eftir að endanlega varð ljóst að úrskurðurinn tekur gildi um mánaðamótin, gekk Samkeppnisstofnun frá nýjum reglum um verðmerkingar og sendi til birtingar í Stjórnartíðindum. Anna Birna Halldórsdóttir, yfirmaður neytendadeildar Samkeppnisstofnunar, leggur á það áherslu að tilgangurinn með úrskurði samkeppnisráðs sé ekki að hafa tvöfalt verð, heldur að gefa kaupmönnum frelsi til verðlagningar, og svigrúm til samninga við greiðslukortafyrirtækin. Í umræddum úrskurði samkeppnisráðs er einmitt bent á þann möguleika að samningar við greiðslukortafyrirtækin gætu leitt til lækkunar þjónustugjalda, eins og gerst hefur erlendis.

Í nýju reglunum um verðmerkingar er kveðið á um það að ef fyrirtæki innheimti sérstakan kostnað í kreditkortaviðskiptum, skuli það að minnsta kosti koma skýrt fram við inngöngudyr fyrirtækis. Reglur þessar voru sendar í gær til birtingar í Stjórnartíðindum og taka gildi við birtingu.